Eymdin í byggðakvótanum

Pistlar
Share

Starfshópur um byggðakvóta kynnti tillögur sínar á fundi á Þingeyri fyrr í vikunni. Breytingum voru settar þröngar skorður, í grautarpottinum er sama súpugutlið og áður og engu kjarngóðu má bæta við það. Aðeins á að hræra aftur og aftur með sömu sleifinni. Nefndarmenn eru ekki öfundsverðir við það starf að finna betri leiðir til þess að úthluta byggðakvótanum. Vafalaust tekst þeim að finna tillögur sem ætla má að til gagns megi verða. En aðeins 5% af kvótanum er til ráðstöfunar til þess að milda ranglæti kvótakerfisins, 12.200 tonn segja ekki mikið en er ætlað að verka sem plástur á ný blæðandi sár á mörgum stöðum á landinu sem kvótakerfið opnar á hverju einasta ári.

Einokun, arðrán, kúgun

Kvótakerfið er einkaleyfakerfi og einokunarkerfi sem færir fáum gífurleg verðmæti með úthlutun kvóta langt undir markaðsvirði. Kerfið hefur raskað jafnvæginu í þjóðfélaginu þar sem handhafar kvótans hafa fengið mikil völd yfir hag íbúanna. Þeir bera enga ábyrgð gagnvart öðru fólki og samfélögum. Kvótaliðið er orðið að fámennri stétt manna sem deilir og drottnar í einstökum byggðarlögum og í vaxandi mæli krefst skilyrðislausrar undirgefni almúgans. Þeir færa kvótann til og frá eftir eigin geðþótta og hirða allan ávinning af framsalinu og stinga í eigin vasa. Ákvarðanir kvótahafa geta skaðað þúsundir fjölskyldna bæði hvað varðar atvinnutekjur og verðmæti eigna. En kvótahafarnir eru gerðir ábyrgðarlausir af afleiðingum gjörða sinna. Almenningur ber allan skaðann – bótalaust.
Allt frá upphafi framsalsins 1990 hafa logað eldar undir kerfinu. Aldarfjórðungi seinna eru þeir enn logandi jafnglatt og í upphafi , enda koma til ný tilvik á hverju ári þar sem hagsmunir almennings eru fyrir borð bornir, nú síðast á Akranesi. Fljótlega var gripið til mótvægisaðgerða. Tekinn var frá kvóti, byggðakvóti, til þess að milda um tíma áhrifin af framsalinu. Þessi aðferð getur skilað árangri en þá þarf úrræðið að magni til að vera í samhengi við vandann, það er magnið sem var flutt burt. Því fer víðs fjarri.

Byggðakvótinn – ætluð vörn fyrir ranglætið

Eftir nokkur ár varð ljóst að kvótahafarnir ætluðu ekki að una því að byggðakvótinn yrði einhvers megnugur. Því er það svo að aðeins 5% kvótans er til þess að græða sárin eftir 95% kvótans. Það er vonlaust verkefni að ná umtalsverðum árangri með svo lítlu magni. En byggðakvótinn hefur verið notaður sem tæki til þess að lægja öldurnar. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegsráðherra sagði það skýrum orðum í ávarpi sínu á Þingeyri. Hún bætti um betur og sagði að strandveiðikerfið hefði sama hlutverki að gegna , að verja sjálft kvótakerfið. Bæði byggðakvótinn og strandveiðikerfið hafa því þann yfirlýsta tilgang að lægja aðeins öldurnar og koma þannig í veg fyrir að nægilegur stuðningur verði til þess að taka á meinsemdinni sjálfri.
Byggðakvóta er sáldrað út ókeypis á fáeina aðila í hverju byggðarlagi. Þeir sem fá ölmusuna borga fyrir sig með því að una kvótakerfinu og slá skjaldborg um ranglætið. Á þann hátt verða til nægilega margir varðhundar kvótakerfisins sjálfs. En árangurinn er líka í samræmi við vanmáttinn. Í meginatriðum hefur eymdin orðið viðvarandi þrátt fyrir byggðakvótann eða strandveiðina. Þessi úrræði hafa ekki fært nokkurt byggðarlag aftur á beinu brautina eftir að hafa orðið fyrir áfalli. Þau hafa um tíma linað þjáningarnar en ekki meir. Úrræðin hafa viðhaldið eymdinni sem kerfið bjó til.

Sjónhverfingar

Menn geta leikið sér að því að hræra fram og aftur með þessu fáu tonn. Af því verður lítill sem enginn árangur. Það verður engin von um viðsnúning fyrr en magn byggðakvóta verður margfaldað. Byggðakvótinn þarf svo að vera óaðskiljanlegur byggðarlaginu og vera ráðstafað á markaðsverði. Tekjurnar eiga síðan að ganga til þess að byggja upp þjónustu og atvinnu í byggðarlaginu. Þá er byggðakvótinn vís leið til þess að snúa vörn í sókn. En þá opnast augu manna fyrir því að vandinn liggur í almennu reglunum um úthlutun og ráðstöfun kvótans og eina skynsama leiðin er að breyta reglunum um 95% kvótans.

Byggðakvótinn og reyndar strandveiðikerfið líka hafa verið notuð til þess að villa um fyrir fólki, beina sjónum þess frá meinsemdinni og að aukaatriðinu. Þegar búið verður að breyta almennu leikreglunum og tryggja það að byggðarlögin njóti góðs af verðmætunum sem sjávarútvegurinn býr til og að ávinningurinn af hagræðingu og tækniframförum verður eftir atvikum notaður til þess að bæta þeim skaðann sem breytingarnar hverju sinni leiða af sér mun ólgan undir kvótakerfinu sjatna og byggðakvóti og strandveiðiréttur munu verða eðlilegur hluti af kerfinu öllum til hagsbóta – en fyrr ekki.

Kristinn H. Gunnarsson

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir