Brot gegn almennu trausti

Pistlar
Share

Mál Páls J. Pálssonar, alþingismanns dregur fram fram þá djúpu gjá sem komin er milli almennings og hóps eignamanna í þjóðfélaginu. Heill fjallvegur er á milli í skilningi á hæfi og vanhæfi. Almenningur styðst við þær reglur sem lögfestar voru fyrir rúmum 20 árum í stjórnsýslulögum og voru þær þá engin nýlunda og höfðu rutt sér til rúms smátt og smátt á löngum tíma þar áður. Þessar reglur hafa hins vegar ekki náð til Alþingis vegna andstöðu innan Alþingis. Þar hefur reynst vera sterkasta vígi nær ótakmarkaðs svigrúms til þess að hygla sér og sínum á þann hátt að utan þess vettvangs hafa menn roðnað og blygðast sín hafi þeir verið staðnir að álíka sérhagsmunagæslu.

Í stjórnsýslulögunum frá 1993 eru settar reglur sem gilda um alla stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, það er að segja alla embættismenn og ráðherra. Í sveitarstjórnarlögunum eru þessar sömu reglur útvíkkaðar og taka til kjörinna sveitarstjórnarmanna. Eftir stendur að alþingismenn eru einir undanþegnir almennu kröfunum um hæfi og vanhæfi. Það er ekki nein tilviljun. Það kemur skýrt fram í máli alþingismannsins sem jafnframt er eigandi í útgerðarfyrirtækjum. Honum finnst það eðlilegt að hann geti beitt sér innan síns flokks fyrir lagasetningu um makrílveiðar sem færir honum 50 milljónir króna í eigin vasa. Að vísu hefur Páll J. Pálsson dregið í land segist ekki ætla að greiða atkvæði, en hann mun áfram beita sér fyrir framgangi málsins innan flokks, þingflokks og þingnefndar.

Það er nauðsynlegt að rifja upp hvernig almennu hæfis og vanhæfisskilyrðin eru. Starfsmaður eða nefndarmaður er vanhæfur ef hann er aðili máls, er eða hefur verið maki aðila eða mægður aðila í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar. Vanhæfið er einnig fyrir hendi ef viðkomandi á sjálfur sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta, venslamenn hans skv. upptalningunni að framan.

Það er óumdeilanlegt að þingmaðurinn er algerlega vanhæfur ef beitt er þeim reglum sem almennt gilda um embættismenn eða sveitarstjórnarmenn. Þá eru reglurnar líka skýrar. Þær kveða á um að „sá sem er vanhæfur til meðferðar máls má ekki taka þátt í undirbúningi, meðferð eða úrlausn þess“ og „ skal yfirgefa fundarsal við afgreiðslu þess“.

Makrílkvóti er eins og hver önnur verðmæti sem hægt er á markaði að breyta í reiðufé. Það eru nógir kaupendur og bankarnir eru fúsir til lána væntanlegum kaupanda fé til þess að greiða fyrir kvótann. Alþingismaðurinn er bæði leynt og ljóst að nota áhrif sín til þess að geta sótt sér 50 mkr af almannafé. En af hverju á hann að fá 50 mkr fremur en að nota þær til að greiða lyf og læknisþjónustu eða bæta kjör aldraðra? Hvenær varð það eðlilegt að gefa fé ríkisins til útvalins hóps sem valdi sig sjálfur?

Dr Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, stjórnsýslufræðingur skrifar athyglisverða grein um spillingu í blaðið Vestfirðir. Þar bendir hún á nýja tegund spillingar sem hafi skotið upp kollinum með umbreytingu hagkerfa frá ríkisbúskap til markaðsbúskapar. Það kallar dr. Sigurbjörg brot gegn almennu trausti. Það gerist þegar einstaklingar nýta sér í eigin þágu upplýsingar og vald sem þeim er falið til þess að fylgja eftir hagsmunum annarra og þá á kostnað þessara sömu annarra. Einstaklingurinn sem misnotar aðstöðu sína svona er að skara eld að eigin köku á kostnað þeirra sem hann á að vera vinna fyrir. Framferði alþingismannsins er brot gegn almennu trausti. Tekið er undir orð bandaríska hæstaréttardómarans Louis Brandeis, sem dr. Sigurbjörg vitnar til í grein sinni: „Við getum haft lýðræði eða við getum látið auðinn safnast á hendur fárra, en við getum ekki haft hvoru tveggja.“

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir