Baráttan um auðlindina fyrir dómstólum

Pistlar
Share

Útgerðarmenn hafa fyrir dómstólum sótt hart að almannahagsmunum á undanförnum árum. Kröfur þeirra hafa í meginatriðum verið að viðurkenndur verði eignarréttur þeirra að nýtingu fiskimiðanna og að stjórnvöld eigi að láta allan arðinn af auðlindinni renna í vara útgerðarinnar. Dómstólar hafa hingað til hafnað kröfum þeirra.

Nýjasta dæmið um ágengni útgerðarinnar er málshöfðun útgerðarfélagsins Glófaxa. Það hefur stefnt ríkinu fyrir dómstóla og krefst skaðabóta þar sem hagnaður fyrirtækisins á árunum 2012 – 2015 hafi orðið minni en ella vegna aðgerða ráðherra sem úthlutaði meiri kvóta í skötusel en fiskifræðingar höfðu ráðlagt. Félagið segist hafa keypt töluverðan kvóta, aflahlutdeild og telur að gróði þess hafi minnkað vegna meiri leyfðrar veiði. Þetta mál er nú fyrir héraðsdómi.

Þetta er athyglisvert sjónarmið. Það hefur oft verið vikið frá ráðgjöf fiskifræðinga bæði til aukningar og eins á hinn veginn. Það hefur líka oft komið í ljós að mat fiskifræðinga breyttist síðar og upphafleg ráðgjöf var því röng að þeirra eigin mati. Ef taka á þessi málshöfðun alvarlega þá ætti ríkið að vera skaðabótaskylt þegar vikið er frá ráðgjöf. Það hefur hins vegar ótal sinnum verið gert allar götur frá 1990 þegar lögin voru sett. Oft var niðurskurður í þorskveiði mildaður með auknum heimildum í veiði á öðrum tegundum hvað svo sem leið ráðgjöf fiskifræðinga í þá stofna. Spyrja má forsvarsmenn Glófaxa hverjir eiga að borga skaðabæturnar.

Skötuselurinn

Skötuselur var um tíma frá 2010 leigður með sérstöku lagaákvæði. Mátti leiga 1200 tonn á ári gegn sérstöku gjaldi sem var 176 kr/kg. Veiðarnar voru eftir sem áður ábatasamar og markaðsverð á skötuselskvóta var um það bil tvöfalt hærra en gjaldið sem ríkið tók.

LÍÚ brást hart við þessu og höfð voru uppi stóryrði af þeirra hálfu. Formaður þeirra sagði í viðtali við Morgunblaðið: „Þetta mál snýst ekki um nokkur tonn af skötusel. Það snýst um forsendur aflamarkskerfisins sem hefur verið notað frá 1983. Við teljum að ef hægt er að auka kvótann þá eigi að úthluta honum til þeirra skipa sem hafa aflahlutdeild.“ Um þetta er tekist. Þeir sem hafa kvótann vilja fá allar tekjur af sölu og leigu kvótans og telja það ganga gegn kerfinu að ríkið taki til sín hluta af ágóðanum af veiðunum.

Fyrir dómstólum hafa verið rekin mál þar sem ríkinu var stefnt vegna þess að ekki var settur kvóti , kvóti var settur á of seint eða reglurnar um kvótasetninguna hafi verið rangar. Öll málin sérust um peningana sem eru í kvótanum. Dómstólar hafa sýknað ríkið í langflestum tilvikum og vísað til ákvæða 1. greinar laga um stjórn fiskveiða sem segir að úthlutun veiðiheimilda ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra manna yfir þeim.
Hæstiréttur hefur tvívegis sett í dóma sína eftirfarandi:

„Aflaheimildir eru þannig aðeins varanlegar í þeim skilningi að þær verða hvorki felldar niður né þeim breytt nema með lögum. Í skjóli valdheimilda sinna getur Alþingi því kveðið nánar á um réttinn til fiskveiða, bundið hann skilyrðum eða innheimt fyrir hann frekara fégjald en nú er gert vegna breyttra sjónarmiða um ráðstöfun þeirrar sameignar íslensku þjóðarinnar, sem nytjastofnar á Íslandsmiðum eru.“

Fyrri dómurinn er hinn frægi Vatneyrardómur sem féll árið 2000 og hinn síðari var 2013. Svigrúm Alþingis til þess að setja lög eða breyta þeim án bótaskyldu hefur verið staðfest rækilega. En útgerðarmenn halda áfram baráttu sinni fyrir einkaeignarrétti að miðunum. Meðal annars má minna á að Rammi hf krafðist þess að dæmt yrði ólöglegt að afnema kvóta á veiðum úthafsrækju árið 2010. Fyrirtækið hélt því fram að ráðherra væri skylt að setja kvóta og því var haldið fram að aflahlutdeildin ( ótímabundni kvótinn) væri atvinnuréttindi sem nytu verndar eignarréttarákvæða stjórnarskrárinnar. Þá hefði fyrirtækið skaðast fjárhagslega vegna þess að veiðarnar voru öllum heimilar.

Hæstiréttur hafnaði öllum kröfum Ramma hf og benti á að fyrirtækið hefði ekki gert grein fyrir ætluðu tjóni. Fimm ár eru liðin án þess að Rammi hf brugðist við. Enda varð fyrirtækið ekki fyrir neinu tjóni. Allt frá 2000/2001 hafði ekki verið veitt upp í leyfðar heildarkvóta af þeim einföldu ástæðum að tap var á veiðunum. Málshöfðunum snerist bara um að verja einokunina að miðunum því í krafti hennar geta kvótahafarnir dregið til sín arðinn.

Veiðigjaldið

Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum stefndi ríkinu vegna veiðigjaldsins og segir gjaldið vera eignarskatt án lagastoðar. Héraðsdómur Reykjavíkur felldi sinn dóm í byrjun ársins. Þar er öllum kröfum Vinnslustöðvarinnar hafnað. Vísað er í lögin um veiðigjald og almennum athugasemdum sem fylgdi með frumvarpinu þegar það var lagt fyrir Alþingi. Þar segir að gjaldtakan sé ekki skattheimta í hefðbundnum skilningi þess orðs, heldur leið til að tryggja almenningi beina hlutdeild í þeim arði sem auðlindin skilar á hverjum tíma.

Héraðsdómur vísar til þess í sínu dómsorði og segir: „Dómurinn telur að ljóst sé að álagning sérstaks veiðigjalds sé aðferð við fiskveiðistjórnun með það að markmiði að tryggja þjóðinni í heild hlutdeild í þeim arði, sem nýting sjávarauðlinda skapar.“ Útgerðin er á móti því að deila auðlindaarðinum með þjóðinni og véfengir að þjóðin eigi auðlindina. Lögin um veiðigjald voru sett í tíð síðustu ríkisstjórnar og núverandi ríkisstjórn hefur fengið því framgengt að lögin falla úr gildi í lok árs 2018. Auðlindaarðurinn er um 40 milljarðar króna á hverju ári.

pistinn birtist í Bæjarins besta 26. maí 2016.

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir