Alþingiskosningarnar: Krafa um breytingar en hikandi þó

Pistlar
Share

Úrslit Alþingiskosninganna í síðasta mánuði eru skýr krafa um breytingar á ýmsum sviðum þjóðlífsins. En kjósendur voru samt hikandi þegar kom að því að velja þá sem hrinda ættu breytingunum í framkvæmd. Fyrir vikið er framhaldið óljóst. Næsta ríkisstjórn getur verið borin uppi af fráfarandi ríkisstjórnarflokki og hún getur líka verið byggð á stjórnarandstöðunni. Á miðju stjórnmálanna eru ráðandi eftir þessar kosningar tveir flokkar, Björt framtíð og Viðreisn og þeir munu ráða því á hvern veg ríkisstjórnarmyndun mun skipast.

Ríkisstjórnin féll

Meginniðurstaða Alþingiskosninganna er að ríkisstjórnin féll. Fráfarandi ríkisstjórnarflokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur fengu aðeins 40% atkvæða samanlagt. Þeir misstu um 11% atkvæða frá kosningunum 2013. Lengi vel stefndi í mun meira tap flokkanna og kannanir bentu til þess að þeir fengju aðeins 30% atkvæða til samans. En á síðustu vikunni fyrir kosningarnar bættu þeir við sig 10% fylgi. Framsóknarflokkurinn tapaði 13% greiddra atkvæða frá 2013 sem jafngildir því að flokkurinn tapaði 53% atkvæðanna sem hann hlaut. Þetta var langmesta tap stjórnmálaflokks í þessum kosningum. Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig liðlega 2% atkvæða frá síðustu alþingiskosningum sem staðfestir þriðju kosningarnar í röð sögulega lágt fylgi hans.

Stjórnarandstöðunni mistókst

Önnur meginniðurstaða Alþingiskosninganna er að stjórnarandstöðunni mistókst að fá meirihluta kjósenda á bak við sig. Píratar, Vinstri grænir, Samfylkingin og Björt framtíð fengu samtals 43% atkvæða. Fyrir lokasprettinn höfðu stjórnarandstöðuflokkarnir fjórir lengi mælst með fylgi á bilinu 46 – 52% og voru með 14 – 20% forskot á fráfarandi stjórnarflokka. Þetta forskot hvarf að mestu síðustu viku kosningabaráttunnar, einkum vegna 7% fylgissveiflu til Sjálfstæðisflokksins og jafnmikillar sveiflu frá Pírötum. Stjórnarandstaðan fékk því ekki skýrt umboð til þess að taka við stjórn landsins. Þó ber að taka fram að stjórnarandstaðan fékk meira fylgi en ríkisstjórnarflokkarnir 43% á móti 40% og því ættu áherslur þeirra að hafa meiri áhrif á pólitískar línur á komandi kjörtímabili. Hins vegar fengu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur fleiri þingmenn kjörna en stjórnarandstaðan þrátt fyrir færri atkvæði og eru þeir með 29 þingmenn á móti 27 þingmönnum stjórnarandstöðunnar. Fyrir vikið er einkum Sjálfstæðisflokkur með sterkari stöðu á þinginu en kjörfylgi gefur til kynna.

Píratar öxluðu ekki ábyrgðina

Vendipunkturinn í kosningabaráttunni kom til vegna afleikja Pírata. Með því að efna til viðræðna milli stjórnarandstöðuflokkanna skömmu fyrir kosningar opinberuðust kjósendum frekar sundurlaus hjörð fjögurra flokka. Bæði Vinstri grænir og Björt framtíð voru ekki tilbúin í neinar stjórnarmyndunarviðræður fyrir kosningar og vildu fá að reka sína kosningabaráttu án þess að tengja sig um of við Pírata.

Fyrir Bjarta framtíð sem miðjuflokks var útspil Pírata óþægilegt enda voru þeir að reyna að höfða til kjósenda sem vildu ekkert endilega styðja Pírata til áhrifa. Þetta gerði það að verkum að forysta Bjartrar framtíðar fjarlægðist hina stjórnaranstöðuflokkana. Annar afleikur með viðræðunum var að útiloka Viðreisn og skilgreina þá utan mögulegs samstarfs eftir kosningar. Fyrir vikið varð atburðarrásin eftir kosningar þannig að Björt framtíð og Viðreisn tóku höndum saman og starfa sem miðjuflokkar á eigin forsendum óbundin öðrum stjórnarandstöðuflokkum.

Píratar opinberuðu sjálfir strax eftir kosningarnar veika stöðu sína með því að sækjast ekki eftir þátttöku í ríkisstjórn. Það lýsir því að þeir treysta sér ekki til þess að axla ábyrgð af beinni stjórnarþátttöku og sýnir líka að þeim er ljóst að nokkurt vantraust ríkir í þeirra garð frá öðrum stjórnarandstöðuflokkum. Pírötum mistókst að skapa sér tiltrú sem samstarfshæfur flokkur sem gæti haft forystu um stjórnarstefnu. Þeir eru of óagaðir og óreyndir.

Ný miðja

Hinar stóru pólitísku línur á Alþingi eftir þingkosningarnar eru að flokkarnir sem skipa sér lengst til vinstri og hægri, Vinstri grænir og Sjálfstæðisflokkurinn standa tiltölulega sterkt. Fylgi þeirra er ekkert sérstaklega mikið en þeir virðast vera sæmilega heilsteyptir. Flokkurinn sem átti að leiða breytingarnar í þjóðfélaginu, Píratar,missti tiltrú á lokasprettinum og getur ekki leitt breytingaferlið sem kjósendur eru þó að kalla eftir. Nýir flokkar hafa haslað sér völl á miðjunni Björt framtíð og Viðreisn en þeir gömlu Framsóknarflokkur og Samfylking liggja báðir óvígir eftir.

Viðreisn og Björt framtíð hafa með samstarfi sínu komist í lykilstöðu og eins og er munu ráða því hvaða ríkisstjórn verður mynduð. Eins og sjá mátti fyrir eftir afleiki Pírata fyrir kosningar hefur hin nýja miðja ákveðið að byrja á því að reyna stjórnarsamstarf til hægri. Báðir flokkarnir vilja breytingar í atvinnumálum og draga úr áhrifum hagsmunaaðila. Fylgi þeir eftir yfirlýstri stefnu getur orðið einhver stefnubreyting í mikilvægum málum. Sú breyting þarf ekki að verða minni en kann að nást fram gagnvart hinum hægfara vinstri flokki Vintri grænum. Enn standa mál þó þannig að óvíst er við hverja miðjuflokkarnir semja að lokum um stjórnarsamstarf.

Um forystumann Viðreisnar, Engeyinginn Benedikt Jóhannesson, er ekki ólíklegt að ýmsir munu segja líkt og Brandur biskup um Hvamm-Sturlu : enginn frýr þér vits en meir ertu grunaður um gæsku. En rétt er að hann fái að verða dæmdur af eigin verkum fremur en ættartengslum.

Kristinn H. Gunnarsson

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir