Aftur á byrjunarreit

Pistlar
Share

Fyrir nærri 20 árum varð uppstokkun á vinstri væng stjórnmálanna.
Þá ákváðu Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag, Kvennalisti og Þjóðvaki
að sameina krafta sína og mynda einn stjórnmálaflokk. Það var metið
svo á þeim tíma að pólitískar áherslur flokkanna fjögurra væru það mikið
samhljóða að fólkið innan þeirra gæti starfað saman. Tilgangurinn var sá að
búa til stjórnmálaafl sem yrði að afli og almennum stuðningi jafnoki hægri
flokksins Sjálfstæðisflokksins. Hið nýja afl var ætlað að breyta þjóðfélaginu í
samræmi við hugmyndafræði félagshyggjunnar og vera þannig mótvægi við
vaxandi markaðshyggju og frjálshyggju.

Tilraun sem tókst

Reyndar fór svo að til urðu tveir flokkar Samfylkingin og vinstri grænir í stað
eins. Fyrst var boðið fram undir þessari nýskipan í kosningunum 1999. Segja
má að árangurinn hafi verið í samræmi við hóflegar væntingar. Samanlagt fylgi
þessar tveggja flokka í þrennum alþingiskosningum frá 1999 til 2007 varð á
bilinu 37% til 41%. Bæði í kosningunum 2003 og 2007 voru félagshyggjuflokkarnir
tveir með meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn. Eftir hrun bankakerfisins
fengu Samfylkingin og Vinstri grænir hreinan meirihluta atkvæða eða 52% en
Sjálfstæðisflokkurinn aðeins 24% atkvæða.

Á aðeins 10 árum voru nýju flokkarnir komnir með yfirhöndina og höfðu
fengið skýrt umboð þjóðarinnar til þess að stjórna landinu og móta leikreglur
þjóðfélagsins. Stefna flokkanna var í mörgu samstíga þótt úrfærslur væri
mismunandi í ýmsum málum. Segja má að tilraunin hafði þá tekist og uppstokkun
flokkakerfisins hafði fært til valdahlutföllin á stjórnmálasviðinu frá
markaðshyggju til félagshyggju.

og mistókst

En þessi staða stóð stutt yfir og strax í næstu alþingiskosningum að fjórum
árum liðnum varð algert hrun í fylgi Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Í
kosningunum 2013 fengu þessir flokkar aðeins 24% atkvæða og misstu því 28%
af fylginu frá 2009. Það er meira en 50% fylgistap. Hins vegar tókst Sjálfstæðisflokknum
ekki að vinna aftur fyrra traust kjósenda og fékk aðeins 27% atkvæða.

Tap Samfylkingar og vinstri grænna fór í tvær áttir. Annars vegar til nýrra flokka
sem fengu samtals um 15% atkvæða, mest til Bjartrar framtíðar 8% og Pírata 5%.
Hins vegar jók Framsóknarflokkurinn fylgi sitt um 10% og fékk 24% atkvæða.
Þegar greind eru úrslitin og stefnumál nýju flokkanna má segja, með nokkurri
einföldun þó, að félagshyggjuöflin séu komin aftur á byrjunarreit. Það voru
fjórir flokkar sem hófu ferilinn með ákvörðun árið 1998 um sameiningu og
eftir kosningarnar 2013, aðeins fjórtán árum síðar voru þeir aftur orðnir fjórir,
Samfylkingi, Vinstri grænir, Björt framtíð og Píratar. Reyndar má færa rök fyrir
því að flokkarnir félagshyggjumegin séu nú sex eða fleiri en þeir voru 1998 með
því að taka með Dögun og Lýðræðisvaktina, sem buðu fram 2013 en fengu
ekki þingmann kjörinn. Meginniðurstaðan er sú að félagshyggjuflokkarnir eru
komnir aftur á byrjunarreit. Önnur niðurstaða er að undirstaða hægri vængs
stjórnmálanna, Sjálfstæðisflokkurinn hefur laskast verulega frá 1999 og er að
jafnaði um 10% fylgisminni.

Gengu inn í óbreytt valdakerfi

Eðlilega er spurt að því hver sé skýringin á þessum óförum Samfylkingarinnar
og Vinstri grænna. Hér verður tekið undir þá greiningu Ingibjargar Sólrúnar
Gísladóttur fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar að flokkarnir hafi gert
þau mistök að ganga inn í óbreytt valdakerfi og gerðu ekki á því breytingar.
Tilgangur þesssara flokka og forvera þeirra hefur alla tíð verið sá að breyta
þjóðfélaginu og setja markaðskerfinu réttlátar leikreglur í anda jafnaðar og
setja bönd á markaðskerfi sem ýtir undir græðgi og sérhagsmuni. Í samræmi
við þessi sjónarmið höfðu flokkarnir í stjórnarandstöðu boðað umbyltingu á
fiskveiðistjórnun sem stæði vörð um réttindi launafólks og innleiddi samkeppni
um nýtingu auðlindarinnar og greiðslu til þjóðarinnar fyrir nýtingarréttinn í
samræmi við það verð sem greitt er á markaði. Flokkarnir vildu líka takmarka
gróðamöguleikana í bankakerfinu og loks færa kjósendum meira vald um
ákvörðun einstakra mála milli alþingiskosninga með beinni kosningu og á þann
hátt staga niður og takmarka áhrifavald fámennra hagsmunahópa í þjóðfélaginu.

Þegar til kom var það ekki gert. Taka ber tillit til óvenju erfiðra aðstæða
síðustu ríkisstjórnar en þær skýra ekki hvers vegna flokkarnir guggnuðu á
þjóðfélagsbreytingunum. Þess vegna misstu þeir traust og tiltrú. Þar liggur
þeirra vandi.

Kristinn H. Gunnarsson

leiðari i blaðinu Vestfirðir 3. mars 2016

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir