Undanfarið hefur mátt fylgjast með raunalegum tilburðum bæjarstjórans
í Bolungavík til þess að verja gerðir sínar þar sem hann hefur blandað saman eigin hagsmunum og hagsmunum bæjarbúa.
Landsmenn hafa fengið að sjá og heyra dæmi um það að fyrrverandi eigendur
og stjórnendur fjármálafyrirtækja, sem settu bankana í þrot, eru afar ósáttir
við niðurstöðu dómstóla og telja dómana ranga. Hefur ekkert skort upp á
ímyndunarafl þeirra þegar bornar hafa verið fram skýringar. Staðreyndin er sú
að þeir líta ekki á lögin og reglur á sama hátt og dómstólar. Bankamennirnir
fyrrverandi eru algerlega sannfærðir um eigið sakleysi og er fyrirmunað að sjá
og skilja hinn saknæma verknað.
Svipað virðist vera upp á teningnum hjá Elíasi Jónatanssyni, bæjarstjóra. Hann
er algerlega sannfærður um að hann geti komið fram sem fulltrúi bæjarbúa og
á sama tíma sem fulltrúi eigenda í hlutafélagi í sama málinu. Elías Jónatansson
skilgreinir hæfi sitt afar vítt og takmarkar vanhæfi sitt við það eitt að “taka ákvarðanir
um þau atriði sem snúa að gjaldtöku sveitarfélagsins gagnvart því fyrirtæki sem
færi í kalkþörungavinnslu. Hið sama gildir um hverskonar samninga sem túlka
mætti sem ívilnun þess til handa.”
Samkvæmt þessu telur bæjarstjórinn sig hæfan í málinu að öðru leyti. Í því felst
að koma fyrir hönd bæjarins í viðræðum kalkþörungaverksmiðju og koma þar
í veg fyrir að fram nái að ganga óskir um lóð. Bæjarstjórinn þvingar viðræðuaðilann
til þess að ræða einvörungu við fyrirtækið Ufsir ehf þar sem þeir mæta
bæjarstjóranum með hatt eigandans. Framkvæmdastjóri Íslenska kalkþörungaverksmiðjunnar hefur sagt að ekki hafi verið sótt um lóð af þeirr ástæðu að fyrir hafi legið að ekki væri vilji til þess að hjá bæjaryfirvöldum.
Með þessum hætti eru búin til verðmæti fyrir gömlu verksmiðjueignirnar og lóðina undir þeim. Bæjarstjórinn tekur ákvörðun sem er til þess fallin að færa honum sjálfan fjárhagslegan
ávinning. Það finnst honum algerlega eðlilegt og sjálfsagt og lætur ekkert á sig
fá þótt framganga hans hafi hrakið íslenska kalkþörungafélagið frá Bolungavík.
Bæjarstjórinn hefur verið gagnrýndur af bæjarfulltrúum í minnihluta fyrir það
að gera hvorki grein fyrir eigin hagsmunum né gangi viðræðna. Nú síðast af
öllum minnihlutanum í bæjarstjórn. Þessi gagnrýni hefur komið upp ítrekað
innan bæjarstjórnarinnar á undanförnum árum og haustið 2014 var beinlínis
lagt til að skipa viðræðunefnd og halda bæjarstjóranum til hlés. Meirihluti
Sjálfstæðismanna hafnaði því og hafnaði einnig ósk um opna umræðu um
málið á síðasta bæjarstjórnarfundi.
Elías Jónatansson er ekki bara embættismaður heldur jafnframt pólitískur leiðtogi
hóps sem er í meirihluta í bæjarstjórn. Hann ræður för og aðrir bæjarfulltrúar
hópsins hlíta leiðsögn hans og boðum. Þessi framganga, þar sem nefndir og ráð
bæjarins eru sniðgengnar um aðkomu að viðræðum og upplýsingum, er ekki
tilviljun. Hún er pólitísk ákvörðun sem allir bæjarfulltrúarnir í meirihlutanum
bera ábyrgð á. Hún er pólitísk ákvörðun í þágu einkahagsmuna, jafnvel þegar
hagsmunir almennings ber skarðan hlut frá borði.
Það er talandi dæmi um þessa stjórnarhætti að umræðu um lóð fyrir kalkþörungaverksmiðjuna tekur bæjarstjórinn aðeins með formanni hafnarstjórnar og byggingarfulltrúa. Annar er pólitískur samherji og hinn er embættismaður. Hagsmunir bæjarins voru að leita allra leiða til þess að verða við óskum um lóð og skoða þær í fullri alvöru og leita lausna í samráði við umsækjanda. Það var ekki gert og bæjarstjórinn
leggur sig fram um það í greinargerð sinni að tala niður möguleikana á annarri
lóð en Þuríðarbraut 15.
Hæfi bæjarstjórans fer eftir lögum. Annars vegar sveitarstjórnarlögum og hins
vegar stjórnsýslulögum. Í sveitarstjórnarlögum segir skýrt að vanhæfi eigi við
um “við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn
hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju
leyti þar af ” og “þá má ekki taka þátt í meðferð þess eða hafa áhrif á það með
öðrum hætti og skal ávallt yfirgefa fundarsal við meðferð þess og afgreiðslu.”
Stjórnsýslulög eru ekki síður skýr. Þar segir að starfsmaður eða nefndarmaður
sé vanhæfur ef hann er aðili máls eða fyrirsvarsmaður og ef hann eigi verulegra
hagsmuna að gæta. Áhrif vanhæfis er samkvæmt stjórnsýslulögum að “sá sem
er vanhæfur til meðferðar máls má ekki taka þátt í undirbúningi, meðferð eða
úrlausn þess”.
Nú hefur bæjarstjórn brugðist við með því að skipa þriggja manna ráðgjafarnefnd sem heyri undir bæjarráð og á að fjalla um atvinnuuppbyggingu sem snyr að iðnaðarstarfsemi. Þetta er til bóta að því leyti að nú koma aðrir að málum en bæjarstjórinn einn og þeir sem hann hefur með sér hverju sinni og ætla má að bæjarfulltrúar geti fylgst með framvindu mála. En það breytir engu um vanhæfi bæjarstjórans. Hann verður áfram sá sem fram kemur í málinu fyrir hönd bæjarins.
Það þýðir ekkert um þetta að deila. Elías Jónatansson má ekki á koma að þessu
máli fyrir hönd bæjarins og verður að víkja á öllum stigum þess. Hann er
vanhæfur í undirbúningi, viðræðum, meðferð og úrlausn. Það er eins og hjá
bankamönnunum hrein spilling að loka augunum fyrir því.
Kristinn H. Gunnarsson
" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook
Athugasemdir