Íslenskur aðall

Pistlar
Share

Með makrílfrumvarpi ríkisstjórnarinnar er haldið áfram á þeirri braut að búa til fámennan íslenskan aðal. Eigendum 25 skipa á að færa 95% kvótans. Aðlinum er fært til ráðstöfunar og síðar til eignar arðbærustu auðlind landsmanna, fiskimiðin.

Kvótakerfið, sem tekið var upp fyrir 30 árum er ekki fiskveiðiverndunarkerfi í eðli sínu heldur fyrst og fremst einkavæðing á nýtingu miðanna. Með framsalinu varð sú þróun að kvótahöfunum fækkaði og nú ráða fá fyrirtæki yfir mjög stórum hluta allra réttindanna. Fámenna aðalsmannastéttin íslenska hefur nú gríðarleg þjóðfélagsleg áhrif sem minnir á stöðu aðalsins í Evrópu fyrir frönsku byltinguna.

Hinn nýi íslenski aðall hefur snúið á lýðræðið, kerfið sem á að koma í veg fyrir að fortíðin geti endurtekið sig, með því að seilast til áhrifa í stjórnmálaflokkunum og hefur nú alla hefðbundu flokkana meira og minna í vasanum. Það sést best á því þegar hið óvænta gerist og ný verðmæt fiskitegund syndir til landsins. Þá er eina hugsunin sú að leyfa aðlinum einum sem fyrir er að skapa sér rétt og færa honum svo í fyllingu tímans aðganginn á stórlega niðursettu verði. Þessi ríka stétt manna fær meiri afslátt frá markaðsverði en fátækir og tekjulausir aldraðir fá í sundlaugar landsins.

Þeir völdu sig sjálfir

Þegar makríll fór að veiðast í einhverju magni voru það aðeins þeir sem fyrir voru í útgerð í öðrum uppsjávartegundum áttu heppileg skip sem gátu veitt. Það var óvíst hvort fiskurinn myndi ganga árlega til landsins. Þess vegna var ógerningur að fjárfesta í skipi og sannfæra lánastofnanir um að fjármagna kaup eða smíði. Hópurinn sem gat spreytt sig var eðlilega mjög fámennur. Þá var makríllinn alger happdrættisvinningur fyrir uppsjávarskipin. Veiðar á öðrum uppsjávarfiski, svo sem síld, loðnu og kolmunna stóðu undir fjárfestingu og rekstri skipanna. Tekjur af makríl komu sem alger viðbót og hagnaður af veiðunum hefur frá upphafi verið gríðarlegur af þeim sökum.Árið 2013 voru útflutningstekjur af makríl þriðjungur af öllum 80 milljarða króna tekjum af útflutningi uppsjávarfisktegunda. Kostnaður af makrílveiðum hefur aðeins verið breytilegur kostnaður, einkum laun og olía. Nýir aðilar áttu enga möguleika við þessar aðstæður. Niðurstaðan er sú að þessi fyrstu 6 ár makrílveiða var útgerðarmanna hópurinn nánast sjálfvalinn.

60 milljarðar króna

Ætla má að hreinn hagnaður af makrílveiðum hafi verið um 60% af tekjum í ljósi þess að launa- og olíukostnaður er um 40% af aflaverðmæti. Árið 2013 voru tekjur um 100 kr/kg skv skýrslum Hagstofu Íslands um aflaverðmæti upp úr sjó. Kvótasetning makrílsins nú er í raun til 8 ára en ekki 6 þar sem tvö ár eru til alþingiskosninga. Miðað við þessar forsendur um arðsemi veiðanna er hreinn hagnaður þeirra um 7.5 milljarðar króna á ári eða 60 milljarðar króna á 8 ára tímabilinu sem framundan er, að því gefnu að makríllinn veiðist áfram í svipuðu magni og verið hefur. Ef litið verður á kvótasetninguna sem varanlega eins og kvótann í öðrum fisktegundum er óhætt að tvöfalda áætlað markaðsverð makrílkvótans og verður hann þá um 120 milljarðar króna.

Markaðslausn á markaðvöru

Það er aðeins til ein eðlileg lausn á úthlutun makrílkvóta. Kvótinn verður markaðsvara um leið og kvótasetning hefur verið lögfest. Bjóðendur munu verðleggja kvótann og það verð verður greitt. Eina skynsamlega löggjöfin er að bjóða veiðiréttindin út á markaði. Það tryggir ríkinu rétt verð á hverjum tíma og knýr fram samkeppni milli útgerðarmanna. Samkeppnin ræður því hverjir standa sig sem útgerðarmenn. Þetta er leiðin sem farin er í öðrum atvinnugreinum. Boðnar eru út framkvæmdir í vegagerð, mötuneytisrekstur og skúringar fyrir opinbera aðila svo dæmi séu nefnd. Útgerðarmönnum er engin vorkunn að búa við samkeppni.

Pólitísk ákvörðun

Það er pólitísk ákvörðun hvort kaupandi makríls greiðir einum úr hópi íslenska aðalsins eða ríkinu. Íslenski aðallinn hefur sýnt hvað hann gerir við kvótagróðann. Fyrir hrun voru um 400 milljarðar færðir út úr sjávarútvegsfyrirtækjunum til eigendanna, íslenska aðalsins. Nú á að endurtaka leikinn, úthluta verðmætum til sjálfvalinna á niðursettu verði. Framlagning frumvarpsins staðfestir að spillingin er orðin rótföst í íslenskum stjórnmálum. Framhald málsins ræðst af því hvernig almenningi gengur að brjóta spillinguna á bak aftur.

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir