Það skortir skilning á vaxandi misskiptingu í þjóðfélaginu

Pistlar
Share

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherrasagði í viðtali fyrir nokkrum dögum að almenna launamenn skorti skilning á afleiðingum hárra launahækkana. Þar vísaði ráðherrann til kröfugerðar verkalýðsfélaganna sem vilja verulega hækkun grunnlauna. Að mati ráðherrans yrðu afleiðingarnar þær að allir aðrir myndu sækja svipaðar kauphækkanir. Kostnaðurinn yrði samtals mun meiri en atvinnufyrirtækin ráða við. Þau myndu hækka verð á vörum og þjónustu til þess að mæta kostnaðinum og niðurstaðan yrði mikil verðbólga.

Þarna gerir formaður Sjálfstæðisflokksins sig sekan um skilningsskort. Verkalýðshreyfingunni er vissulega ljóst að ef allir sæktu sér hlutfallslega sömu hækkun og farið er fram á fyrir þá sem eru á lægstu töxtunum verður óðaverðbólga og erfiðleikar í efnahagsmálum þjóðarinnar. En Bjarna Benediktsson skortir skilning á því að krafan beinist gegn misskiptingunni sem grafið hefur um sig í þjóðfélaginu á undanförnum árum. Almenningi er nóg boðið og sættir sig ekki lengur við áskapað velferðarkerfi fyrir fámenna hópa sem hafa getað sótt sér, með stuðningi stjórnarflokkana, lífskjarabætur umfram það sem öðrum hefur staðið til boða. Hver hópurinn á fætur öðrum hefur sótt sér 30-40% kauphækkun í krafti stöðu sinnar og ráðamenn eins og Bjarni Benediktsson hafa lýst því yfir að þjóðarsátt væri um að þessi hópurinn og svo hinn hópurinn fái sérstaklega mikla kauphækkun og að aðrir uni því.
Fjármálaráðherra skortir skilning á því :
– að ekki er ásættanlegt í íslensku velferðarþjóðfélagi að kauptaxtar þorra félagsmanna innan Starfsgreinasambandsins séu frá 207 þús kr að 222 þús kr á mánuði
– að fólk unir því ekki að dagvinnulaun verkafólks séu allt að 30% lægri á Íslendi en á hinum Norðurlöndunum
– að hneyksli er að sérhæft fiskvinnslufólk fái aðeins 218 þús kr í mánaðalaun eftir 7 ára starf
– að það sé eðlilegt að sú atvinnugrein, sjávarútvegurinn skili ár eftir ár um 80 milljörðum króna í afgang eftir rekstur eða um 30% af tekjum sínum og borgi fiskvinnslufólki smánarlaun en útvöldum hópi milljarða króna í arð
– að engin sátt er um að helsta þróun í heilbrigðiskerfinu sé sú að bjóða út ræstingu og þrif og lækka launin og fækka starfsfólkinu.
– að almenningi ofbýður framkoma stjórnvalda við fatlaða í tengslum við hagræðingaraðgerðir á ferðaþjónustu fatlaða
– þungum byrðum hefur verið velt yfir á herðar sjúkra og veikra með sívaxandi greiðslum þeirra í lyfjum og læknisþjónustu. Það er orðið mörgum ofviða að bera kostnað af erfiðum veikindum.
– að mikil ólga er meðal eldri borgana með miklar skerðingar á lífeyri og þjónustu sem þeir hafa mátt þola frá hruninu 2008

– að almenningur sættir sig ekki við vaxandi misskiptingu í íslensku þjóðfélagi. Ríkasta 1% þjóðarinnar á 23% alls auðs landsmanna. Hlutur þessa hóps hefur vaxið um þriðjung á síðustu 10 árum.

Ráðamenn skortir einmitt skilning á öllu þessu og afleiðingunum sem vaxandi misskipting í þjóðfélaginu hefur á innri gerð þess og samstöðu þegnanna um grundvallaratriði. Verkalýðshreyfingin nýtur víðtæks stuðnings við kröfur sínar og langt út fyrir sínar raðir. Það er vegna þess að almenningur vill ekki að íslenskt þjóðfélag þróist á þennan veg. Það er gífurleg andstaða við augljósa myndun fámennra ráðandi þjóðfélagshópa sem í krafti auðs og aðstöðu sem stjórnvöld hafa skapað þeim raka til sín auðævum og sitja yfir annarra hlutskipti að eigin geðþótta.

Um þetta verður tekist á í komandi kjarasamningum og þjóðfélagsátökum á komandi árum.
Það þarf að koma fulltrúum forréttindaaðalsins í skilning um að valið er milli þjóðfélags reist á jöfnuði og reisn hvers manns annars vegar og hins vegar klíku og sérhagsmuna þjóðfélagsins sem hefur verið að mótast. Ef það kostar verðbólgu til þess að koma mönnum í skilning um að aldrei verður friður um ójöfnuðinn og ranglætið er það gjald vel þess virði, því kostnaðurinn af óbreyttri þróun verður öllum almenningu miklu meiri.

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir