Mikill hagnaður dreifist til fárra

Pistlar
Share

Sjávarútvegurinn býr við bestu afkomu um áraraðir og hefur svo
verið frá hruni. Tekjuafgangur frá rekstri hefur verið 25-30% á
hverju ári. Síðustu 3 árum eru þetta um 80 milljarðar króna árlega.

Þetta er afkoman eftir að greitt hefur verið veiðigjald til ríkissjóðs. Það eru
mikil öfugmæli að halda því fram að veiðigjaldið hafi gengið nærri
atvinnugreininni. Þótt vissulega sé breytileg afkoma innan greinarinnar
er heildarniðurstaðan sú að þrátt fyrir hækkun þess á árunum fram til valdatöku
núverandi ríkisstjórnar hefur gróðinn verið með allra mesta móti um
langt árabil. Mest var hann fiskveiðiárið 2012/13 eða nærri 13 milljarðar
króna. Engu að síður skilaði reksturinn árin 2011 og 2012 80 milljörðum hvort ár upp í afskriftir
og fjármagnskostnað og nærri 60 milljörðum í hreinan hagnað þegar
tekið hafði verið frá til þeirra kostnaðarliða.

Veiðigjöldin er á þessu fiskveiðiári aðeins rúmir 4 milljarðar króna og
hafa lækkað um 2/3 á tveimur árum. Hafa ber þó í huga að eftir er að
leggja veiðigjald á deilistofna þannig að það mun hækka en lækkunin
á síðustu tveimur árum er samt gríðarleg.

Lækkun veiðigjaldsins leiðir það eitt af sér að hagnaður í sjávarútvegi
eykst. Á árinu 2013 var hreinn hagnaður 50 milljarðar króna og með
lækkun veiðigjaldsins er hann aukinn um allt að 9 milljörðum króna. Í
ljósi þess að talið er að um 75% af veiðigjaldinu sé greitt af 10 stærstu
útgerðum landsins er spurt: hver er þörfin á því að auka hagnað þeirra
sem hagnast mikið fyrir?

Ríkið verður að mæta þessum tekjumissi með því að vanrækja viðhald vega,
svelta heilbrigðiskerfið og halda áfram að klípa af ellilífeyrisþegum.
Hvers vegna er það forgangsmál
að auka hagnað fárra fyrirtækja um nærri 10 milljarða króna á hverju
ári? Hvers vegna er ekki stærri hluti ágóðans sóttur til að standa undir
sameiginlegum útgjöldum?

Rétt er að minnast þess sem gerðist fyrir hrun. Þá var líka gott árferði
í greininni , þótt það væri ekki eins gott og nú er. Þá voru samkvæmt
skýrslu Rannsóknarstofnunar Háskólans á Akureyri settar skuldir á
sjávarútvegsfyrirtækin sem runnu út úr fyrirtækjunum til eigendanna.
Lesa má úr skýrslunni að um 400 milljarðar króna hafi þannig flætt út
úr greininni yfir í bankareikninga innanlands og erlendis.
Það má alveg læra af fortíðinni. Þegar góður hagnaður er rennur hann til eigenda
fyrirtækjanna. Þeir koma hagnaðnum fyrir út frá sínum hagsmunum en ekki þjóðarhagsmunum.

Þessir sömu eigendur hafa verðlagt veiðiréttinn. Á þessu ári er meðalleiguverð
fyrir þorskkvóta 236 kr/kg samkvæmt upplýsingum á vef
Fiskistofu. Veiðigjald til ríkisins er 13,30 kr/kg. Það er aðeins um 6%
af markaðsverðinu. Þegar hafa nærri 11.000 tonn af þorski verið
leigð og greitt fyrir það ríflega 2 milljarðar króna. Ef fram fer það sem
eftir er ársins eins og hingað til verður leigt magn af þorskveiðikvóta
um 45.000 tonn og fyrir það verður greitt 8-9 milljarðar króna. Veiðigjaldið
í sameiginlegan sjóð landsmanna verður hins vegar bara 600
milljónir króna. Fyrir þá sem borga leigugjaldið kemur það í sama stað
niður þótt stærri hluti leiguverðsins renni til eiganda auðlindarinnar
og minna til stóru útgerðarfyrirtækjanna sem eru fyrirferðarmest í
leiguviðskiptum. En það er einmitt útgerðirnar sem í dag fá leigutekjurnar sem hagnast af örlætisgerningi ríkisstjórnarflokkanna. Þær halda eftir 94% af leigutekjunum og þessir peningar renna svo til fárra eigenda fyrirtækjanna.

Sú staðreynd að ríkið gefur frá sér meira en 90% af markaðsvirði leigukvótans
gerir bæði leigu- og söluverðið á kvótanum hærra sem því nemur. Þau verðmæti
renna til tiltölulega fárra landsmanna. Fimmtíu fyrirtæki í sjávarútvegi
fara með meira en 85% alls kvótans. Á bak við þessi fyrirtæki eru fáein
hundruð manna. Verðgildi kvótans nemur hundruðum milljarða króna.
Hvert prósent af þorskkvótanum er í dag verðlagt á um 5 milljarða
króna. Samkvæmt því má áætla heildverðmæti þorskkvótans um 500
milljarða króna. Það er vel innan við 1% landsmanna sem bókfæra
þess eign til sín.

Mikil verðmæti eru færð fáum. Það er verið að gerbreyta íslensku
þjóðfélagi í gegnum kvótakerfið og búa til fámenna stétt ríkra og
voldugra. Það er almenningur sem að lokum greiðir gjaldið af þessari
auðsöfnun. Það þarf að spyrna við fæti og stöðva þessa þróun.

“ onclick=“return fbs_click()“ target=“_blank“ class=“fb_share_link“>Deila á Facebook

Athugasemdir