Vegið að Ísafirði með kröfu um séreignarrétt að kvóta

Pistlar
Share

Íbúar á Vestfjörðum fylgjast kvíðafullir með framvindu úthafsrækjuveiða. Veiðarnar hafa verið settar á ný í kvóta eftir þriggja ára frjálsar veiðar. Þá vaknar spurningin hvort úthluta eigi kvótanum til þeirra sem hafa stundað veiðarnar þessi þrjú ár eða til þeirra sem áður höfðu kvótann og nýttu hann ekki. Fyrir Vestfirðinga skiptir miklu máli hvort veiðireynslan ræður úthlutun þar sem liðlega 100 manns eru talin hafa afkomu sína af rækjuveiðunum og vinnslunni.

En vandinn sem sjávarútvegsráðherrann hefur kallað yfir sig er í eðli sínu kjarninn í deilunni um fiskveiðistjórnunarkerfið og snýst um hvort fiskveiðiréttindin séu eignarréttindi eða afnotaréttur. Á þessu er mikill munur. Ef um eignarréttindi er að ræða getur eigandi ráðstafað þeim eins og hann vill. Handhafi kvóta þarf ekki að veiða sjálfur og getur út í það óendanlega leigt réttindin gegn gjaldi og þannig dregið til sín allan hagnað af veiðunum. Ef hins vegar er um afnotaréttindi að ræða er meginreglan að rétthafinn nýti réttinn sjálfur og stundi veiðarnar.

Lögin un stjórn fiskveiða eru skýr að þessu leyti og í fyrstu greininni er girt algerlega fyrir séreignarréttinn með ákvæði um þjóðareign. Upphafleg úthlutun kvótans var eingöngu til þeirra sem höfðu stundað veiðar síðustu 3 ár fyrir upptöku kvótakerfisins og það staðfestir líka þann megintilgang löggjafans að þeir fengju veiðirétt sem nýttu hann sjálfir. Staða ísfirsku útgerðarinnar ætti að vera sterk þegar litið er til upphafsins. Það styrkir líka þennan skilning að dómstólar hafa dæmt með þjóðareign og gegn séreignarétti á kvóta í öllum dómsmálum á báðum dómsstigum hingað til. Það var höfðað mál gegn ákvörðun Jóns Bjarnasonar á sínum tíma um frjálsar úthafsrækjuveiðar en því var vísað frá dómi.

En vandinn liggur í óvönduðum lagaákvæðum þegar framsalið var leyft árið 1990 og síðari tíma útfærslu á þeim. Framsalið var leyft og er enn að mestu leyti óháð eigin nýtingu á úthlutuðum kvóta. Það hefur verið hægt vegna þess að reglur um veiðiskyldu hafa miðast við hlutfall af heildarkvóta útgerðar en ekki hverja tegund um sig og gert útgerðum kleift að veiða ekki kvóta í sumum tegundum ár eftir ár og leigja öðrum. Útfærslan á framsalinu hefur breytt kvótanum að þessu leyti úr nýtingarrétti yfir í eignarrétt og fært umráðamönnum kvótans rétt til þess að skattleggja aðra útgerðarmenn í eigin þágu fyrir veiðarnar. Þetta skýrir kröfur LÍÚ fyrirtækjanna, þau líta svo á að kvótinn sé einkaeign, samanber álit lögfræðistofunnar LEX .

Eðlilegar framsalsreglur sem eiga að stuðla að hagræðingu innan greinarinnar verða að tengja betur saman umráðarétt yfir veiðiréttinum og nýtinguna. Sá sem ekki veiðir á ekki að geta haft tekjur af ónotuðum rétti; og eiginlega ætti sá ekki að halda veiðiréttindum. Grunneðli kvótakerfisins er að sá veiði sem hafi kvóta en að öðrum kosti láti réttindin í hendur annarra, sem fari þá á veiðar. Fénýting kvóta er allt annar atvinnuvegur sem eigandinn, þjóðin, á að hafa með höndum og hafa hagnað af.

Lausnin felst í því að breyta framsalsreglunum í samræmi við upphaflegan tilgang. Þá fá þeir veiðiheimildir sem hafa veitt, hinir ekki. En það þýðir að ráðherrann þarf að gera að upp við sig hvort kvótinn er afnotaréttur eða einkaeignarréttur. Það mun reyna á hvort hann standi með dómstólum og almenningi eða með LÍÚ.

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir