Tvær fréttir í breska dagblaðinu Independent um helgina eru lýsandi dæmi um þá vaxandi firringu sem má glögglega sjá í mörgum vestrænum velferðarríkjum, þar á meðal á Íslandi. Þeim fer fjölgandi sem einblína á sinn rétt og gera kröfu á hið opinbera en ýta til hliðar eigin skyldum. Þessi tilhneiging getur ekki endað vel. Nútíma velferðarþjóðfélag er samfélag einstaklinga sem ákveða að deila saman kjörum og aðstæðum og veita hver öðrum öryggi í gegnum hið opinbera þegar við á. Skattar og gjöld eftir efnum og aðstæðum eru framlag hvers og eins og staðfesta sameiginlega ábyrgð á velferð hvers annars. En firringin kemur fram í því að vilja njóta velferðarkerfisins en ekki leggja neitt af mörkun til þess.
Fyrri fréttin segir frá símafyrirtækinu Vodafone sem annað árið í röð greiðir engan skatt af hagnaði fyrirtækisins af starfsemi þess á Bretlandi. Heildartekjur urðu um 5 milljarðar punda hvort ár og hagnaðurinn seinna árið nærri 300 milljónir punda. En fyrirtækið nýtti sér öll hugsanleg ákvæði laga til þess að komast hjá skattgreiðslum, þar á meðal ákvæði um afslátt vegna fjárfestingar og eins því sem mörg önnur stór alþjóðlega fyrirtæki gera, að flytja hagnaðinn milli landa þangað sem skattarnir eru lægstir hverju sinni. Vodafone leggur sem sé ekkert af hagnaði sínum til breska velferðarkerfisins. Hins vegar urðu skattgreiðslur fyrirtækisins undanfarin ár af hagnaði samtals um 2.5 milljörðum punda sem greiddar voru, sem fyrr segir, í völdum lágskattalöndum. Þarna eru slitið í sundur sambandið milli tekjuöflunar og skattgreiðslu. Fyrirtækið kemur sér hjá því að styðja við velferðarkerfið sem starfsmenn þeirra eru aðilar að.
Hin fréttin segir frá sívaxandi fjölgun í hópi atvinnulausra, sjúkra og fatlaðra sem bókstaflega eiga ekki til hnífs og skeiðar. Hjálparstofnanir greina frá mikilli fjölgun í hópi þeirra sem biðja um matargjafir fyrir sig og börn sín. Rétt eins og á Íslandi eru miklir fjárhagserfiðleikar í Bretlandi og breska ríkið aflar ekki nægilegra tekna til þess að standa undir velferðarkerfinu og því verður að skera niður í bótakerfinu. Skilyrði fyrir bótum hafa verið hert og margir falla af bótaskrá af litlu tilefni. Afleiðingarnar eru skv. blaðafréttinni stórfelld fjölgun í hópi þeirra sem leita á náðir einstakra hjálparstofnana um ráðgjöf og mataraðstoð og margir þeirra eru að sögn örvinglaðir og skelfingu lostnir. Hjálparbeiðnum atvinnulausra fjölgaði um 40% í mars og um 50% í hópi þeirra sem hafa fengið stuðning vegna veikinda.
Ef Vodafone, Google og Amazon litu á það sem skyldu sína að vera með í þjóðfélaginu og greiða skatta væru margir betur staddir. En eigendur og stjórnendur þessara fyrirtækja hugsa aðeins um sig, þeir eru ekki með í samfélaginu. Forstjóri Amazon á Bretlandi fékk 11 milljónir punda og yfirmaður fjármálanna 6.5 m punda á síðasta ári. Þeir lifa eiginlega í sérfélagi með gróðann sinn í einkahlutafélaginu sem er örgglega skráð í einhverri skattaparadísinni. En hitt er næsta víst, að þegar eitthvað bjátar á breytast þeir í samfélag með öllum viðeigandi réttindum. En þessar nánasir og gróðafíklar tíma ekki að borga.
Það getur ekkert velferðarþjóðfélag staðist ef það verður almennt og viðurkennt viðhorf að það sé sjálfsagt að hafa rangt við. Velferðin mun óhjákvæmilega hrynja. Siðferðilegi vandinn sem við blasir er auðleystur. Það á ekki að líða það viðhorf, sem á fáum áratugum hefur rutt sér rúms, að sjálfsagt og eðlilegt sé að koma sér undan því að leggja sitt af mörkum í samfélaginu og leggja þar með byrðarnar á annarra herðar. Þetta er vel þekkt líka heima á Íslandi og þarf ekki að tíunda dæmin þar um, þau liggja eins og hráviði við hvert fótmál.
Almenningur getur breytt þessu og á að nýta afl sitt til þess að breyta viðhorfinu. Það mun svo skila sér í breyttri löggjöf. Það vill engin vera fyrirlitinn, hæddur og smáður. Framundan eru mörg ár sem hið opinbera verður að velta fyrir sér hverri krónu til almannaþarfa. Þjóðin kemst ekki í gegnum það áfallalaust nema hver maður gangist við ábyrgð sinni í samfélaginu.
" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook
Athugasemdir