Árangur næst með hófstilltum kröfum

Pistlar
Share

Það einstæða atvik varð seint í vetur að banna varð akstur þungra bíla á höfuðleiðum vestfirska vegakerfisins. Helstu þéttbýlisstaðir fjórðungsins voru samgöngulega einangraðir að þessu leyti. Enginn annar landshluti býr við svo slæma vegi sem Vestfirðir. Vissulega hafa orðið miklar framfarir undanfarna áratugi, en þar er líka mest ógert. Vestfirðingar eru áratugum á eftir öðrum landshlutum varðandi öryggi og gæði vegakerfisins.

Það eru vonbrigði hversu lítið miðaði áleiðis á liðnu kjörtímabili. Skýringarnar eru augljósar, fjárhagur ríkisins eftir bankahrunið er afleitur og framlög til nýframkvæmda hafa dregist mjög mikið saman. Þó skiptir sem áður miklu máli hver hin pólitísku áhrif eru. Það sést á því að það tókst að finna fé til jarðganga í Eyjafirði og á Austurlandi, en fjárveiting til Dýrafjarðarganga var felld niður. Þessi framkvæmdaröð er ekki í samræmi við það markmið að koma á öruggum heilsárs samgöngum og byrja fyrst þar sem ástandið er verst. Frekar má segja að þeir síðustu hafi orðið síðastir. Til þess að undirstrika stöðu Vestfirðinga má nefna að hæst ber um þessar mundir krafan um 20 – 25 milljarða króna jarðgöng til Seyðisfjarðar. Það er svipuð fjárhæð eða líklega heldur hærri en allar framkvæmdirnar á Vestfjörðum til samans, sem ég nefndi í upphafi. Ekkert er minnst á Dýrafjarðargöng.

Framundan eru mörg ár þar sem fé til vegamála verður af afar skornum skammti. Bráðnauðsynlegar framkvæmdir á Vestfjörðum eru margar og kostnaðarsamar. Nýr vegur í Austur-Barðarstrandarsýslu, Dýrafjarðargöng, endurbygging vegar um Dynjandisheiði, nýir vegir yfir Bjarnarfjarðar- og Veiðileysuháls í Strandafirði og aukið öryggi um Súðavíkurhlíð eru allt forgangsframkvæmdir. Kostnaðurinn er hins vegar mjög mikill og ef árangur á að nást á næstu árum verður að stilla kröfum í hóf. Annars er hætt við því að áfram verði kyrrstaða.

Langmikilvægasta framkvæmdin fyrir Vestfirðinga er að tengja saman norður og suðurhluta Vestfjarða með Dýrafjarðargöngum og endurbyggingu vegarins um Dynjandisheiði. Meðan sett var fram krafa um jarðgöng í gegnum Dynjandisheiði til viðbótar við Dýrafjarðargöng varð ekkert ágengt við að fá stuðning við framkvæmdina. Jarðgöngin hefðu orðið mjög löng og kostnaðurinn um tveir tugir milljarða króna. Það var ekki fyrr en kröfunum var stillt í hóf, hætt við nærri 20 milljarða króna jarðgöng og sæst á nýjan veg yfir heiðina, sem kostar um 4 milljarða króna, að skriður komst á málið og þá tókst að fá Dýrafjarðargöngin inn á vegaáætlun.

Sama á við um Austur-Barðarstrandarsýslu. Þar var ekki óeðlilegt í góðærinu mörgum árum fyrir hrun að leggja til að sneiða hjá tveimur hálsum og fara um Teigsskóg, þótt kostnaður yrði töluvert meiri. Nú eru aðrir tímar og fé ekki á lausu. Eftir að baráttan fyrir Teigsskógarleiðinni tapaðist í Hæstarétti eru uppi kröfur um enn kostnaðarsamari leiðir með þverum fjarða eða jarðgöngum í gegnum Hjallaháls. Upphaflega tillagan var að endurbyggja vegina yfir hálsana tvo, Ódrjúgsháls og Hjallaháls, og hún er um 4-5 milljörðum króna ódýrari en þær leiðir sem nú er krafist. Sá vegur yrði vel fær árið um kring, ekki síður en aðrir lágir fjallvegir á Vestfjörðum og víðar um landið. Þessi kostnaðarmunur svarar langleiðina til eins árs framkvæmdafjár til vegamála á landinu öllu. Það væri hægt að vinna bæði verkefnin í Strandasýslu og töluvert af Dynjandisheiðinni fyrir mismuninn.

Meðan kröfurnar eru svo miklar miðar ekkert áfram. Vestfirðingar búa við aðrar aðstæður nú en var meðan Vestfjarðakjördæmi var og hét. Pólitísk áhrif þeirra eru ekki svipur hjá sjón. Þingmenn kjördæmisins þurfa að líta til annarra og fjölmennari svæða og hlusta á kröfur íbúa þar. Kröfur íbúa annars staðar á landinu eru líka meiri og minni þolinmæði gagnvart þeim sem búa við verri aðstæður. Þess vegna þurfa forystumenn Vestfirðinga að stilla kröfum í hóf vilji menn ná fram stuðningi og skilningi við meiri framkvæmdir og framfarir á Vestfjörðum á næstu árum en annars staðar á landinu. En það er nákvæmlega það sem þarf til. Sem betur fer er víða utan fjórðungsins skilningur á þessari sérstöðu Vestfirðinga. Meðal annars sýndi Ögmundur Jónasson, fyrrverandi samgönguráðherra og síðar Innanríkisráðherra bæði góðan skilning og stuðning við þessa sérstöðu og vann að því að afla stuðnings fyrir Vestfirðinga innan ríkisstjórnarinnar og varð ágætlega ágengt. En samkomulag náðist ekki um leiðirnar og kostnaðinn, sem aftur leiddi af sér fyrirsjáanlega margra ára kyrrstöðu í stóru verkefnunum, vegagerð um Austur Barðastrandarsýslu og samtenging norður og suðursvæðis Vestfjarða með Dýrafjarðargöngum.

Stjórnmál eru list hins mögulega og til þess að ná árangri þarf einmitt að finna þá leið sem möguleg er og hafa kjark til þess að semja um framgang hennar. Hitt vill því miður stundum verða niðurstaðan, að það vanti kjarkinn og raunsæið til þess að geta samið um framfarir. Ýtrustu kröfur eru auðveldasta leiðin, en ekki sú árangursríkasta. Kyrrstaðan og töfin bitnar fyrst og fremst á Vestfirðingum.

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir