Enn bila tæki Landsspítalans – og enn gefur Steingrímur kvótann

Pistlar
Share

Stöðugar fréttir hafa verið sagðar af tækjum sem hafa bilað á Landsspítalanum. Síðast bilaði hjartaþræðingartæki. Sjúkingar hafa mátt þola alvarlega röskun á lækningameðferð sinni. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir 262 mkr í tækjakaup, skv. því sem fram kemur í fréttum Ríkisútvarpsins . Endurskoðaður forgangslisti yfir tækjakaup er um 800 mkr.

Víst er að skuldastaða ríkissjóðs er alvarleg og stjórnvöld verða að gera fleira en gott þykir varðandi aðhald og niðurskurð í ríkisrekstri. Því verður að sýna skilning.

En að sama skapi verður skilningurinn minni og stuðningurinn hverfandi við sömu stjórnvöld þegar þau kasta frá sér lögákvörðuðum tekjum og færa völdum foréttindamönnum jafnaðarmannanna í ríkisstjórn upp í hendurnar gjafafé í boði aðkreppts almennings. Það er ekki hægt að þola, það er ekki hægt að umbera og það er ekki hægt að taka slíku misrétti þegjandi.

Fyrir rúmum tveimur árum var sett í löggjöf um stjórn fiskveiða heimild til sjávarútvegsráðherra til þess að bjóða útgerðarmönnum til leigu skötuselskvóta gegn ákveðnu verði. Tekjurnar af leigunni renna í ríkissjóð. Á síðasta fiskveiðiári sem lauk 31. ágúst 2012 mátti leigja 1200 af skötusel á þessum kjörum. Verðið var 176 kr/kg auk veiðigjaldsins sem þá var 15 kr/kg. Af einhverjum ástæðum vildi sjávarútvegsráðherrann Steingrímur J. Sigfússon ekki nýta alla heimildina og bauð aðeins 700 tonn til leigu. Fimm hundruð tonna kvóta féll niður og ríkissjóður varð af tekjum upp á 96 milljónir króna.

Þá ber að geta þess að útvegsmenn kepptust um að leigja 700 tonnin af ríkissjóði og leigukvótinn gekk greiðlega út. Það er af þeirri enföldu ástæðu að veiðarnar voru mjög arðbærar þrátt fyrir þetta háa sérstaka veiðigjald 176 kr/kg. Sumir útgerðarmenn nenntu ekki að veiða sinn kvóta og fengu að framleigja hann. Markaðverðið á skötuselskvótanum var um 350 kr/kg svo þeir græddu um 175 kr/kg á viðskiptunum við ríkissjóð og þurftu ekki að leggja út í neinn kostnað. Það eru greinilega milliliðirnir sem fá að blómstra í boði vinstri stjórnarinnar. Þeir sem veiddu sinn kvóta höfðu líka mikinn hagnað af veiðunum. Verðið á skötusel var um 500 – 550 kr/kg sem skýrir hvers vegna markaðsverðið á leigukvótanum sem LÍÚ skrifstofan sá um að laða fram var svo hátt sem raun ber vitni.

Útsjónarsöm stjórnvöld hefðu við þessar aðstæður breytt lögunum og boðið útgerðarmönnum skötuselskvótann á markaðsverðinu eða 350 kr/kg í stað 176 kr/kg. Hefði það verið gert hefðu tekjurnar af þessum 700 tonnum sem voru leigð orðið um 122 mkr hærri en raunin varð.

Niðurstaðan er að ríkisjóður varð af tæplega 100 mkr tekjum af leigu á skötuselskvóta samkvæmt gildandi lögum og hefði fengið um 200 mkr til viðbótar ef leiguverðið hefði verið hækkað upp í markaðsverðið. Þarna lét ríkissjóður frá sér 300 milljónir kr til útgerðarinnar, miðað við það verð sem grátandi útgerðarmennirnir í LÍÚ láta greiða sér.

Því miður eru horfur á að sama sleifarlagið verði upp á teningnum fyrir nýhafið fiskveiðiár. Enn er heimild er fyrir leigu á 1200 tonnum af skötusel, enn er markaðsverðið hátt og enn er hægt að hafa meira en 400 milljónir króna á einu ári bara fyrir leiguna á einni fisktegund, magni sem er aðeins 0,5% af heildaraflamarki ársins.
Það væri fljótlegt að safna fyrir endurnýjun lækningatækjanna , ef ráðamenn settu hagsmuni sjúkra ofar en þjónkun við fáeina útgerðarmenn.

Það er ömurlegt að horfa upp á norrænu velferðarstjórnina, jafnaðarmannastjórnina, handhafa réttlætisins og öflugustu stjórnmálamenn landsins undanfarna áratugi flatreka undan ósvífnustu hagsmunaöflum landsins og kasta frá sér margra ára sannfæringu sinni um sanngirni og réttlæti í sjávarútvegi. Það er ömurlegt að horfa upp á að kjarkleysi og vesaldómur þeirra sem þjóðin kaus sé látið bitna á sjúklingum ár eftir ár.
Þetta er engin norræn velferð, þetta er engin velferð, þetta eru rangar áherslur.

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir