Framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Gunnvarar hf, langstærsta útgerðarfélags á Vestfjörðum, grætur úr sér augun í viðtali við bb.is í gær yfir því að hið opinbera taki gjald af útgerðinni fyrir einkaleyfið til þess að nýta fiskimiðin við landið. Telst honum til að fyrirtækið muni þurfa að greiða 380 milljónir króna þetta fiskveiðiár og segir gjaldið vera ósanngjarnan landsbyggðarskatt, sem bitni á nærsamfélaginu og sérstaklega sjómönnum.
Það heitir landsbyggðarskattur þegar ríkið fær peningana til þess að standa undir heilbrigðiskerfinu eða að gera jarðgöng í Norðausturkjördæmi og haft er í hótunum við starfsfólk og nærsamfélagið og sagt að skattheimtan muni bitna á þeim. En það er ekkert sagt þegar úgerðarfélag í Vestmannaeyjum selur kvóta fyrir 8- 10 milljarða króna til Norðfjarðar. Þá er ekkert minnst á kostnað nærsamfélagsins eða laun sjómanna á Norðfirði og er þó kostnaðurinn margfaldur á við þetta vesæla veiðigjald.
Þarna er á ferðinni yfirgengilegur tvískinnungur og vísvitandi blekkingarleikur.
Fyrir það fyrsta þá varð gjald fyrir veiðileyfið til strax þegar framsalið var leyft árið 1990. Útgerðarmenn sjálfir komu því á ótilkvaddir og hafa síðan þá tekið til sín greiðslu fyrir að leyfa öðrum að veiða sinn kvóta, hvort sem það hefur verið til lengri eða skemmri tíma. Tólf árum síðar, árið 2002, voru sett lög á Alþingi um gjald til ríkisins, veiðigjald, fyrir einkaleyfið. Veiðigjaldið til ríkisins hefur alla tíð verið mjög lágt í samanburði við gjaldið sem útgerðarmenn hafa ákvarðað á svokölluðum kvótamarkaði sem rekinn er á skrifstofu LÍÚ. Jafnvel eftir hækkunina í sumar er veiðigjaldið ekki nema 34 kr/kg af þorski, en markaðsverð LÍÚ er um 300 kr/kg.
Framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Gunnvarar hf tekur nífalt veiðigjald ríkisins til síns fyrirtækis af þeim útgerðarmönnum sem leigja af honum kvóta um þessar mundir. Þótt ríkið felldi veiðigjaldið sitt niður þá myndi framkvæmdastjórinn ekki slá krónu af „LÍÚveiðigjaldinu“. Sama á við um Samherja, Brim, Þorbjörninn og önnur stórfyrirtæki sem hafa miklar tekjur af því leigja frá sér kvóta.
Staðreyndin er sú að LÍÚ hefur á sínum markaði verðlagt veiðiréttinn. Það verð liggur fyrir og er óumdeilt. Það skiptist á milli ríkis og útgerðarmanna m.v. þorskinn þannig að ríkið fær á þessu fiskveiðiári ca 11% og útgerðarfyrirtækin 89%. Þeir sem skæla yfir þessum skiptum ættu að hætta í útgerð og snúa sér að öðru. Það er þá kominn tími til þess að hleypa ungu mönnunum að sem hafa alist upp í þorpunum og leyfa þeim að spreyta sig. Það er enginn ómissandi, ekki einu sinni grátkerlingar LÍÚ.
Í öðru lagi þá hefur framkvæmdastjóri Gunnvarar keypt svokallaðan varanlegan kvóta á markaðsverði LÍÚ algerlega möglunarlaust. Nærtækasta dæmið eru kaupin á um 1200 þorksígildistonnum af félaga hans, framkvæmdastjóra Kambs á Flateyri í maí 2007.Markaðsverð var þá um 3 milljónir króna fyrir tonnið af þorski svo líklega hefur kaupverðið verið um 3 – 3.5 milljarðar króna.
Hvergi hef ég séð að framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Gunnvarar hf hafi haldið því fram að þau kaup væru ósanngjörn landsbyggðarskattur. Þó flutti seljandinn suður en greiðandinn er í Hnífdal svo sannarlega hafa peningarnir farið að vestan og suður. Er það sanngjarn landsbyggðarskattur að gera einn mann ríkan þegar 120 manns missir atvinnuna og heilt þorp missir tilverugrundvöll sinn eins og var á Flateyri ? Eru það sanngjörn skipti á verðmætum sem fólk í litlu samfélagi hefur með samstillti átaki og starfi um langt árabil búið til í sveita síns andlitis, að einn fái öll verðmætin en allir hinir fái skaðann og beri hann bótalaust?
Já, segja aurasálirnar í LÍÚ. Þeir tíma ekki að deila verðmætunum með neinum, hvorki almenningi né þeim sem með þeim hafa gengið æviveginn í þorpinu. Aurasálirnar eigingjörnu mega ekki til þess hugsa að verðmætin sem eru í einkaleyfinu til útgerðar á Íslandsmiðum komu öðrum til góða en þeim sjálfum. Með kvótakerfinu hefur mátt sjá þróast á ótrúlega skömmum tíma spillt og gegnumrotið hugarfar sem á sinn engan líka á lýðveldistímanum. Langvarandi yfirráð fáeinna manna yfir 85% af fiskimiðum landsmanna hefur fært þeim óheyrileg völd í hendurnar sem sumir í þessum hópi eru farnir að beita af miskunnarlausri hörku.
Það er enn í fersku minni þegar forstjóri Samherja svipti fiskvinnslufólk á Dalvík vinnu sinni vegna rannsóknar Seðlabanka Íslands á tilteknum viðskiptum félagsins og krafðist þess svo að dómstólar stöðvuðu rannsóknina. Það er líka í fersku minni þegar forsvarsmenn Hraðfrystihússins Gunnvarar sviptu Ísafjarðarbæ tekjum af löndum eins af skipum fyrirtækisins með því að láta það landa utan sveitarfélagsins þegar bæjaryfirvöld hlýddu ekki kalli um tiltekið andóf LÍÚ. Ætli framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Gunnvarar kannist ekki við það mál? Þetta er sami framkvæmdastjórinn sem segir núna að hækkun veiðigjaldsins muni bitna á nærsamfélaginu og launum sjómanna.
Menn skilja fyrr en skellur í tönnum. Svona framferði er þjóðfélagslegt mein og með öllu ólíðandi.
" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook
Athugasemdir