23 útgerðarmenn – loðnir um lófana

Pistlar
Share

Það eru sannkölluð veltiár í uppsjávarveiðum og –vinnslu. Sumarævintýrið í markílnum er enn í fersku minni. Hagstofan upplýsir í nýrri skýrslu að hreinn hagnaður 2010 hafi verið 32,3% af tekjum ( fyrir afskriftir , skatta og fjármagnskostnað), sem er meira en tvöfalt meira en hjá botnfiskútgerðinni.

Nú er stóra loðnuvertíðin hafin. Búist er við því að veidd verði a.m.k. 400.000 tonn og að útflutningsverðmætið verði 20 milljarðar króna. Sjávarútvegsráðherrann telur að það verði jafnvel meira eða á þriðja tug milljarða króna. Þessi miklu verðmæti og væntanlegur ofurhagnaður skiptast á milli útgerða aðeins 23 skipa. Þeir fáu sem eiga fyrirtækin verða loðnir um lófana.

Ríkið fær eðlilega sinn hlut sem eigandi auðlindarinnar, en það er mjög tillitsamt við útgerðarmennina 23 á þessum erfiðum tímum. Veiðigjaldið er 0,946 kr/kg loðnu. Þetta gera 378 milljónir kr. fyrir öll 400 þús tonnin eða innan við 2% af áætluðu útflutingsverðmæti.

Það er sérlega hóflegt að greiða aðeins 378 mkr í veiðigjald af útgerð sem mun líklega skila a.m.k. 7 milljarða króna í hagnað fyrir afskriftir og fjármagn. Að meðaltali verður hreinn hagnaður 300 mkr. af veiðum hvers skips sem skiptist milli veiða og vinnslu. Það er líka hægt að meta greiðslugetuna með því að skoða það verð sem útgerðarmenn sjálfir greiða fyrir veiðiréttinn. Umtalsverð viðskipti hafa átt sér stað með loðnuheimildir. Á síðasta fiskveiðiári voru rúmlega 27% af varanlega kvótanum seld, en engar upplýsingar er að finna um verðið. Það væri fróðlegt að það yrði birt.

Hins vegar eru nýleg viðskipti með árskvótann, aflamarkið. Í þessum mánuði voru þann 20. seld 250 tonn fyrir 18 kr/kg og 25. jan voru 1500 tonn leigð fyrir 30 kr/kg. Það verður að ætla þeim sem leigðu þennan kvóta að þeir telji sig geta veitt loðnuna með hagnaði þrátt fyrir leigugjaldið. Að því leyti er verðið raunhæft. Hvert verðið yrði ef allur loðnukvótinn yrði seldur á markaði er ekki gott að segja. En það er víst að verðið myndi taka mið af afkomunni í greininni og fyrirliggjandi leiguverð er vísbending.

Ég tel miðað við verðlagninu kvótans í botnfiskveiðum líklegt að veiðigjaldið yrði á bilinu 15-25% á markaði. Ef það gengi eftir fengi ríkið 3-5 milljarða króna í sinn hlut fyrir veiðileyfið, 8 – 13 sinnum meira en nú stefnir í. Mismunurinn er 2,6 – 4,6 milljarðar króna. Því heldur útgerðin eftir vegna þess eins að stjórnvöld afhenda þeim kvótann og ákvarða veiðigjaldið í samráði við þá í stað þess að viðhafa samkeppni um þessi eftirsóttu leyfi.

Líknardeildinni á Landakoti var lokað til þess að spara 50 mkr vegna þess að ríkið er ekki loðið um lófana.

Athugasemdir