Arðurinn árið 2010- 44:2 fyrir LÍÚ

Pistlar
Share

Hagstofa Íslands birti fyrir nokkrum dögum nákvæm gögn um afkomu sjávarútvegsins árið 2010. Fiskveiðiarðurinn varð það ár hvorki meira né minna en 44 milljarðar króna eða 20% af tekjunum. Fiskveiðiarðurinn er hagnaðurinn sem eftir stendur þegar búið er að draga frá tekjum í veiðum og vinnslu allan kostnað og 6% árgreiðsluvexti sem kemur í stað afskrifta og fjármagnskostnaðar. Að mati Hagstofunnar er þetta besti mælikvarðinn á afkomu greinarinnar og hafa opinberar stofnanir lengi gert svona upp.

Arðinum var árið 2010 þannig skipt á milli þjóðarinnar, eigandans og handhafa kvótans að kvótahafarnir fengu 44 milljarða króna eftir að hafa greitt 2 milljarða kr í veiðigjald. LÍÚ vann togstreituna um skiptingu arðsins 44:2. Þó bætti ríkið hlut sinn frá fyrra árinu. Árið 2009 fóru leikar þannig að gjafagróði LÍÚ varð 45 milljarða króna en ríkið fékk 1 milljarð króna, 45:1.

Fiskveiðiarðurinn verður til vegna dugnaðar og útsjónarsemi sumra útgerðarmanna sem greiða öðrum útgerðarmönnum háar fjárhæðir fyrir að fá að veiða fiskinn. Þessar greiðslur endurspegla fiskveiðiarðinn. Þegar veiðarnar eru arðbærar þá er verðið hátt. Sem dæmi þá eru greiddar meira en 200 kr fyrir veiðiréttinn á 1 kg af ýsu og 330 kr fyrir 1 kg af þorski.

Að teknu tilliti til mögulegra ívilnana í kerfinu má segja að um 60% af fiskverðinu miðað við fiskmarkaðsverð fari til greiðslu á veiðiréttinum þegar um leigu er að ræða. Hlutfallið kann að vera lægra þegar rétturinn er keyptur til langs tíma, en það er samt ekki frábrugðið í grundvallaratriðum. Íslenskir bankamenn hafa reiknað þetta verð út.

Afkoma þeirra sem veiða sinn eigin kvóta er að sjálfsögðu gríðarlega góð. Samkeppni og jafnræði í sjávarútvegi er ráðið til þess að skipta arðinum á sanngjarnan hátt. Landsmenn hafa til þessa borið byrðarnar af hruninu með hækkandi sköttum og skuldum og hlíft LÍÚ. Kerfisbreyting og jafnræði í úthlutun kvóta er forsenda þess að nota megi fiskveiðiarðinn til þess að bæta stöðu almennings. Tími gjafagróðans er liðinn. Það getur enginn lengur skorist úr leik.

Athugasemdir