Laugardagskvöldið 2. júlí var frétt í sjónvarpsfréttum RÚV um könnun sem Capacent Gallup hafði gert um Þjóðkirkjuna. Spurt var um störf biskups, aðskilnað ríkis og kirkju, um traust til þjóðkirkjunnar og áform um úrsögn úr henni. Seint verður sagt að svörin hafi verið fagnaðarefni og víst er að álit þjóðarinnar á kirkjunni og biskup hennar hefur líklega aldrei verið minna. Eðlilega eru slíkar niðurstöður fréttaefni. En alvarlegar rangfærslur voru hafðar uppi og dregin var upp verri mynd en efni stóðu þó til. Í stuttu mál þá vék fréttaflutningur fyrir skoðanaflutningi. Slíkt er algerlega óviðunandi og fréttastofu RÚV til verulegs vansa.
Sjónvarpsfréttin var endurflutt á textavarpi RÚV. Fyrirsögnin þar er : „8 af hverjum 10 óánægðir með biskup“. Þetta er rangt eins og fram kom í fréttinni sjálfri , en þar segir að „átta af hverjum tíu eru því óánægðir með störf hans eða taka ekki afstöðu“. Í fyrirsögninni, sem enn stendur á textavarpinu fjórum sólarhringum síðar þrátt fyrir ábendingu um að hún standist ekki, er í raun fullum fetum haldið fram að allir sem ekki taka afstöðu séu óánægðir með störf biskups með því að sá hópur er lagður saman við hina óánægðu og gerður að einu mengi.
Fréttastofan ber fulla ábyrgð á þessum ósannindum í fyrirsögn fréttarinnar á textavarpinu og þau eru greinilega sett fram gegn betri vitund. Þetta mætti kalla ásetningsbrot og kallar á skýringar. Hvers vegna er fréttastofa RÚV að segja ósatt? Liggur þjóðkirkjan og biskup hennar vel við höggi ? Er ekki nóg að kirkjan og þeir sem í henni eru glími við vandann sem er, þarf RÚV að segja hann verri en hann er og til hvers? Er mestur skaði Þjóðkirkjunnar sérstakt markmið en ekki upplýsingar og skýringar?
Í framsetningunni í fréttinni, bæði í sjónvarpinu og á textavarpinu, felst líka ófyrirleitin tilraun til þess að segja niðurstöður könnunarinnar aðrar en þær eru. Tveir skoðanahópar eru settir saman í einn, þeir sem eru óánægðir og þeir sem eru hvorki né, og þessum samansetta hópi er teflt á móti þeim sem eru ánægðir með störf biskupsins. Þetta er hrein blekking til þess eins að túlka mestu mögulegu óánægju og fréttamaðurinn, Áslaug Guðrúnardóttir, gerir sig seka um afar óvandaða fréttamennsku. Þeir sem eru hvorki né eru einmitt það, hvorki í hópi ánægðra né óánægðra.
Þess var vandlega gætt að upplýsa ekki í fréttinni á RÚV um hve stór hópurinn var sem er hvorki né. Það kom ekki fram fyrr en Capacent birti Þjóðarpúls sinn tveimur dögur síðar. Þessi 80% skiptust þannig að 30% voru hvorki né í afstöðunni til starfa biskups en rúmlega 50% óánægð. Það er auðvitað slæm útkoma, en samt allt önnur en 80%. Um það þagði RÚV og þegir enn.
Með sama hætti hefði verið hægt að setja fréttina þannig upp í fyrirsögn að tæplega 50% væri ánægðir með störf biskups og svipaður fjöldi óánægður. Það hefði verið nákvæmlega „jafnrétt“ að leggja þannig saman hópana sem voru ánægðir og hvorki né rétt eins og hitt. Svo hefði verið hægt að segja í lesnum texta að helmingur svarenda hefði verið ánægður eða tækju ekki afstöðu. En fréttastofa RÚV gerði það ekki. Hún valdi hina leiðina, að gera hlut biskups sem verstan. Það versta er að fréttastofan valdi ekki það sem hún átti að gera, að segja satt og rétt frá. Capacent gerir ágætlega grein fyrir niðurstöðunum í könnun sinni og RÚV þurfti ekki að afflytja það.
Fleira er hægt að gera athugasemdir við í fréttinni, sem er með sama marki brennt varðandi spurningar um traust til Þjóðkirkjunnar og mögulegar úrsagnir en látið verið hér staðar numið. Almennt er ástæða til þess að hafa verulegar áhyggjur af vaxandi óvönduðum fréttaflutningi sem einkennist meira af skoðunum sem fréttamaðurinn vill koma á framfæri en hlutverki hans að miðla upplýsingum og sjónarmiðum.
Hrunið opinberuðu þjóðinni að víða í samfélaginu voru brotalamir. Þar má nefna stjórnmálin, viðskiptalífið og embættismenn, en ekki hvað síst bera fjölmiðlarnir mikla ábyrgð. Enn sem komið er er ekki að sjá að þeir eða einstakir fréttamenn séu farnir að líta í eigin barm. Ástandið á Ríkisútvarpinu er gleggasta dæmið um það.
Athugasemdir