Gallar í gagnrýni OECD

Pistlar
Share

Sérfræðingar OECD segja í nýjustu skýrslu sinni um Ísland að stjórnvöld eigi að fara varlega í breytingar á kvótakerfinu sem kunna að veikja kerfið sem notað er við stjórn fiskveiða. En reiknaður er hlutur hvers rétthafa til veiða úr tilteknum fiskistofni og fær hann að veiða það hlutfall af magni hvers árs.

OECD hefur greinilega mikið álit á kerfinu með þeim rökum að það verndi fiskistofnana og leiði til hagkvæmrar útgerðar. Að mati OECD er tvennt sem veldur því að þessi árangur næst. Annars vegar að veiðar á hverju ári eru að mestu innan þeirra marka sem vísindamenn ráðleggja með þeim árangri að ekki gengið á fiskistofnana. Hitt atriðið er það að skipta veiðiréttinum í framseljanlega kvóta. Það leiðir til þess, telja sérfræðingar OECD, að útgerðarmennirnir hafi mikla fjárhagslega hagsmuni af því að veiðarnar gangi ekki nærri fiskistofnunum og rýri verðmæti kvótans.

Það má segja ýmislegt um árangurinn af uppbyggingu þorskstofnsins
í ljósi þess að veiðar úr honum eru nú aðeins helmingur þess sem var þegar uppbyggingarátakið hófst fyrir tuttugu árum, en það skal látið liggja milli hluta að þessu sinni.

Sérfræðingar OECD vara sérstaklega við í skýrslu sinni að gefa út sérstaka svæðisbundna kvóta og að taka upp sérstakar strandveiðar. Þeir telja að þessar breytingar veiki aflahlutdeildarkerfið. Það er ekki ljóst hvers vegna og fullyrðingin er ekki frekar rökstudd í skýrslunni. Það er einkennilegt þar sem ekki verður annað séð en að þessar breytingar uppfylli kröfur sérfræðinganna. Bæði byggðakvótinn og strandveiðarnar eru fyrirfram bundnar við tiltekið magn og eru hluti af leyfðri heildarveiði. Aukingu kvóta á þessum veiðum er mætt með minnkandi kvóta í öðrum veiðum. Heildarveiðin helst því óbreytt. Hvorug aðgerðin dregur úr gildi fiskverndarstefnunnar.

Athyglisvert er að sérfræðingar OECD gera engar athugasemdir við gildandi lagaákvæði sem heimila veiðar utan kvóta og leiða til þess að heildarveiðin á hverju ári fer fram úr því sem ætlað er. Slíkar veiðar geta svo sannarlega veikt uppbyggingu fiskistofnana.

Þessi atriði eru nokkur. Í fyrsta lagi heimild til þess að veiða undirmálsfisk og landa utan kvóta. Árlega eru 3.000-4.000 tonnum landað samkvæmt þessari heimild. Í öðru lagi svonefndur Hafróafli. Fiskveiðiárið 2008/9 var ríflega 4.000 tonnum af botnfiski landað utan kvóta sem Hafróafla. Í þriðja lagi er heimilt að vissu marki að breyta kvóta úr einni fisktegund í aðra og það hefur leitt til þess að veiðar hafi farið fram úr leyfðum heildarafla tiltekinnar tegundar. Slíkt hjálpar ekki til að vernda viðkomandi fiskstofn eða að byggja hann upp og breytir engu þótt á móti minnki veiðar í annan stofn. Tegundatilfærslur vinna gegn verndunarmarkmiðum kerfisins.

Þá er spurning hvort sérfræðingar OECD telji að aðgerðirnar veiki kvótakerfið þar sem kvótarétthafarnir eigi ekki lengur kvótann sem færist í þessa potta og þannig sé dregið úr þrýstingi þeirra á ábyrga stjórnun veiðanna. Það gæti hugsanlega verið rök ef magnið væri umtalsvert sem þannig væri fært til. En svo er ekki. Til strandveiða hefur verið varið 6.000 tonn árlega og það var hækkað um 2.500 tonn. Byggðakvótinn er aukinn um 3.000 tonn. Breytingin, sem gerð var í þessum mánuði, er óveruleg af heildarkvóta upp á um það bil 400.000 þorskígildi og er minni en veiði utan kvóta.

Ekki verður betur séð en að skammtímabreytingarnar á kvótakerfinu uppfylli kröfur OECD fyrir ábyrgri fiskveiðistjórn. Þegar litið er til áforma stjórnvalda um frekari breytingar er heldur ekki að sjá að þau gangi gegn sjónarmiðum OECD. Stofnunin leggur sjálf til í skýrslunni að hækka veiðigjaldið umtalsvert og bendir á að bæta megi kvótahöfum það upp með því að tryggja betur veiðiréttindin. En í dag er lögum hægt að breyta fyrirvaralaust og rýra eða afnema kvótann. Yfirlýst stefna ríkisstjórnarflokkanna er að hækka veiðigjaldið og gera samninga til nokkurra ára þar sem veiðirétturinn er skilgreindur og tryggður samningstímann. Slíkt mun á móti hækkun veiðigjaldsins væntanlega verja kvótahafana fyrir lagabreytingum á samningstímanum og veita þeim meira öryggi, rétt eins og OECD leggur til.

Það eru greinilega áberandi gallar á gagnrýni OECD, eins og að framan er rakið, sem eðlilegt er að krefja sérfræðingana skýringa á. Þegar að er gáð uppfylla öll megináform stjórnvalda um breytingar á kvótakerfinu skilyrðum OECD eins og stofnunin lýsir þeim sjálf. Það er svo annað mál að stefna stjórnvalda mætir engan veginn væntingum um nauðsynlegar og róttækar breytingar á kvótakerfinu.

Athugasemdir