Uppreisn á Ísafirði – valdið heim!

Pistlar
Share

Það er ekki ofsagt að Vestfirðingar eru í uppreisnarhug. Atlagan að Heilbrigðisstofnun Vestfjarða var greinilega neistinn sem kveikti í friðsömum almenningi sem hingað til hefur tekið hruninu með jafnaðargeði þess sem er hertur af langvarandi mótlæti og veit að vandinn hverfur ekki af sjálfu sér. Fólki hefur fækkað ár frá ári, kvótinn seldur, tekjur lækka og fasteignir falla í verði.

Á tveimur áratugum hefur orðið meira hrun í lífskjörum á Vestfjörðum fyrir bankahrun en hrunið sjálft frá 2008 hefur leitt yfir landsmenn. En það hefur farið frekar hljótt. Enginn umræða um verðfall eigna samhliða hækkandi skuldum, engar afskriftir lána og engar teljandi skuldbreytingar. Engar bætur fyrir tapaða eign fjölskyldunnar í íbúðarhúsinu. Vestfirðingar hafa tapað sínu fé og borgað sínar skuldir, en hafa kannski bölvað í hálfum hljóðum Reykjavíkurvaldinu og vanmætti sínum.

En mælirinn varð fullur þegar vegið var að því öryggi sem góð heilbrigðisþjónusta veitir. Án þess getur enginn búið og hver maður hlýtur að taka upp tjaldhæla sína og flytja þangað sem öryggið er að finna. Byggðirnar norðan Ísafjarðardjúps lögðust í eyði fyrst og fremst vegna skorts á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Boðaðar breytingar á Ísafirði þýða í hugum manna það eitt að þeim er sagt að hypja sig og koma sér suður, að ríkið hafi ekki efni á þeim munaði að sóa fé í fólk á þessum útkjálkum – úti á landi eitthvað.

Þessi skilaboð hafa tendrað logandi bál í hugum fólks sem er reitt og misboðið og veldur því að 1200 manns koma á mótmælafund með litlum fyrirvara og hitinn birtist í mikilli mætingu á hvern þann fund sem haldinn er þesa daga á Ísafirði um nánast hvað sem er og umsvifalaust snýst fundurinn um mál málanna, sem ekki bara heilbrigðismál, heldur er orðið búsetumál og sjálfstæðismál.

Reiðin fer vaxandi og bent er á með fullum rétti að grundvöllur málsins er vitlaus. Það er röng fullyrðing í öllu dæminu. Skattfé Vestfirðinga er að miklu leyti varið til þess að standa undir þjónustu sem er í boði á Höfuðborgarsvæðinu. Auðlind Vestfirðinga, fiskimiðin gefa svo mikið af sér að ef ríkið kærði sig um að taka til sín það afnotagjald sem útgerðarmennirnir krefjast af öðrum þá greiddi það alla þá þjónustu sem Vestfirðingar fá, allar samgönguframkvæmdir, sanngjarna hlutdeild í sameiginlegri þjónustu landsmanna og kostnaði við rekstur ríkisins, og væri samt mikið eftir til ráðstöfunar.

Rétta spurningin er hvort Vestfirðingar hafi efni á útbólgnu ríkis- og stofnavirki Höfuðborgarsvæðisins. Vestfirðingar eru ekki ómagar á þjóðinni heldur leggja þeir ríflegan skerf til þjóðfélagsins. Uppreisnin á Ísafirði verður vegna þessa, nóg er komið af ósanngirni og kúgun hins ranghverfa hugarfars, sem þróast hefur í ótrúlega miðstýrðu ríkisvaldi í litlu landi. Því verður aðeins breytt með því að veikja miðstjórnarvaldið og færa valdið heim í hérað. Í valddreifðu þjóðfélagi ber hver meiri ábyrgð á velferð sinni og ræður meira um ráðstöfun auðlinda lands og sjávar en nú er. Í valddreifðu þjóðfélagi eru menn sjálfstæðir, ganga uppréttir og vinna saman á jafnréttisgrundvelli.

Vestfirðingar geta sjálfsagt áfram borið bótalaust sitt lífskjarahrun en er þá ekki sanngjarnt að aðrir á ónefndu þenslu- og vaxtarsvæði beri sitt?

Athugasemdir