Stefnan er röng : of mikill niðurskurður

Pistlar
Share

Ríkisstjórnin hefur tekið upp ranga og að mörgu leyti hættulega stefnu um heilbrigðisþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins. Öryggi sjúklinga og gæði þjónustunnar mun minnka. Stefnan er vanhugsuð, vanreifuð og án samráðs við nokkrun sem málið varðar. Almenn andstaða íbúa á Vestfjörðum og í Þingeyjarsýslum birtist í geysifjölmennum mótmælafundum sem haldnir voru í gærkvöldi. Almenningur er reiður og honum er misboðið. Þessi áform ríkisstjórnarinnar og heilbrigðisráðherra beggja stjórnarflokkanna ganga fram af fólki.

Niðurskurður og samdráttur í opinberum rekstri á næstu árum er óhjákvæmilegur. Ríkisstjórnin markaði sér þá stefnu með réttu að hlífa heilbrigðisþjónustu við fullum niðurskurði. Á næsta ári er lagt til að draga saman opinber fjárframlög um 5% í þeim málaflokki en meira í öðrum. Við það má una. Dreifingin á þessum niðurskurði er hins vegar fullkomlega röng. Meginþunginn af niðurskurðinum lendir á 12 heilbrigðisstofnunum, 11 þeirra eru utan höfuðborgarsvæðisins. Að meðaltali er niðurskurðurinn um 20% og fjárveitingar lækka um 3 milljarða króna.

Það er fjórum sinnum meiri skerðing en í málaflokknum í heild. Öðrum þáttum heilbrigðiskerfisins er hlíft og bera minni niðurskurð. Framlög til sjúkrahúsa og sérstæðrar sjúkrahússþjónustu lækkar aðeins um 1,5%, og til endurhæfingar- og öldrunarþjónustu um svipað, tæp 2%. Þetta er svona vegna þess að stefnan er sú að draga svo úr sjúkrahússþjónustu á umræddum 12 heilbrigðisstofnum að hún verður aðeins svipur hjá sjón og sjúklingum er ætlað að sækja þjónustuna til stóru sjúkrahúsanna tveggja. Athuga verður að þetta er stefna til frambúðar en ekki bara til fjárveitinga næsta árs. Þetta er meðvituð stefna samin í ráðuneytinu sem ríkisstjórnin leggur fyrir Alþingi og vill að nái fram að ganga.

Stefnan er röng. Hún gætir ekki að því að öryggi margra minnkar, einkum þeirra sem búa fjarri stóru sjúkrahúsunum og þar sem samgöngur eru sums staðar að auki ófullkomnar. Stefnan er röng þar sem þjónustan mun á mörgum sviðum versna mikið við svona mikinn niðurskurð. Stefnan er röng vegna þess að byrðunum af óhjákvæmilegum heildarniðurskurði er ójafnt dreift á þegna landsins. Stefnan er röng vegna þess að samráð hefur ekkert verið og ráðherra og ríkisstjórn hafa ekki virt skjólstæðinga þjónustunnar viðlits. Þessi stjórnunarháttur átti að vera liðin tíð.

Það getur verið rétt að huga að breytingum á skipulagi þjónustunnar í því skyni að veita sömu þjónustu með minni tilkostnaði. Það getur verið rétt að uppbygging heilbrigðisstofnana fyrir hálfri öld, miðað við aðstæður og samgöngur sem þá voru, megi endurskoða í ljósi mikilla framfara sem orðið hafa. Það getur verið rétt að ráðast í þá endurskoðun nú þegar harðnar á dalnum.

En þá er rétt að hafa samráð við þá sem nota þjónustuna og við þá sem veita hana. Þá er rétt að leggja fram rök og sjónarmið embættismanna og ráðherra, hlusta svo á sjónarmið hinna. Þá er rétt að niðurstaðan verði fengin að yfirveguðu ráði þar sem framkomin rök eru tekin til greina. Þegar almenningurinn, sem þessar stofnanir eiga að þjóna, sér að öryggi er ekki ógnað og gæði þjónustunnar batnar frekar en að versna mun hann styðja breytingar. Almenningur vill fara vel með opinbert fé og hann vill sýna ábyrgð og er tilbúinn til þess að hlusta á skynsamlegar tillögur.

Ráðherrarnir hafa vantreyst fólki og mótað nýja stefnu á bak við luktar dyr kansellísins. Það var ekki viturlegt og stefnan sem út úr leynimakkinu kom er eftir því. Niðurskurðurinn er of mikill hjá of mörgum og of snöggt.

Athugasemdir