Á aftur að gefa útgerðarmönnum 400 milljarða króna?

Pistlar
Share

Stöðug andúð þjóðarinnar á kvótakerfinu hefur leitt til þess að aftur er löggjöfin til endurskoðunar. Fyrir áratug fór fram endurskoðun vegna mikillar óánægju þjóðarinnar þá með kerfi sem hafði verið við lýði í áratug. Engu var breytt, aðeins almennt snakk um hagkvæmni kerfisins og að ekki mætti hrófla við því og samþykkt að útvegsmenn greiddu málamyndagjald til ríkisins, kannski 2 kr/kg. Við það var ekki heldur staðið. Málfar margra stjórnmálamanna nú við aðra endurskoðun kerfisins minnir óþægilega mikið á skrumið og blekkingarnar sem lendir menn LÍÚ beittu fyrir 10 árum. Vandi þeirra er sá að þjóðin er jafn ósátt við kerfið og áður og ekki síður hitt að blekkingarnar hafa verið afhjúpaðar.

Við síðustu endurskoðun voru rök kvótakerfismanna þau að þótt framsalið hefði einhverjar óæskilegar hliðarverkanir á byggðarlög þá færu peningarnir sem greiddir væru fyrir kaup á kvóta úr einu fyrirtæki í annað. Engin verðmæti rynnu út úr greininni og hún væri í heild í raun sterkari á eftir þar sem aflaheimildirnar væru nú hjá aðila sem væri betri útgerðarmaður en sá sem seldi og að auki hefði orðið hagræðing, þar sem færri skip veiddu sama magn með minni tilkostnaði. Það væri því óhjákvæmileg niðurstaða að hrófla ekki við kerfinu þar sem það kastaði verðmætum á glæ sem þjóðarbúið og þar með almenningur yrði af. Til þess að friða gagnrýnendur skyldu handhafar veiðiheimildanna greiða mjög hóflegt gjald til ríkisins fyrir veiðarnar.
Svona var málið afgreitt þá. Spurningin er hvernig varð þróunin í raun og veru. Svarið liggur fyrir. Lítum á það.

Skuldir sjávarútvegsins jukust um 400 milljarða króna frá 1997 til 2008. Í lok árs 1997 voru nettóskuldir 87 milljarðar króna, en voru orðnar 465 milljarðar króna í árslok 2008. Nettóskuldirnar voru þá 272% af útflutningstekjum ársins 2008 og höfðu þrefaldast frá 1997, en þá voru þær 90%. Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu sem Rannsóknar- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri vann fyrir starfshóp sem vann að endurskoðun fiskveiðistjórnunarinnar.Skuldaaukningin varð fyrst og fremst vegna kaupa á veiðheimildum, en ekki vegna fjárfestingar í skipum, tækjum eða búnaði. Athyglisvert er að engin framleiðniaukning varð í veiðunum þrátt fyrir alla fjárfestinguna í kvótanum. Til samanburðar varð mikil framleiðniaukning í fiskvinnslunni á sama tíma. Þar er ekkert kvótakerfi, en hverjum manni frjálst að fara í þá atvinnustarfsemi í samkeppni við þá sem fyrir eru.

Þessar staðreyndir afsanna kenningarnar frá fyrri endurskoðun. Fjármagn rennur víst út úr greininni. Útvegsmenn hafa keppst við að selja kvóta með ævintýralegum hagnaði og fara með ágóðann úr úr greininni eða að skuldsetja eigið fyrirtæki og taka þannig út eigið fé fyrirtækisins sem útbólgið kvótaverð bjó til. Meginrökin hafa reynst ósannindi. Þess vegna jukust skuldir greinarinnar um 400 milljarða króna. Önnur meginrökin voru um hagræðinguna sem framsalið leiddi fram. Skýrslan að norðan afsannar þau rök líka. Það varð engin framþróun á þessum árum, enginn ávinningur sem rann til þjóðarbúsins og bætti lífskjör almennings. Þvert á móti fáeinir aðilar tóku til sín þessi verðmæti og stungu þeim í eigin vasa.

Eftir stendur að afspyrnuvondir útgerðarmenn, sem ættu ekki að fá að reka fyrirtæki og hefðu fyrir löngu hrökklast út úr rekstri ef hæfari menn hefðu fengið að veita þeim samkeppni, hafa skilið eftir fyrirtæki sem mörg hver eru of skuldsett og ráða ekki við að borga. Fyrir vikið eru bankar landsins að afskrifa milljarða króna ef ekki tugmilljarða króna sem að nokkru leyti, kannski verulegu leyti, falla á landsmenn. Aftur til samanburðar að þá fer engum sögum af því að afskrifa þurfi háar fjárhæðir af fyrirtækjum í fiskvinnslu.

Handhafar kvótans hafa í raun tekið út í eigin vasa væntanlegan ávinning af útgerð næstu 10-15 ár. Við endurskoðunina nú er því borið við að skuldirnar séu of miklar til þess að þorandi sé að hrófla við kerfinu. Það eru falsrök. Ef engu verður breytt þá mun verða hægt að endurtaka leikinn og taka út aðrar 400 milljarða króna á næsta áratug með því að taka út arðinn í greininni næstu 10 – 15 árin á eftir þeim sem nú eru skuldsett. Um það snúast átökin. Hafa stjórnmálamenn kjark til þess að loka fyrir þennan sjálftökukrana og koma atvinnugreininni á heilbrigðan og óspilltan grundvöll. Eða brestur þá kjark til þess að fylgja þjóðarhug. Með því að loka er tekið fyrir frekari skuldasöfnun og vandinn mun minnka með hverju árinu sem líður og hagur þjóðarinnar batna að sama skapi, en með því að loka ekki mun vandinn vaxa og ný fyrirtæki sökkva í skuldir.

Það þarf ekki að spyrja hvort er betra fyrir almannahag.

Athugasemdir