Svívirðilegar kröfur ?

Pistlar
Share

Ólafur Ragnar Grímsson átti gos vikunnar sem leið í viðtali við Bloomberg fréttastofuna. Hann spurði með þjósti hvers konar klúbbur Evrópusambandið væri. Tilefnið er að Bretar og Hollendingar vilja að Íslendingar endurgreiði þeim Icesave skuldina og hafa til þess stuðning Evrópusambandsins. Forsetinn bætti eiginlega um betur og sagði kröfur Breta og Hollendinga svívirðilegar.

Nú væri kannski skynsamlegt að stilla stóryrðunum í hóf og setja sig í spor hinna erlendu viðsemjenda Íslendinga. Sérstaklega ætti forseti landsins að halda yfirvegum sinni í ljósi þess að samkvæmt stjórnarskrá er öðrum falið að leysa deilur við erlend ríki. Það væri ill framganga hjá forseta lýðveldisins að leggja vísvitandi steina í götu þeirra sem eru að leggja sig fram um að ná samningum.

Evrópusambandið, líkt og Bretar og Hollendingar benda á að löggjöf um innstæðutrygggingar hafi verið sett til þess að fólk gæti treyst því fullkomlega að peningar þess geymdir í bönkum væru tryggðir að tilteknu lágmarki hvað sem á dyndi. Þeir benda á að íslendingar hafi yfirtekið þessa löggjöf og gengið að skilmálum og skuldbindingum hennar. Íslenskir bankar og stjórnvöld hafi ekki dregið af sér að sannfæra sparifjáreigendur í Bretlandi og Hollandi um ágæti íslenska tryggingarkerfisins og margsagt að við allar skuldbindingar yrði staðið.

Þeir munu líka benda á að þegar á reyndi hafi stjórnvöld í öllum löndum staðið við gefnar skuldbindingar, nema Íslendingar. Þeir kusu að standa við þær aðeins gagnvart innstæðum vistuðum á Íslandi og settu erlenda sparisjáreigendur út á Guð og gaddinn. Í þeirra augum er það framganga Íslendinga sem er svívirðileg. Bretar og Hollendingar með stuðningi ESB vilja að íslenska ríkið ábyrgist þessar innstæður Landsbanka Íslands á sama hátt og aðrar innstæður. Það eru eðlilegar kröfur að þeirra mati.

Bretar og Hollendingar benda líka á að Íslendingar hafi breytt lögum eftir á til þess að geta tryggt íslensku innstæðurnar og velt hundruðum milljarða króna ef ekki talið í þúsundum milljarða yfir á útlendinga og tap þeirra sem lánuðu Íslendingum hafi aukist að sama skapi. Þeim finnst það líklega svívirðileg framganga hjá þjóð sem hefur undirgengist það af fúsum og frjálsum vilja með aðild að Evrópska Efnahagssvæðinu að mismuna ekki eftir þjóðerni og að ein lög gildi um alla þegna svæðisins óháð því hvaðan þeir eru.

Bretum og Hollendingum svíður það líklega sérstaklega, svona eins og að mönnum líður við það að fá salt í sárið, að innstæðurnar á Íslandi voru tryggðar að fullu óháð því hversu háar þær voru, en svo komi Íslendingar og segjast þurfa að grípa til neyðarréttar og hafi ekki efni á að efna neina tryggingu á Icesave.

Íslendingar eiga fullt í fangi að verjast í þessu máli. Vinir okkar á Norðurlöndum hafa sagt fullum fetum að svona eigi ekki að haga sér, Íslendingar verði að efna skuldbindingar sínar og það þýði ekki að endurskilgreina skyldurnar eftir á og velta byrðunum yfir á annarra herðar. Norðurlandaþjóðirnar eru algerlega sammála Bretum og Hollendingum. Ætlar forseti Íslands næst að segja að Norðurlandaþjóðirnar hagi sér svívirðilega gagnvart Íslendingum?

Vissulega eru margir hér á landi á þeirri skoðun að ekkert eigi að borga og vilja að málið fari fyrir dómstóla frekar en að semja um lausn málsins. En þá verður að hafa í huga að löggjöfin er alþjóðleg í eðli sínu og íslenskir dómstólar hafa ekki einir dómsvald um ágreining. Verði ósamhljóða dómar á Íslandi, fyrir EFTA dómstólnum eða jafnvel Evrópudómstólnum eru Íslendingar ekki í góðri stöðu. Verði þeim dæmdir brotlegir við ákvæði EES samningsins geta aðrar þjóðir gripið til aðgerða á grundvelli samningsins til þess að rétta sinn hlut. Það er einfaldlega ekki hægt að leika hlutverk Jóns sterka í þessu máli. Það endar alltaf í samningum.

Athugasemdir