Haiti : dýrkeypt sjálfstæði fátækasta ríkisins

Pistlar
Share

Haiti er líklega fátækasta ríki á vesturhveli jarðar. Jarðskjálftinn mikli í janúar bætti gráu ofan á svart. Talið er að um 250 þúsund manns hafi látið lífið og eignatjón varð gífurlegt. Ameríski þróunarbankinn áætlaði kostnaðinn um 1800 milljarða króna. Víst er að Haiti búar eru öðrum þjóðum verr í stakk búnir til þess að axla nýjar byrðar vegna endurbyggingar innviða þjóðfélagsins. En þeir hafa fengið mikill stuðning og aðstoð hvaðanæva úr heiminum, meðal annars frá Íslendingum.

Í lok mars stóðu Sameinuðu þjóðirnar fyrir mikilli söfnun og fulltrúar frá um 150 ríkisstjórnum og alþjóðasamtökum mættu á ráðstefnu í New York og lofuðu um 1300 milljarða króna framlögum næstu 18 mánuði. Nú eru liðnir 5 mánuðir og aðeins hafa skilað sér um 0,5% af loforðunum. Aðeins 5 ríki hafa greitt sín loforð, Noregur, Ástralía, Brasilía, Kólombía og Eistland. Svona vilja efndirnar oft verða þegar frá líður. Framlag Íslendinga er talið nema 81 milljón króna sem er hlutfallslega ríflegt ef miðað er við höfðatölu, en þyrfti að vera mun hærra ef miðað væri við þjóðartekjur per mann eins og væri eðlilegt að gera. Vonandi skilar það sér allt. Þrátt fyrir allt er himinn og haf á milli þjóðanna og íslendingar hafa enga frambærilega afsökun fyrir vanefndum.

Nokkrir þekktir einstaklingar, þar á meðal málfræðingurinn Noam Chomsky og rithöfundurinn Naomi Klein hafa ritað bréf og skorað á Frönsk stjórnvöld að endurgreiða Haiti gífurlegar skaðabætur sem fyrsta svarta lýðveldinu var gert að greiða Frökkum til þess að bæta þeim skaðann af sjálfstæði Haiti. Þrælanýlendan St. Dominique var frönsk og 1791 gerðu þrælarnir uppreisn, sigruðu herlið Napoleons 1804 og lýstu yfir stofnun sjálfstæðs lýðveldis. Frakkar sendu flota yfir hafið 1825 og kúguðu Haiti til þess að greiða Franska ríkinu bætur fyrir þann skaða að hafa ekki lengur hagnað af þrælahaldi. Frakkar viðurkenndu sjálfstæði ríkisins í staðinn.

Sjálfstæðisbæturnar voru óheyrilegar, alls greiddu Haiti búarnir fátæku um fjárhæð sem nam um sexföldum árlegum tekjum þjóðarinnar. Núvirði skaðabótanna er talið vera um 2600 milljarðar íslenskra króna. Það má segja að þeir fátækustu þurftu að greiða mest fyrir sjálfstæðið og árið 1947 voru Haitibúarnir enn að greiða Franska ríkinu. Það verður fróðlegt að fylgjast með umræðum í Frakklandi um þessa tillögu. Bent er á í bréfinu að þrælahald hafi formlega verið bannað þegar Haiti lýsti yfir sjálfstæði og skaðabæturnar styðjist því ekki við lög Frakklands.

Síðast var bryddað upp á endurgreiðslu skaðabótanna árið 2003. Það var ríkisstjórn Haiti sem setti fram kröfuna. Franska stjórnin svaraði með þvi að styðja uppreisnarmenn sem komu ríkisstjórninni frá. Eftir það hafa stjórnvöld Haiti enn minnst á skaðabæturnar.

Byggt á frásögn í Guardian 16. ágúst 2010.

Athugasemdir