Forystumenn Sjálfstæðisflokksins skutu langt yfir markið í síðustu viku. Formaður flokksins Bjarni Benediktssonmeð kröfu sinni um að Alþingi kæmi þegar saman og skýrt yrði hvers vegna álit lögfræðings Seðlabankans frá síðasta ári um gengistryggð lán var þá ekki gert opinbert og haldið frá ríkisstjórn og Alþingi. Bjarni sagði stöðu viðskiptaráðherra vera í uppnámi. Fyrrverandi dómsmálaráðherra Björn Bjarnason gekk lengra og vildi með sömu rökum að viðskiptaráðherra Gylfi Magnússon segði af sér.
Málið sem um ræðir er fjarri því þess eðlis að þær réttlæti þessar árásir á Gylfa Magnússon. Það snýst einungis um álit tveggja lögfræðinga á álitamáli sem þá var þegar opinbert og vitað var að aðeins yrði úr því skorið fyrir dómstólum. Ásakanir um ósannsögli viðskiptaráðherra þegar hann svaraði fyrirspurn á Alþingi 1. júlí 2009 eiga ekki við rök að styðjast. Það getur hver og einn gengið úr skugga um með því að lesa umræðurnar sem er að finna á vef Alþingis. Þá hefur Mörður Árnason gert grein fyrir umræðunum á vef sínum og rakið þær skilmerkilega.
Því miður var þessi fjölmiðlalota um Gylfa Magnússon fyrst og fremst aðför að persónu og heiðri viðskiptaráðherrans og til þess gerð að draga úr trúverðugleika hans. Stjórnarandstaðan notar hvert tækifæri til þess að vega að ríkisstjórninni. Utanþingsráðherrarnir hafa styrkt ríkisstjórnina og með því að slæma höggi á þá veikist ríkisstjórnin sjálf. Þá blandast inn í þetta framganga Gylfa sem hefur ótrauður talað fyrir skynsamlegri lausn á gengistryggðum lánum og uppskorið reiði þeirra sem vilja af mikilli óbilgirni ýtrustu skuldalækkun.
Kröfur um afsögn viðskiptaráðherra af þessu tilefni eru fráleitar. Hins vegar hafa verið nýlega komið upp aðstæður þar sem mikilvægum upplýsingum var haldið frá Alþingi og ríkisstjórn að ekki sé talað um þjóðina og eru það alvarlegar að réttlæta afsögn þeirra sem ábyrgð bera á leyndinni. Bjarni Benediktsson og Björn Bjarnason voru báðir á vettvangi en sögðu ekkert og gerðu ekkert. Þeir kröfðust ekki þess að Alþingi yrði kallað saman og kröfðust ekki afsagnar ráðherra sem báru sannanlega ábyrgð á leyndinni og aðgerðarleysinu. Þeir þurfa að gera hreint fyrir sínum dyrum og það verður ekki gert með því að reyna að óhreinka annarra manna dyr.
Á árinu 2008 var haldið leyndum mikilvægum upplýsingum um viðkvæma stöðu viðskiptabankanna og alvarlegum varnaðarorðum frá innlendum sem erlendum aðilum. Alþingi var skipulega haldið frá öllum þessum upplýsingum og jafnvel ráðherrum. Það voru forystumenn Sjálfstæðisflokksins sem stóðu fyrir þessari leynd og brugðust þingi og þjóð. Einn þeirra var dómsmálaráðherrann Björn Bjarnason og annar var formaður utanríkismálanefndar Bjarni Benediktsson. Mennirnir sem nú vega að viðskiptaráðherra fyrir smámuni í samanburði við afglöpin sem unnin voru á árinu 2008.
Rannsóknarskýrsla Alþingis rekur þessa sögu. Byrjum 7. febrúar 2008. Þá er fundur Seðlabankastjóra með þremur ráðherrum sem dregur mjög dökka mynd af stöðunni. Enginn þeirra kom með tillögur um aðgerðir í framhaldinu og gerðu ekkert. Ríkisstjórn var ekki gert grein fyrir upplýsingunum og Alþingi þess heldur síður. Í sama mánuði kemur fram í minniblaði starfsmanna Seðlabankans álit erlendra banka og matsfyrirtækja að íslensku bankarnir sé komið í miklar ógöngur og að íslenska bankakerfið væri í mikilli hættu. Þagað var yfir áliti breska Seðlabankans og Fjármálaeftirlits þeirra og varnaðarorðum um Icesave innstæðurnar. Skýrslu hagfræðinganna Buiter og Siebert frá apríl 2008 var stungið undir stól.
Í stuttu máli var bæði þingi og þjóð leynd mikilvægum upplýsingum allt frá febrúar eða í hálft ár og ekki gripið til aðgerða til þess að koma í veg fyrir eða að minnsta kosti að draga úr þeim skaða sem varð með bankahruninu í október það ár. Bjarni og Björn bera báðir ábyrgð á feluleik Sjálfstæðisflokksins þótt ekki sé að fullu ljóst hve mikil hún er. Þeir skulda þjóðinni skýringu á þátt sínum og ábyrgð á hruninu og þeim stendur nær að gera hreint fyrir sínum dyrum en að veitast að þeim sem eru eftir bestu vitund að hreinsa til fallið. Þeir gera Sjálfstæðisflokknum mestan greiða með því.
Athugasemdir