Arðinn til þjóðarinnar með gjaldi af nýtingu auðlindanna

Pistlar
Share

Kaup Magma Energy á nær öllu hlutafé í HS Orku hefur eðlilega vakið upp miklar umræður. Spurt er hvort útlendingar geti eignast orkuauðlindir landsins og hvort arðurinn af nýtingu þeirra renni úr landi þjóðinni til lítils gagns. Svarið er að eignarhaldið er hjá opinberum aðilum að langstærstum hluta orkuauðlindarinnar. Á það bæði við um beinan eignarrétt að virkjanlegu vatni og jarðhita og líka réttindin til þess að nýta hvort tveggja. Hins vegar hafa erlendir aðilar rétt til þess að taka slík réttindi á leigu af opinberum aðilum gegn gjaldi og reisa og reka fyrirtæki sem virkja orkuna og selja hana.

Öll helstu orkufyrirtæki landsins voru að öllu leyti í eigu opinberra aðila, ríkis og sveitarfélaga, þegar lög voru sett 2008 sem bönnuðu sölu ofangreindra réttinda og eigna úr opinberri eigu. Hitaveita Suðurnesja var þá eina fyrirtækið sem var að hluta til í erlendri eigu og því miður var þá ákveðið að beita ekki eignarnámi til þess að hið opinbera eignaðist allt fyrirtækið. HS Orka var stofnað út úr Hitaveitu Suðurnesja og er heimilt var að selja það til einkaaðila og erlent fyrirtæki á það nú nánast að fullu. Hins vegar ber þó að halda því til haga að auðlindir í eigu HS Orku voru seldar til Reykjanesbæjar, sem á þær í dag en leigir nýtingarréttinn til HS Orku. HS Orka er því eina starfandi fyrirtækið á þessu sviði sem erlendir aðilar geta eignast.

Á þessu stigi er brýnast að ákvarða auðlindagjald til hins opinberra fyrir nýtingu orkuauðlindanna og taka þannig arðinn til þjóðarinnar. Í þeim lögum þyrfti einnig að stytta leigutímann verulega, t.d. úr 65 árum í 35 ár og þrengja möguleikana á því að framlengja afnotaréttinn um jafnlangan tíma. Með slíkri lagasetningu væri innlendum hagsmunum vel fyrir komið. Það kann að vera að svo yrði litið á að styttingin á leigutíma afnotaréttarins og hækkun leigugjaldsins skaðaði HS Orku fjárhagslega og hugsanlega myndu dómstólar ákvarða fyrirtækinu skaðabætur sem ríkið yrði að greiða. Það mál yrði að vega og meta en mér finnst það engu að síður álitleg leið.

Það er vissulega nýjung að erlendir aðilar eigi fyrirtæki sem stundi orkuvinnslu og orkusölu, en það varð fyllilega heimilt með EES samningnum og var leitt í lög árið 1996. Hingað til hefur aðeins íslenska ríkið og einstaka sveitarfélög hafa bolmagn til þess að byggja orkuver og reka þau. Eftir lagabreytinguna 2008 mega fyrirtæki í erlendri eigu ekki eiga eiga orkuauðlindina en fyrirtæki innan EES mega stunda þessa starfsemi. Í sjálfu sér er ekkert að því. Fiskimiðin eru ekki nýtt af ríkinu sjálfu heldur einkaaðilum sem gera út sín fiskiskip. Sama á við um þessa atvinnustarfsemi. En í báðum tilvikum þarf að tryggja hagsmuni þjóðarinnar með því að einkaaðilar greiði leigu um takmarkaðan tíma fyrir réttinn til þess að nýta auðlindina og greiði gott verð fyrir þann rétt.

Í fiskveiðum er eignarhald þjóðarinnar nokkuð óumdeilt en útgerðarmenn hafa ótímabundinn nýtingarrétt, sem er fráleitt og það sem er enn verra að þeir greiða ekkert fyrir. Fyrir vikið hafa þeir getað tekið úr atvinnugreininni allan ávinning áratugi fram í tímann með þeim hætti að skuldsetja fyrirtækin gríðarlega út á veiðiréttinn. Niðurstaðan er að arðurinn fer að stórum hluta til í vaxtagreiðslur af skuldunum og þær renna að verulegu leyti til erlendra aðila sem lána fjármagnið.

Sama myndi auðvitað gerast í orkugeiranum ef ekki verður gripið í taumana í tíma og ákvarðað gjald fyrir nýtingu orkuréttindanna. Þegar það hefur verið gert er engin vá fyrir dyrum þótt erlendir aðilar eigi og reki orkuver meðan svo háttar til að orkan verður aðeins nýtt hér á landi. Þegar fram líða stundir og unnt verður að flytja orkuna úr landi eftir sæstreng þarf að skoða málin að nýju. Þá þarf að vega saman innlenda atvinnuhagsmuni og auknar tekjur í ríkissjóð með hærra orkuverði. Markmiðið hlýtur alltaf að vera að hámarka hag þjóðarinnar af auðlindinni. Til þess að geta það þurfa opinberir aðilar alltaf að hafa fullt vald á eignarhaldinu og geta ráðið skilmálunum fyrir afnotaréttinum.

Athugasemdir