Athafnaleysi árum saman veldur innköllun kvóta

Pistlar
Share

Sjávarútvegsráðherra hefur ákveðið að gefa veiðar frjálsar á úthafsrækju næsta fiskveiðiár. Það er rétt sem útvegsmenn halda fram að slíkt sé óbein innköllun kvótans. En það er vegna þess að útvegsmenn hafa ekki árum saman nýtt útgefnar veiðiheimildir. Við þær aðstæður ber ráðherra samkvæmt gildandi lögum að heimila frjálsar veiðar og kvótaúthlutunin fellur sjálfkrafa niður. Fréttapunkturinn er kannski ekki helst sá að lögum hafi loksins verið fylgt heldur frekar hvers vegna sjávarútvegsráðherrar undanfarinna 10 ára hafa virt lögin að vettugi. Í störfum sínum hafa þeir sýnt einbeittan brotavilja fyrir LÍÚ varðandi úthafsrækjuna og gengið að ástæðulausu gegn skýrum ákvæðum stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi.

Í 3. grein laga um stjórn fiskveiða segir að ráðherra skuli „að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar, ákveða með reglugerð þann heildarafla sem veiða má á ákveðnu tímabili eða vertíð úr þeim einstökum nytjastofnum við Ísland sem nauðsynlegt er talið að takmarka veiðar á“. Kjarninn í lagafyrirmælunum er : sem nauðsynlegt er talið að takmarka veiðarnar á. Undanfarin 10 fiskveiðiár hefur verið minna veitt af úthafsrækju en Hafrannsóknarstofnun hefur ráðlagt að veiða mætti. Síðustu 5 fiskveiðiár hefur samtals aðeins um 30% af útgefnum kvóta verið veitt. Minnst var veitt 8% og mest 57%.

Það hefur ekki verið nein ástæða til þess að takmarka sóknina í stofninn. Þá á ekki að vera kvóti. Lögin eru sett til þess að halda veiðinni innan skynsamlegra marka og ef sóknin er lítil í einhvern stofn þá er engin ástæða til þess að setja kvóta á einstök skip. Eðlilegt er að sérhver útgerðarmaður hafi heimild til veiða, hafi hann til þess skip, án þess að nokkur annar geti sett honum stólinn fyrir dyrnar og krafið hann um greiðslu til sín. Kvótinn er til þess að vernda fiskinn, það má aldrei gleymast. Niðurstaðan er skýr og hún er þessi: Lögum samkvæmt eiga veiðar að vera öllum frjálsar þegar mun minna er veitt en stofninn þolir. Ef ekki er nauðsynlegt að takmarka veiðarnar hefur sjávarútvegsráðherra ekki heimild til þess að gefa út kvóta.

Þegar ekki þarf að takmarka veiðarnar mælir 8. grein laganna fyrir um hvað gera skuli: „Veiðar á þeim tegundum sjávardýra, sem ekki sæta takmörkun á leyfilegum heildarafla skv. 3. gr., eru frjálsar öllum þeim skipum, sem leyfi fá til veiða í atvinnuskyni skv. 4. gr., með þeim takmörkunum sem leiðir af almennum reglum um veiðisvæði, veiðarfæri og veiðitíma“. Fyrirmælin er ákaflega skýr, þá eru veiðarnar frjálsar og ráðherrann fær heimild Alþingis til þess að setja almennar takmarkanir til þess að stýra sókninni skynsamlega. Í viðtali við mbl.is þann 10. apríl síðastliðinn boðar sjávarútvegsráðherrann þessar breytingar svo þær þurfa ekki að koma á óvart.

Nú boðar ráðherrann frumvarp á haustþingi um sóknarstýringu rækjuveiða til frambúðar. Það er ekki endilega nauðsynlegt. Gildandi lagaheimildir geta dugað eins og kemur fram í 8. grein laganna. Þær heimila sóknarstýringu með almennum takmörkunum á veiðisvæðum, veiðarfærum og veiðitími.

Eitt virðist þó vera óyggjandi. Eftir ákvörðunina um að hafa veiðarnar frjálsar næsta fiskveiðiár er engin leið til baka inn í kvótakerfið. Fyrirmælin um hvernig eigi að standa að kvótasetningu er að finna í 9. grein laganna. Tveir möguleikar eru tilteknir í lagagreininni. Annars vegar þegar samfelld veiðireynsla er til og hafi fisktegundin ekki verið kvótasett áður skal miða við veiðireynslu síðustu þriggja ára. Hins vegar skal ráðherra úthluta kvóta á einstök skip ef takmarka þarf veiðarnar og ekki er til samfelld veiðireynsla.

Hvorugt tilvikið á við. Staðan er þannig að liðnu næsta fiskveiðiári með frjálsum veiðum að úthafsrækja hefur áður verið kvótasett og því eiga fyrri lagafyrirmælin ekki við. Síðari ákvæðin eiga ekki heldur við því samfelld veiðireynsla liggur fyrir. Veiðarnar hafa aldrei alveg lagst niður og 30% veiðar af samanlögðum kvóta síðustu fimm ára eru þó nokkrar og samfelldar.

Staðan er því þannig að veiðar eru orðnar frjálsar í úthafsrækju frá og með 1. september 2010 með þeim möguleikum til stýringar sem felast í 8. grein laganna um stjórn fiskveiða. Kvótakerfið verður ekki endurvakið að nýju nema með því að setja sérstök lög þar um. Það mun ekki standa til samkvæmt því sem lesa má á heimasíðu Sjávar- og landbúnaðarráðuneytisins 16.7. 2010, en þar er boðað lagafrumvarp til þess að útfæra frekar og styrkja sóknarstýringu í veiðum á úthafsrækju.

Útvegsmenn geta engum um kennt nema sjálfum sér. Athafnaleysi þeirra gerði kvótaúthlutunina óþarfa og felldi hana úr gildi. Sjávarútvegsráðherra gerði rétt og sýndi með því kjark sem fyrirrennara hans hefur átakanlega skort.

Athugasemdir