Eva Joly eykur ágreininginn

Pistlar
Share

Eva Joly, þingmaður á Evrópuþinginu, er ráðgjafi sérstaks saksóknara í eftirmálum fjármálahrunsins. Nú vill hún verða ráðgjafi íslensku þjóðarinnar í Icesave málinu. Í Morgunblaðinu lýsir Eva Joly sínum ráðum. Hún telur að ríkið beri enga ábyrgð á Icesave innstæðunum. Þar er hún í andstöðu við álit Evrópusambandsins, allra 27 landa þess og Noregs að auki. Mér er ekki kunnugt um að Evrópuþingið hafi tekið undir skoðun Evu Joly. Hún ber fram skoðun á lögum og reglum sem enginn þessara aðila tekur undir.

Íslensk stjórnvöld hafa fyrir löngu viðurkennt ábyrgð á lágmakstryggingunni.
Stjórnvöld landanna fylgdu lagalegri skoðun sinni eftir í reynd, hvar sem reyndi á innstæðutryggingarkerfið, með því að lýsa yfir ábyrgð ríkisins á innstæðum, jafnvel að fullu. Það gerðu íslensk stjórnvöld líka varðandi innstæður vistaðar á Íslandi.Það gerðu þau ekki í gegnum innstæðutryggingarsjóðinn heldur með beinni ábyrgð ríkissjóðs á nýju bankahlutafélögunum. Eva Joly er að gera ágreining við alla þessa aðila.

Eva heldur því fram að mörg ríki hafi farið þá leið að veita lágmarkstryggingu á innstæður í heimalandinu en engar tryggingar á innstæðum erlendis og að það sé varla nokkurt brot á jafnræðisreglu og varði aðeins sekt til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Til þessa hef ég ekki séð neinn ágreining um það að innstæður séu tryggðar í heimalandi viðkomandi banka burtséð frá lögheimili innstæðueigandans. Íslensk stjórnvöld hafa frá upphafi viðurkennt ábyrgð innstæðutryggingarsjóðsins íslenska á Icesave innstæðum Landsbankans.

Nú segir Eva Joly að þetta sé ekki svo og bætir því við að mörg önnur lönd hafi gert hið sama. Þetta hefur ekki komið fram áður og nú þarf að upplýsa hvaða lönd þetta eru og hvaða bankar áttu í hlut. Ég leyfi mér að efast um að þetta sé rétt hjá pólitíska ráðgjafanum.

Þá segir Eva að stór hluti peninganna sem voru inn á Icesave reikningunum í Bretlandi séu í umferð þar. Á síðasta ári var birt uppgjör gamla Landsbankans. Samkvæmt því eru eignir bankans í Bretlandi um 344 milljarðar króna en skuldir um 1055 milljarða króna, þar af eru innstæðuskuldir (Icesave) um 979 milljarðar króna. Nettóskuld við Bretland er um 711 milljarðar króna. Augljóst er að Landsbankinn flutti hundruð milljarða króna frá Bretlandi, en hvert peningarnir fóru er óljóst.

Ófullkomið regluverk um eftirlit getur vissulega verið ein af orsökum ógæfunnar. En það er önnur löggjöf og haggar ekki við innstæðutryggingalöggjöfinni. Deilur um ábyrgð milli aðila vegna galla á fyrri löggjöfinni geta leitt til samkomulags um skiptingu á ábyrgð og tjóni milli aðildarþjóða eða að mál verði rekið fyrir dómstólum. Það þurfa íslendingar, sem aðrir málsaðilar, að vega og meta hvernig niðurstöðu verði náð.

Eva Joly heldur því fram að Ísland myndi hafa betur í málaferlum um þá löggjöf og ber fyrir sig ónafngreinda menn innan Evrópusambandsins. Það er ekki til fyrirmyndar að fullyrða um afstöðu dómstóla á svona ófullkomnum upplýsingum, þegar hvorki liggur fyrir hver gefur álitið né um hvaða lagaákvæði er deilt.

Eva Joly skrifar til þess að svara grein Þórólfs Matthíassonar í Aftenposten. Hún véfengir eitt og segir annað rangt, en færir engin rök fyrir staðhæfingum sínum. Eva heldur því fram að sennilegt sé að eignir Landsbankans muni aðeins duga fyrir um 30% Icesave skuldarinnar. Þar gerir hún enn einn ágreininginn, án rökstuðnings, nú við þá aðila sem hafa gefið út að hlutfallið verði líklega um 88% og jafnvel hærra.

Það hefur verið ómaklega vegið að Þórólfi að undanförnu. Eitthvað hefur breyst frá dögum Ara fróða þegar rétt þótti að hafa það sem sannara reyndist. Framlag Evu Joly er síst til þess að hjálpa Íslendingum að greiða úr sínum vanda. Við þurfum síst að auka ágreininginn.

Athugasemdir