Rétt ár er liðið frá bankahruninu. Lítið hefur miðað í rétta átt og raunar verður með hverjum deginum sem líður illt verra. Vandinn er verstur á stjórnmálasviðinu. Deilt er um öll viðfangsefni, ríkisstjórnin kemst ekkert áfram vegna innri ágreinings og stjórnarandstaðan leggur sig fram af fremsta megni að spilla sem mest fyrir. Afleiðingin er sú að almenningur verður fyrir enn meiri búsifjum en annars þyrfti að vera. Svona getur ekki gengið lengur. Of mikið er í húfi fyrir framtíð lands og þjóðar.
Í meginatriðum var farið rétt af stað. Ákveðið var að semja um Icesave skuldirnar og borga þær. Gerð var þriggja ára efnahagsáætlun til þess að koma fjárhag ríkisins á réttan kjöl og samið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og nágranna þjóðir um að lána Íslendingum peninga. Til þess að gera landsmönnum áfallið bærilegra var samið um það að fyrsta árið yrði ekki farið í aðhald í ríkissfjármálunum.
Allt er umdeilanlegt, sérstaklega við þessar aðstæður. Í fyrsta lagi hvort íslenska ríkið eigi að bera ábyrgð á Icesave innlánunum. Í öðru lagi hvort eigi að taka lán og í þriðja lagi hversu hratt eigi að skera niður ríkisútgjöld og hversu mikið eigi að hækka skatta. En það þarf að byrja á því að gera áætlun, marka leiðina til endurreisnar og hrinda henni svo í framkvæmd. Öðruvísi næst enginn árangur.
Formaður til sjós fiskar ekki ef hann veit ekki hvenær hann ætlar á sjóinn eða hvert skal róið og hann kemst ekkert áleiðis ef hásetarnir róar hver í sína áttina. Svoleiðis hefur ástandið verið í brúnni á þjóðarskútunni. Þrátt fyrir ákvörðun um lyktir Icesave fyrir lifandis löngu er málið í uppnámi. Þrátt fyrir efnahagsáætlun koma tillögur um skattahækkun og niðurskurð á síðustu stundu og eru óljósar, óútfærðar og óundirbúnar. Og um þær lítil samstaða. Þegar á reynir hrökkva menn frá og vilja gera nýja áætlun án Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, án niðurskurðar og án skattahækkana.
Niðurstaðan er sú að engu hefur verið komið í verk. Afleiðingin er meiri verðbólga en verið hefði, lægra gengi , hærri skuldir, hærri vextir, hærri framfærslukostnaður og svo framveigis. Einn ágætur Íslendingur sem vinnur erlendis hjá Evrópska þróunarbankanum sagði í blaðaviðtali fyrir nokkru að gengi íslensku krónunnar væri um 30% of lágt. Það kostar almenning gríðarlegar fjárhæðir að tefja um eitt ár eða kannski tvö ár eða fleiri að koma gengi krónunnar á það stig sem efnahagur landsins stendur undir. Þær fjárhæðir verða taldar í milljónum króna hjá hverri og einni fjölskyldu.
Þetta er sú ábyrgð sem stjórnmálaflokkarnir eru að taka á sig með háttalagi sínu. Sé það álit meirihluta Alþingis að efnahagsáætlunin sé of ströng þá átti að vinna að breytingum á henni og hafa nýja áætlun tilbúna núna í haust. Sé það álit meirihluta Alþingis að ekki eigi að taka erlend lán þá átti að gera það uppskátt strax. Sé það álit meirihluta Alþingis að ekki eigi að borga Icesave þá á að segja það skýrt og gera það strax í vor. En þá verður líka að upplýsa um stefnuna í efnahagsmálum og ríkisfjármálum og hvernig unnt verði að afla lánsfjár til atvinnufyrirtækja.
Það sem verst er er að leggja af stað með áætlun og hörfa frá henni stig af stigi og enda svo eftir árið á upphafsreit með enga áætlun og enga samstöðu um neina leið út úr þrengingunum. Aðeins handfylli af gylliboðum og töfralausnum sem engin innistæða er fyrir. En svona er ástandið réttu ári eftir bankahrunið.
Það minnir helst á söguna um Lísu í Undralandi. Hún var á gangi með kettinum og komu þau að gatnamótum. Hvaða leið eigum við að velja, sagði Lísa. Það fer eftir því hvert þú ætlar, sagði kötturinn. Það hef ég ekki hugmynd um, sagði Lísa. Þá skiptir engu máli hvaða leið þú velur, sagði kötturinn. Þú kemst þangað hvort sem er.
Það mætti spyrja stjórnmálaflokkana, sérstaklega stjórnarandstöðuna, á hvaða leið þeir eru.
Athugasemdir