Alþingiskosningar eru grundvöllur að lýðræðinu. Í þeim eru valdir menn til setu á Alþingi með þeim hætti að kjósa framboðslista stjórnmálaflokkanna.Þar hefur kjósandinn mjög takmarkaðan möguleika á því að velja mennina og engin bein áhrif á það hvaða ríkisstjórn tekur við að kosingunum loknum.
Þetta fyrirkomulag rýrir mjög áhrif kjósandans en að sama skapi veitir stjórnmálaflokkunum og sérstaklega forystumönnum flokkanna mikil völd. Í þingræðisfyrirkomulaginu ,sem stuðst er við á Íslandi, er ríkisstjórnarmyndun og val á þingmönnum þýðingarmesta verkefnið. Það á auðvitað að vera hlutverk kjósendanna sem þeir sinna með þátttöku í Alþingiskosningum.
Flokksræðið hefur sína annmarka sem berlega hafa komið í ljós á síðustu 10 – 15 árum. Það er tímanna tákn að traust á Alþingi hefur þorrið á þessum tíma og er í sögulegu lágmarki um þessar mundir. Það vil ég túlka sem kröfu kjósanda um þau áhrif sem þeim ber. Henni verður aðeins mætt með því að færa almenningi réttmæt völd í gegnum atkvæðaseðil á Alþingiskosningunum.
Í vikunni lagði ég fram á Alþingi frumvarp sem ætlað er til þess að svara þessum kröfum. Lagðar eru til breytingar á stjórnarskrá og kosningalögum og opnað fyrir kosningabandalög stjórnmálasamtaka fyrir kosningar í þeim tilgangi að mynda ríkisstjórn að þeim loknum. Flokkarnir myndu gefa út yfirlýsingu fyrir kosningar og gera grein fyrir málefnagrundvelli bandalagsins og vera í formlegu bandalagi.
Ætlunin er að þannig fáist sterk vísbending um ríkisstjórnarmyndun og kjósandinn getur með atkvæði sínu beinlínis valið ríkisstjórn með því að kjósa tiltekið bandalag. Það gerir hann með því að velja einn þeirra lista sem að því stendur. Öll atkvæði munu nýtast þar sem samanlögð atkvæði flokkanna sem að bandalaginu standa eru lögð til grundvallar við úthlutun þingsæta. Nái frumvarpið fram að ganga verður raunverulega kosið um ríkisstjórn.
Auðvitað geta einstakir stjórnmálaflokkar áfram kosið að standa utan bandalaga og gengið óbundnir til kosninga. En kjósendur eiga valið, þeir ákveða hvort þeir vilja fremur val um ríkisstjórn eða látið það ráðast eftir kosningar í viðræðum milli flokkanna eins og verið hefur. Ég er í engum vafa um það að krafan er sú að flokkarnir gefi skýr svör fyrir kosningar um vilja sinn til þess hvaða ríkisstjórn verði mynduð að kosningum loknum.
Önnur veigamikil breyting er í frumvarpinu og ekki síðri sem er um beint val með persónukjöri. Níu þingsæti af 63 verður ráðstafað með persónuatkvæði kjósandans. Kjósa má hvern þann einstakling sem er á kjörseðlinum og þarf hann ekki að vera á lista þess flokks sem kjósandinn velur. Þannig hefur kjósandinn tvö atkvæði og velur annars vegar lista og hins vegar einn einstakling. Einstaklingar geta tekið sig saman um að bjóða fram lista og þannig komist á kjörseðilinn og ekki þarf lengur að skipa framboðslista með tvöföldum fjölda þingsæta kjördæmisins eins og nú er áskilið.
Sá einstaklingur sem fær flest persónuatkvæðin hlýtur persónuþingsætið í kjördæminu, nema hann hafi hlotið eitt af kjördæmissætunum, þá hlýtur persónusætið sá sem næstflest persónuatkvæðin hlaut og þannig koll af kolli. Persónuþingsætin 9 skiptast þannig eftir kjördæmum að einn er í hverju landsbyggðarkjördæmanna og tvö í hverju höfuðborgarkjördæmanna.
Kjördæmissætunum fækkar að sama skapi en þeim verður úthlutað áfram eftir sömu reglum og nú gilda. Sama á við um úthlutun jöfnunarsætanna að öðru leyti en því að atkvæði greidd persónukosnum þingmanni verða reiknuð lista hans. Persónukjörið leiðir til þess að draga mun úr áhrifum flokksforystunnar.
Frumvarpið er tilraun til þess að svara almennum og þungum kröfum um minna flokksræði og meira lýðræði. Það færir kjósandanum og atkvæði hans í Alþingiskosningum aukin áhrif á myndun ríkisstjórnar og því hverjir verða þingmenn.
Athugasemdir