Kvótakerfinu verður að breyta

Pistlar
Share

Í gær efndi ég til utandagskrárumræðu á Alþingi um endurúthlutun fiskveiðiheimilda. Tilefnið var ný könnun sem fyrirtækið MMR gerði í síðasta mánuði og kannaði vilja almennings til þess að stjórnvöld afturkalli fiskveiðiheimildir með einum eða öðrum hætti og úthluti þeim að nýju með breyttum reglum. Svörin voru ótrúlega skýr og á einn veg. Rúmlega 60% svarenda voru hlynnt þessu og aðeins 20% voru andvíg.

Könnunin staðfestir það sem ítrekað hefur komið fram í öðrum könnunum allar götur frá 1998 mikla óánægju þjóðarinnar með kvótakerfið. Gallup hefur komist að því í sínum könnunum að aðeins um 15% þjóðarinnar er ánægð með kvótakerfið en 72% óánægð. Þá hefur komið fram í þeim könnunum að um 60% þjóðarinnar vill breyta kvótakerfinu og um 25% vill leggja það alveg niður. Samtals eru um 85% þjóðarinnar þeirrar skoðunar að breyta eigi kerfinu eða leggja það niður, en aðeins 15% þjóðarinnar styður það.

Samandregið liggur þá fyrir að stuðningur við kerfið er aðeins um 15% en andstaða ( mismunandi mikil þó) um 85% og að liðlega 60% styðja tiltekna róttæka leið til breytingar á kerfinu. Þetta eru hinar skýru línur í þessu mikla deilumáli síðustu tvo áratugi. Stjórnmálaflokkarnir verða svara svo eindregnum skoðunum kjósenda sinna.

Ríflega 94% kjósenda Samfylkingarinnar og Vinstri grænan vilja breyta kvótakerfinu eða leggja það niður. Tæplega 70% kjósenda Samfylkingarinnar vilja innkalla og endurúthluta veiðiheimildunum og enn meiri er stuðningurinn við þá leið meðal kjósenda Vinstri grænna eða 77%.

Um 82% kjósenda Framsóknarflokksins vilja breyta kvótakerfinu eða leggja það niður og um 55% þeirra styðja hina róttæku leið um innköllun og endurúthlutun. Aðeins 18% kjósenda Framsóknarflokksins styðja kvótakerfið. það er hlutverk forystumanna flokkanna að hlusta eftir vilja stuðningsmannanna og haga stefnumörkun þannig að hún endurspegli vilja þeirra.

Það er ekki hægt að láta óbreytt kvótakerfi leggja í rúst atvinnulíf í fleiri sjávarplássum en orðið er. Þau byggðarlög sem hafa hingað til staðið af sér afleiðingar framsalsins eiga mest undir því að kerfinu verði breytt áður en áfallið ríður yfir þau. Breytingarnar eiga að verja þá sem eftir standa og skapa öðrum möguleika til þess að sækja fram að nýju.

Yfirgnæfandi meirihluti stuðningsmanna þriggja flokks styðja breytingar á kvótakerfinu og nú er meira en mögulegt að þessir sömu flokkar myndi ríkisstjórn að Alþingiskosninunum loknum. Það er einstakt tækifæri til þess að leiða til lykta með farsælum hætti áralagt deilumál sem klofið hefur íslensku þjóðina í herðar niður.Það tækifæri má ekki láta ónotað.

Athugasemdir