Til liðs við Framsóknarflokkinn

Pistlar
Share

Ég er genginn til liðs við Framsóknarflokkinn á ný. Það varð niðurstaðan að þar væri hin málefnalega sannfæring og ræturnar liggja þar djúpt. Ég hef alla tíð litið á mig sem félagshyggjumann með sterkar áherslur á atvinnumál, landsbyggðina og sjálfstæði landsins.

Framsóknarflokkurinn hefur skilgreint sig sem félagshyggjuflokk með mikil tengsl við atvinnulífið. Í 12 ára samstarfi flokksins við Sjálfstæðisflokkinn var of langt gengið í einkavæðingu og hömlulitlu og jafnvel hömlulausu frelsi fjármálafyrirtækja og ýtt undir ábyrgðarlausa hegðun þar sem mælt var bót því ráðslagi að beita hvaða ráðum sem er til þess að hámarka gróðavonina án tillits til eins eða neins.

Það var greinilega ekki það sem kjósendur og stuðningsfólk vildu og það kom fram í síðustu Alþingiskosningum. Nú hefur flokksfólk svarað með því að kjósa algerlega nýja forystu og með þeim hætti sagt sitt álit. Þau skilaboð verða ekki misskilin og stefnan er sett skýrt á félagshyggjuna. Flokksþingið í janúar var í raun að taka undir sjónarmið sem ég hélt fram innan Framsóknarflokksins á síðasta kjörtímabili og staðfesta það mat flokksmanna að betur hefði farið ef á þau hefði verið betur hlustað.

Með nýrri forystu í flokknum er opuð leið til þess endurheimta fyrra traust kjósenda og ég er tilbúinn til þess að taka þátt i því verkefni og leggja mitt af mörkum til þess að sýna og sanna að raunveruleg breyting er að verða og að gömul og góð gildi verði höfð í hávegum. Trúverðugleikinn er mikils virði fyrir stjórnmálahreyfingu og kjósendur vilja geta treyst því að fólkið sem það kýs meini það sem það segir og geri það sem það meinar. Meira þarf að leggja upp úr sjálfstæði og staðfestu og minna upp úr flokksræði.

Stærsta verkefnið á stjórnmálasviðinu eftir hrun bankanna er að endurvekja hófsöm sjónarmið og félagsleg gildi í þjóðfélaginu. Til þess þarf fólk með reynslu og staðfestu og sem ekki var við stjórnvölinn þegar siglingin misfórst.

Athugasemdir