Eftir langvarandi umræðu í fjölmiðlum og þjóðfélaginu um nauðsyn þess að Íslendingar gengju í Evrópusambandið má segja að málið hafi brotlent í vikunni. Birtar voru tvær kannanir um málið þar aðild er hafnað. Þetta er satt að segja ótrúlegt eftir allt sem á undan er gengið, þar sem meðal annars annar ríkisstjórnarflokkurinn hefur hótað að slíta samstarfinu við hinn ef sá fallist ekki á að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu.
Uppskeran af öllum áróðrinum um aðild sem yrði að verða, annars myndu himnarnir hrynja yfir land og þjóð eða það sem verra er, að Íslendingar yrðu ýmist áhrifalaus útkjálki eða umkomulaust olnbogabarn er sú að landsmenn segja nei takk. Grímulaus áróður fyrir aðild bæði á Fréttablaðinu og Morgunblaðinu, hlutdrægni sumra þáttastjórnanda og álit óteljandi sérfræðinga, innlendra sem erlendra, koma fyrir lítið þegar allt kemur til alls.
Í Morgunblaðinu í gær var sagt frá nýrri könnum Capacent Gallup sem gerð var fyrir Samtök iðnaðarins í þessum mánuði. Andvíg aðild að ESB reyndust vera 38,3%, ívið fleiri en þeir sem sögðust vera fylgjandi aðild, en þeir voru 37,7%. Morgunblaðinu mistókst hrapallega að koma kjarna málsins á framfæri við lesendur sína með fyrirsögninni: færri fylgjandi ESB aðild. Hefði ekki verið eðlilegra að hafa fyrirsögnina frekar: fleiri andvígir ESB aðild? Svona í ljósi þess að undanförnum könnunum hefur fylgi við aðild verið mikið en er greinilega mjög dalandi og er nú svo komið að andstaðan við aðild er meiri en stuðningurinn.
Stuðningur við viðræður um aðild hefur líka dalað mikið skv. þessari könnun Capacent Gallup og hefur minnkað um 9% á milli mánaða og mælist ríflega 56%.
Hin könnunin var birt í dag. Frjálslyndi flokkurinn gerði könnun meðal félaga sinna um áhuga á ESB aðild. Send voru gögn til allra félagsmanna, um 1550 manns. Skil voru um 14%. Þegar Samfylkingin gerði sína Evrópukönnun fyrir rúmum 6 árum meðal allra félagsmanna sinna tóku um 20% þátt í henni. Svo virðist að þátttaka sé ekki mikil í svona könnun innan stjórnmálaflokkanna. En þó ber að hafa í huga að þeir taka þátt sem vilja.
Í aðfararorðum að spurningunum segir að viðhorfskönnunin sé um hugsanlega aðildarumsókn og samningsmarkmið fyrir henni og síðan er spurt hvort svarandi vilji að leitað verði eftir aðild að ESB og næst er spurt um hvort viðkomandi vilji setja einhver af tilgreindum 5 skilyrði fyrir samningum við ESB. Skilyrðin varða forgang Íslendinga að fallvötnum, jarðhita, olíu, landnæði og landbúnaðarlandi og loks að fiskistofnum á Íslandsmiðum.
Niðurstöðurnar geta varla verið skýrari. Ríflega helmingur svarenda, tæp 52% vilja ekki leita eftir aðild að ESB. Athuga ber að þetta er jafngilt því spyrja að um stuðning við aðildarumsókn í fyrrgreindri könnuninni hjá Capacent Gallup. Ef spurt hefði verið beint að því hvort félagsmenn vildu að Íslendingar gengju í ESB hefði andstaðan við það örugglega orðið enn meiri.
Tæplega 35% svarenda vildu leita eftir aðild en nær allir þeirra settu það sem kröfu að öll 5 skilyrðin að ofan yrðu uppfyllt. Segja má að það jafngildi líka andstöðu við viðræðum um aðild. Að teknu tilliti til þess þá voru það innan við 10% svarenda í könnuninni sem vildu leita eftir aðild að ESB án teljandi skilyrða. Um 80% sögðu hreint nei eða já með miklum skilyrðum sem nánast jafngildir nei og um 10% voru óákveðnir. Þetta er afgerandi niðurstaða sem verður ekki misskilin eða mistúlkuð. Stefna flokksins hefur verið staðfest rækilega í þessari könnun.
Spurt var líka um það hvort menn vildu aðild að Myntbandalagi Evrópu og taka upp evru. Það voru jafnmargir með því og á móti eða um 40% hvor hópurinn svo ekki var heldur neinn afgerandi vilji til þess að taka upp evruna.
Þá liggur þetta fyrir. Innan flokksins hefur verið hópur sem hefur viljað ganga í Evrópusambandið eða a.m.k. hefja viðræðum um aðild. Þar hefur mest borið á félagsmönnum úr Nýju Afli, en þau samtök gengu í Frjálslynda flokkinn fyrir rúmum tveimur árum. Á stefnuskrá þeirra samtaka er að ganga í Evrópusambandið. Nýtt afl hefur samkvæmt þessari könnun ekki haft erindi sem erfiði í þeirri viðleitni sinni að breyta stefnu Frjálslynda flokksins í átt til sinnar.
Nú eiga flokksmenn að sameinast í um niðurstöðuna og vinna að framgangi stefnu flokksins og þá reynir á hvort Nýtt afl er reiðubúið til þess. Það væri til dæmis hægt með því að sýna samstöðu um málið innan þingflokksins.
Athugasemdir