Við borgum ekki skuldir einkafyrirtækja

Pistlar
Share

Þegar viðskiptabankarnir voru einkavæddir hætti ríkið að eiga þá. Þá hætti ríkið að bera ábyrgð á skuldum þeirra, skuldbindingum og öðrum ákvörðunum. Með einkavæðingunni fluttist eignarhald og ábyrgð frá ríkinu og þjóðinni til nýrra eigenda hlutafjárins. Eftir einkavæðinguna ber ríkið ekki ábyrgð á skuldunum. Það er kjarni einkavæðingarinnar. Einstaklingarnir sem við tóku eignarhaldi og rekstri bankanna gera það á sína ábyrgð. Þeir öxluðu fúslega ábyrgð sína meðan vel gekk og rétt er að þeir geri það áfram þegar illa gengur.

Þegar Alþingi greip inn í með lagasetningu fyrir rúmum tveimur vikum var það ekki til þess að færa yfir á ríkið ábyrgðina af skuldum bankanna heldur til þess að tryggja að unnt yrði að halda áfram bankarekstri innanlands. Eins og forsætisráðherra sagði í síðustu viku þegar hann flutti Alþingi skýrslu um stöðu bankakerfisins:

„Skuldir bankanna voru orðnar of miklar fyrir íslenska þjóðarbúið og stjórnvöld stóðu frammi fyrir spurningunni hvort íslenska þjóðin ætti að borga þessar skuldir og skuldbinda þannig komandi kynslóðir. Með ákvörðun þeirri sem ríkisstjórnin og Alþingi tóku með lagasetningu í síðustu viku var slegin skjaldborg um innlenda hluta bankanna, um sparifé almennings og tryggt að grunnþjónusta bankanna við íslensk heimili og fyrirtæki gæti haldið áfram“.

Aðgerðin var alveg skýr af hálfu Alþingis, við ætlum ekki að borga skuldir einkaframtaksins sem fór sér að voða og við ætlum ekki að skuldsetja komandi kynslóðir fyrir þeim skuldum. Svo einfalt er það. Að sjálfsögðu verður að virða allar skuldbindingar sem Alþingi hefur undirgengist og virða sett lög. En ekkert umfram það á að samþykkja að greiða, nema fyrir því séu gild rök og að það þjóni hagsmunum landsmanna. Það er samningsatriði en ekki skuldbinding. Hótanir Breta og ofbeldi þeirra í okkar garð gera það að verkum að seint muni verða vilji til samninga við þá um frekari greiðslur en skylt er.

En forsætisráðherra sagði hins vegar ekkert um viðræðurnar við Rússa, Breta eða Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þegar hann flutti skýrslu sína fyrir Alþingi. Um hvað er verið að ræða við þessa aðila? Það verður með hverjum degi æ meir knýjandi að ríkisstjórnin geri landsmönnum grein fyrir því hvað hún er að gera og hvað viðræðuaðilarnir vilja. Er virkilega verið að ræða við Breta um það að landsmenn greiði skuldir Landsbankans vegna Icesave reikninganna og er það skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að samið verið við Breta og aðrar þjóðir um þær skuldir og þær yfirteknar af ríkinu? Hvers vegna eru engar viðræður í gangi við Rússa?

Hvaða skilyrði setur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fyrir láni ? Þetta eru allt spurningar sem engin svör fást við. Viðskiptaráðherra sagði fyrir mörgum dögum að stýrivextir yrði lækkaðir þegar ný þjóðhagsspá lægi fyrir. Daginn eftir var umræðan á Alþingi og stýrivextir voru lækkaðir þann dag. Ný þjóðhagsspá var þá samt ekki komin og hún er ekki komin enn. Svo er því borið við núna að ekki sé hægt að ljúka viðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn vegna þess að þjóðhagsspáin sé ekki tilbúin.

Ég er mjög efins um þessar skýringar. Þær virðast vera fyrirsláttur til þess eins að dylja hina raunverulega ástæðu. Hver hún er ekki gott að segja, en svo virðist sem stjórnarflokkarnir séu ekki samstíga og kannski eru Bretar að spilla fyrir í gegnum ítök sín. Ríkisstjórnin verður að gera hreint fyrir sínum dyrum og segja þjóðinni alla söguna, annað gengur ekki. Ef ríkisstjórnarflokkarnir ná ekki saman um stefnuna verður að mynda nýja ríkisstjórn sem treystir sér til þess að gæta hagsmuna landsmanna og leiða þjóðina út úr þessum erfiðleikum.

Það sem ríkisstjórnin á að gera er að ábyrgjast ekki skuldir einkafyrirtækja, að skuldbinda ekki komandi kynslóðir, að gefa ekkert eftir af sjálfstæði þjóðarinnar og opna ekki fiskimiðin að nýju fyrir breskum togurum.

Athugasemdir