Að loka augunum – og trúa ekki

Pistlar
Share

Það verður að viðurkennast að margir höfðu bent á helsta veikleika íslenska bankakerfisins og varað við hættunni sem við blasti. Sjálfsagt muna menn eftir skýrslunni frá Den danske bank frá 2006, sem var mjög í fréttum hér á landi. Síðustu daga hefur verið sagt frá skýrslu sérfræðinga hjá London School of Economics fyrr á þessu ári sem unnin var fyrir Landsbankann. Niðurstaða þeirra var einföld, bankarnir væru of stórir fyrir ísland og stefndu hagkerfinu í hættu. Skýrslunni var stungið undir stól og þykir það athæfi nú vera gagnrýnivert sem vonlegt er.

Ég var að blaða í bunkanum um efnahagsmál, sem ég hef safnað að mér. Þar er margt forvitnilegt að finna, enda var það auðvitað ástæðan fyrir því að ég geymdi umrædda pappíra.

Fyrst verður fyrir mér frétt á vísir.is frá 7. apríl á þessu ári. Þar er sagt frá grein sem Edmund Conway fjármálaritstjóri breska blaðsins Daily Telegraph skrifaði daginn áður í blað sitt. Þar komu fram vangaveltur um að Alþjóðlegi gjaldeyrisvarasjóðurinn muni þurfa að bjarga Íslandi frá efnahagshruni. Bendir Conway á að mikill og viðvarandi viðskiptahalli sé á íslandi og það sem verra er að bankakerfið sé yfirþanið eða átta sinnum stærra en efnahagur landsins. Því sé ólíklegt að Seðlabankinn geti bjargað því ef það hrynur. Glöggt er gests augað mætti núna segja.

Næst verður fyrir mér sérblað Fréttablaðsins, sem heitir Markaðurinn og er frá 19. mars sl. Þá var undirmálskreppan í Bandaríkjunum komin fram og byrjað að bera á lausafjárvandanum í bankakerfinu. Í leiðara sérblaðsins segir m.a. að „Bloomberg lýsti á mánudag viðhorfi til íslensks efnahagslífs og banka. Þar meta menn það svo að hátt skuldatryggingarálag sé til marks um að menn telji einhvern banka hér jafnvel eiga á hættu að komast í þrot. Virðist engu breyta um þetta viðhorf þótt ríkið sé nær skuldlaust og bankarnir árétti góða lausafjárstöðu“. Svona eftir á að hyggja er varla hægt að gera athugasemd við þetta mat Bloomberg.

Þriðja skjalið sem ég gríp úr bankanum er skýrsla Alþjóða gjaldeyrissjóðsins um Ísland frá 29. ágúst 2007. Þar benda sérfræðingar sjóðsins kurteisislega á að þörf sé á því þróa áfram álagsprófin sem gerð eru á bönkunum sérstaklega í því ljósi að þeir hafi vaxið hratt og vel þurfi að fylgjast með þeim möguleika að bankarnir lendi í lausafjárkrísu. Eftirlitsaðilar eru í skýrslunni hvattir til þess að fylgjast náið með stöðu bankanna og lýst yfir stuðningi við áformum yfirvalda um meiri áherslu á samstarf milli landa. Þessum orðum er svo fylgt eftir með talnaverki þar sem bent er á stórlega vaxandi erlendar skuldir, sem þá voru orðnar margfaldar þjóðartekjur Íslands.

Botninn slæ ég í þetta yfirlit með því að draga fram sérrit greiningardeildar Kaupþings um efnahagsmál frá 28. maí 2004. Það heitir Peningar, bankar og verðbólga og fjallaði um afleiðingar aukins peningamagns. Þá hafði peningamagn í umferð aukist um 100 milljarða króna á 12 mánuðum og hafði aldrei verið meira sem hlutfall af landsframleiðslu. Einn kaflinn í skýrslunni heitir gömul lögmál í fullu gildi og er athyglisverður. Þar segir að flest bendi til þess að gömul lögmál séu enn í gildi og að hætta fylgi auknu peningamagni.

Í fyrsta lagi sé þá mikil hætta á eignabólu. Í öðru lagi valdi aukið peningamagn almennri verðbólgu og í þriðja lagi geti fylgt viðskiptahalli og skuldasöfnun erlendis sem gæti fellt gengi krónunnar. „Loks gæti allt þrennt gerst á sama tíma og þannig vegið að fjármálastöðugleika í landinu.“ Segir í skýrslunni.

Niðurstaðan er augljós. Það sem gerðist var fyrirsjáanlegt og við því varað. Það sem á skorti var að sjá það sem skrifað var og kannski það sem mest er um vert, að trúa því.

Athugasemdir