Evran : vonarpeningur eða villuljós?

Pistlar
Share

Verðbólgualdan, sem risið hefur í kjölfar gengisfellingarinnar um páskana, og óstöðugt gengi í kjölfarið rifjar upp gamla og næstum gleymda tíma fyrir daga þjóðarsáttarinnar. Skuldir og afborganir lána hækka og þeir verða sérstaklega illa úti sem skulda í erlendri mynt en hafa tekjur sínar í krónum. Eðlilega er krafa almennings og fyrirtækja við þessar aðstæður að koma á stöðuleika í verðlagi og lækka vextina .

Skylda ríkisstjórnarinnar er að ná tökum á verðbólgunni fyrst og þannig ná fram bæði stöðugleika og lægri vöxtum. Að þessu eiga stjórnarflokkarnir að vinna fyrir almenning í landinu. Þennan vanda verðum við ,íslendingar, að takast á við sjálfir og leysa. Það er mikið villuljós sem veifað er um þessar mundir, þegar því er haldið fram að aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru sé bjargráð nauðstaddra. Svo er ekki.

Óvisst mat

En það er sjálfsagt að taka til athugunar hvort evran sé kostur sem eigi að skoða þegar litið er til framtíðar. Á því máli eru margar hliðar og ýmsir hafa spreytt sig á því að leggja mat á það. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur gefið út a.m.k. tvær skýrslur um þetta efni. Í skýrslu frá mars 2007 um kosti og galla upptöku evru sem gjaldmiðils á Íslandi segir að „ákvörðun um slíkt byggist ekki síður á pólitískum en efnahagslegum þáttum. Efnahagslegu áhrifin eru óviss,bæði í bráð og lengd. Einhvern tíma þyrfti til aðlögunar að myntsamstarfi við Evrópu ef til þess kæmi auk þess sem sú aðlögun yrði tæpast auðveld að öllu leyti fyrir íslenskt efnahagslíf“.

Kannski er þetta meginniðurstaðan, að spurningin um evruna er ekki síður pólitísk en efnahagsleg og þess vegna er ekki til einn algildur sannleikur, aðeins óvisst mat. Ein eitt er víst að áður en tekin er ákvörðun um annan gjaldmiðil en krónuna þarf að leiða fram pólitísku þætti málsins ekki síður en hina efnahagslegu og skýra þá. Það verk hefur ekki verið unnið. Ég vil benda á fáein atriði sem munu skipta máli.

Áhrif á vinnumarkað

Evran hefur ekki aðeins mikil áhrif á fjármálamarkað heldur einnig á vinnumarkað. Þegar fyrirtæki þurfa að lækka launakostnað eftir að evran verður tekin upp mun það ekki gerast með verðbólgu eða gengislækkun heldur með beinni launalækkun og fækkun starfa.
Önnur breyting er að kjör á íslenskum vinnumarkaði munu samræmast kjörum á evrusvæðinu. Vandséð verður hvernig íslensk fyrirtæki geti til lengdar greitt hærri laun en gert er fyrir sambærileg störf annars staðar á evrusvæðinu. Í fyrrahaust birtust upplýsingar á vef Samtaka atvinnulífsins um launakostnað á almenna markaðnum á Íslandi í samanburði við evrusvæðið. Launakostnaðurinn hér á landi var 30% hærri á Íslandi á 2. ársfjórðungi 2007 en erlendis.

Launin á Íslandi höfðu hækkað verulega umfram það sem gerðist á evrusvæðinu frá 2004, en þá var launakostnaðurinn á Íslandi 13% umfram evrulöndin. Á þessum þremur árum hafði launakostnaðurinn hækkað um 26% reiknað í evrum en aðeins um 9,9% á evrusvæðinu. Þessi þróun hefði verið óhugsandi með evru sem gjaldmiðil. Ef evran verður tekin upp er fyrirsjáanlegt að lækka verður launin hér á landi til þess að gera íslensku fyrirtækin samkeppnishæf.

Eignatilfærsla

Talið er nokkuð víst að með evrunni muni vextir lækka hér á landi en óvíst hversu mikið. Raunvextir á Íslandi reyndust 2-5% hærri en í 9 Evrópulöndum samkvæmt skýrslu sem Neytendasamtökin áttu aðild að og kom út í nóvember 2005. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands metur í skýrslu frá 2003 raunvexti um 2,5% hærri að meðaltali , en minni þegar vel gengur á Íslandi og gæti þá verið 1 – 2% við þær aðstæður. Hversu mikið vextir kynnu að lækka myndi ráðast fyrst og fremst af innlendri hagstjórn. Upptaka evrunnar er þannig engin trygging fyrir vaxtalækkun ein og sér.

Annað sem bent er á í skýrslu Hagfræðistofnunar er að fyrirtækin og hið opinbera muni hagnast á vaxtalækkuninni en heimilin munu tapa. Það er vegna þess að eignir heimilanna eru meiri en skuldirnar og lækkun vaxta nær jafnt til eigna sem skulda. Þannig munu vextir lækka á innistæður og eignir í lífeyrissjóðum. Rétt er að taka fram að þessi skýrsla er frá nóvember 2003 og síðan hefur orðið mikil breyting eins og kunnugt er. Hvort það breytir niðurstöðunni er alls endis óvíst.

Þá munu vaxtalækkun færa til verðmæti milli kynslóða þar sem yngri kynslóðin ber skuldir og sú eldri á eignir. Eldri borgarar munu tapa á vaxtalækkuninni. Ég er ekki viss um að margir vilji standa að slíkri eignatilfærslu.

Loks má nefna að skuldir munu ekki hverfa við það eitt að leggja niður krónu og taka upp evru. Skuldabréfin halda gildi sínu og ákvæði um vexti og verðtryggingu munu standa. Eðlilega munu bankarnir ekki una því að skuldir rýrni við gjaldmiðilsbreytingu.
Fleira væri hægt að nefna, en nóg er þó komið til þess að sýna fram á að mörgu þarf að hyggja áður en fullyrt er nokkuð um það að evran sé annað og meira en vonarpeningur.

Greinin birtist í Morgunblaðinu sl. mánudag.

Athugasemdir