Loksins var í gær orku- og auðlindafrumvarp ríkisstjórnarinnar tekið til umræðu á Alþingi. Það hefur staðið í þingmönnum Sjálfstæðisflokksins svo mánuðum skiptir en var að lokum samþykkt til framlagningar. Svo einkennilegt sem það er mætir frumvarpið helst andstöðu úr röðum annars stjórnarflokksins en stjórnarandstaðan virðist styðja málið eindregið og er áfram um að það nái fram að ganga.
Megintilgangur frumvarpsins er að tryggja áframhaldandi opinbert eignarhald orkuauðlinda í opinberri eigu með þeim rökum sem lesa má um í greinargerð frumvarpsins að miklir þjóðhagslegir og samfélagslegir hagsmunir tengist eignarhaldi og nýtingu orkuauðlinda landsins og því er mikilvægt að þær verði áfram í samfélagslegri eigu.
Svo háttar til, eins og kunnugt er, að öll helstu orkufyrirtæki landsins eru að fullu í opinberri eigu með þeirri undatekningu að Hitaveita Suðurnesja er að þriðjungi til í eigu Geysis Green Energy. Frumvarpið kveður beinlínis á um það að óheimilt verði að framselja eignarrétt að vatni, jarðhita eða grunnvatni til annarra en opinberra aðila. Talið er tryggt að með frumvarpinu verði loku fyrir það skotið að orkuauðlindir landsmanna, sem eru að langmestu leyti í opinberri eigu, verði einkavæddar. Það er einmitt ástæða andstöðunnar sem er að finna í röðum sjálfstæðismanna.
Ég tel að það eigi að bæta eigi frumvarpið og gera eigi löggjöfina altæka með því að ríkið eignist hlut GGE í Hitaveitu Suðurnesja og rétt að skoða eignanám á hlutnum þar sem gerðardómur ákvarði verðið ef ekki næst samkomulag.
Það er mikill kostur á frumvarpinu að menn hafa greinilega eitthvað lært af mistökunum í stjórn fiskveiða og meðferð fiskveiðiréttindanna. Nú er sett það skilyrði að réttindunum verði aðeins ráðstafað til afnota og það í afmarkaða tíma, gegn leigu og að auki er kveðið á um að jafnræðis skuli gætt við veitingu afnotaréttarins. Minna má á álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem komst að þeirri niðurstöðu að ráðstöfun veiðiheimilda samkvæmt lögunum um stjórn fiskveiða bryti gegn jafnræðisreglu samningsins um stjórnmálaleg og borgaraleg réttindi.
Tímabundinn afnotaréttur gegn leigugjaldi þar sem jafnræðis er gætt við úthlutun er einmitt það sem vantar í fiskveiðilöggjöfina og þegar fram nást nauðsynlegar lagabreytingar þar á verður um grundvallarbreytingu að ræða. Þetta frumvarp styrkir málflutning okkar réttarbótamanna og staðfesta að meginsjónarmið okkar hafa orðið ofan á í pólitískri umræðu. Það stendur ekki til að gera sama axarskaftið í löggjöf um orkuauðlindir landsmanna og gert var 1990 varðandi nýtingu fiskistofnana við Ísland.
Segja má að meginatriði frumvarpsins séu í góðu samræmi við samþykktir þingflokks Frjálslynda flokksins frá 14. september og 9. júlí á síðasta ári. Þær er að finna á heimasíðu flokksins og vil ég benda lesendum á að kynna sér þar efni þeirra.
En í stuttu máli er mörkuð sú stefna að tryggt verði með löggjöf forræði þjóðarinnar yfir nýtingu orkunnar og sanngjarnar hlut hennar og íbúa einstakra landssvæða með greiðslu afgjalds fyrir réttindin. Orkulindir verði í almannaeigu og nýttar í almannaþágu, en hlutverk einkaaðila verður að öðru jöfnu að annast atvinnustarfsemina á eðlilegum markaðsforsendum.
Athugasemdir