Ríkisstjórnin hefur kynnt aðgerðir sem hún hyggst hrinda í framkvæmd fyrri áramót og eru til þess að bæta kjör aldraðra og öryrkja. Um þær má segja að þar er gott skref í rétta átt. Það er sjálfsagt að stuðla að því að nauðsynlegar lagabreytingar nái fram að ganga fyrir jólahlé Alþingis. En það ber að undirstrika að skref í rétta átt jafngildir auðvitað ekki því að leiðarenda sé náð á þeirri vegferða ð bæta kjör ofangreindra hópa. Enn verður margt ógert og rétt og skylt að minna á það þegar umræðan verður í þinginu næstu daga.
Frjálslyndi flokkurinn bar fram umfangsmikla stefnu í skatta og velferðarmálum fyrir síðustu Alþingiskosningar og þar voru málefni aldraðra og öryrkja fyrirferðarmikil. Strax við upphaf haustþings færðu þingmenn flokksins helstu stefnuatriðin inn í þingsali með nokkrum þingmálum. Þau hafa nú öll farið gegnum 1. umræðu og eru til meðferðar í viðkomandi þingnefndum.
Það er sérsatklega athyglisvert að öll helstu atriðin í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eru að finna í fyrsta lagafrumvarpinu sem við þingmenn Frjálslyndra fluttum á þingskjali 10. Afnám tengingar á bótum öryrkja eða ellilífeyrisþega við atvinnutekjur maka og hætt verði að skerða bætur vegna viðbótalífeyrissparnaðar lífeyrisþega eru tillögur sem er að finna í frumvarpi okkar og líka í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þá leggur ríkisstjórnin til að lífeyrisþegi megi hafa allt að 100 þúsund krónur á mánuði í atvinnutekjur án þess að það skerði bætur almannatrygginga. Í frumvarpi okkar er gert ráð fyrir að atvinnutekjurnar skerði ekki bæturnar án þess að sett sé neitt þak á fjárhæð þeirra. Þarna gengur ríkisstjórnin nokkuð styttra en frumvarp okkar en engu að síður er mikil bót að þessarri breytingu.
Hins vegar er munur á varðandi öryrkja, þar gerir frumvarp okkar ráð fyrir því að atvinnutekjur þeirra skerði ekki bætur, rétt eins og hjá öldruðum en ríkisstjórnin setur ekki neitt frítekjumark hjá öryrkjum en boðar þess í stað aðgerðir sem skili sambærilegum ávinningi. Það er auðvitað ekki það sama og fyrir ellilífeyrisþega og nokkur óvissa hlýtur að vera um þessa réttarbót fyrir öryrkja þar til ríkisstjórnin hefur skýrt nánar hvaða aðgerðir þetta eiga að vera og hvenær þær eiga að koma til framkvæmda.
Segja má að ríkisstjórnin hyggist með boðuðum aðgerðum sínum hafi tekið frumvarpið á þingskjali 10 traustataki og ætlar sé að hrinda efnisatriðum þess að mestu leyti í framkvæmd. Það er frekar óvenjulegt en við því verður ekki amast af hálfu flutningsmanna.
Áfram þarf að halda á þeirri vegferð að bæta kjör aðdraðra og öryrkja og minnt er á önnur atriði úr kosningastefnuskrá Frjálslyndra. Þar var lagt til að bætur almannatrygginga myndu framvegis fylgja almennri launavísitölu og nægja til framfærslu og að lífeyrissjóðstekjur yrðu skattlagðar sem fjármagnstekjur. Loks vil ég minna á tillögur okkar um viðbótarpersónuafslátt fyrir tekjulága sem eru komnar fram á Alþingi. Nái þær fram að ganga munu kjör þeirra sem hafa tekjur að 250 þúsund kr. á mánuði batna verulega og þeir sem hafa tekjur undir 150 þús kr.á mánuði myndu ekki greiða skatt af tekjum sínum. Elli- og örorkulífeyrisþegar myndu njóta góðs af í bættum kjörum sínum öðrum fremur ef allar áherslurnar ná fram að ganga. Það gleðilega er að árangur er að nást.
Athugasemdir