Alið á fordómum

Pistlar
Share

Það er vandratað meðalhófið í fréttaflutningi og umfjöllum um það sem aflaga fer í þjóðfélaginu. Það er gömul saga og ný. Rík er tilhneigingin að finna sökudólg og að gerða hann ábyrgan. Við það verða aðrir lausir við sök eða ábyrgð. Kannast ekki margir við frásögnina af innbrotinu, þjófnaðinum eða nauðguninni sem lauk með því að greint frá því að um aðkomumann var að ræða? Erlendis eru til sams konar dæmi og þar eru dæmi um að gyðingar eða sígaunar gerðir ábyrgir fyrir einhverju miður góðu athæfi sem bitnar á almenningi eða ógnar öryggi hans.

Meðalhófið er vandratað og ef það tekst ekki þá getur það gerst að alið er á fordómum, stundum óafvitandi og stundum vísvitandi. Að gera utanbæjarmenn ábyrga fríaði heimamenn allri ábyrgð og leiddi til almenningsálits sem var rangt, vegna þess að það lágu rangar upplýsingar til grundvallar. Þess vegna bera þeir sem flytja fréttir mikla ábyrgð ekki síður en hinir sem vinna úr fréttunum.

Nú eru það útlendingar sem eru í hlutverki utanbæjarmannsins. Fluttar eru fréttir af afbrotum sem þeir fremja og óðara stökkva fram menn sem gera útlendingana ábyrga fyrir því að venjulegt fólk, og sérstaklega konur óttast um öryggi sitt og krefjast þess að fjarlægja þá úr landi eða þeim verði bannað að koma til landsins án einhvers konar öryggisskoðunar. Upphrópun á borð við útlend nauðgunargengi eða þjófagengi eru sorgleg dæmi þar sem alið er á fordómum gagnvart útlendingum og íslenskt þjóðerni upphafið.

Síðustu daga hefur mjög borið á fréttum af nauðgunum sem erlendir menn eru taldir hafa framið og sumir fjölmiðlar hafa tilgreint sérstaklega að um útlendinga hafi verið að ræða. Það má segja að eðlilegt er að tilgreina þjóðerni ef það hefur einhverja þýðingu til þess að skýra málið. Það er að segja ef útlendingar eru líklegri til þess að nauðga, þá er það kannski sanngjarnt gagnvart öðrum sem myndu annars liggja undir grun.

En engar upplýsingar hafa komið fram sem staðfesta það. Þvert á móti þá er upplýst að ólíklegt sé að fleiri nauðganir séu framdar af útlendingum en nemur hlutfalli þeirra af íbúum landsins. Að auki er upplýst að fleiri erlendar konur sem giftust íslendingi og fluttust til landsins hafi leitað til Stígamóta vegna ofbeldis eiginmanns síns en sem svarar hlutfallslegum íbúafjölda þeirra. Hvar er fréttaflutningurinn um þá staðreynd síðustu vikur?

Vissulega hefur orðið sprenging í fjölda útlendinga hér á landi á örfáum árum. Það má segja að þar hafi ekki verið farið meðalhófið og mörg vandamálin af því orðið. Aðallega þó á þann veg að íslenskir atvinnurekendur hafa misnotað hið erlenda vinnuafl á einn eða annan hátt. Af þessari hröðu fjölgun á stuttum tíma leiðir ýmislegt sem venjulegum Íslendingi líkar ekki, svo sem að geta ekki talað íslensku við strætisvagnstjórann eða þjóninn á veitingahúsinu o.s.frv. Það eru að mínu mati eðlileg umkvörtunarefni því við eigum heima í íslensku málsamfélagi og eigum ekki að una öðru. Og vissulega getur mörgum landanum þótt að nóg sé komið í bili af fjölgun útlendinga. Það er í sjálfu sér ekkert að því sjónarmiði og einmitt skiljanlegt út frá meðalhófinu sem alltaf á við.

En við eigum ekki að ræða um einstök vandamál eins og þau eigi sér sérstaklega rætur í erlendu þjóðerni af þeirri einföldu ástæðu að slíkt er firra. Ofbeldishegðun er vandamál sem útlendingar bjuggu ekki til , drykkjuskapurinn og sóðaskapurinn um helgar í miðborg Reykjavíkur er ærinn þótt engir útlendingar komi þar að. Nauðgangir hafa því miður verið fjölmargar á hverju ári framdar af Íslendingum.

Í hnotskurn þá hafa vandamálin,sem verið er að tengja útlendinga sérstaklega við, verið til staðar án þeirra og engar vísbendingar liggja fyrir sem sýna að þau hafi orðið verri fyrir þeirra tilverknað. Á Austurlandi hefur um nærri þriggja ára skeið verið um 1500 – 2000 manna þorp Pólverja sem unnið hafa hjá Bechtel. Þar hefur ekki orðið neitt lögreglumál, engin kæra, engin umkvörtun, engir árekstrar við Íslendinga og eru þó mennirnir bæði ungir og nota áfengi.

Vestfirðingar hafa lengri reynslu en aðrir landsmenn af útlendingum sem þangað hafa flust til lengri eða skemmri dvalar. Sú reynsla er útlendingunum hagstæð, þeir hafa sýnt sig vera góðir þegnar og hafa almennt lagt sig fram um að standa sig vel í íslensku þjóðfélagi. Það sama á við um þá útlendinga sem hingað hafa komið á síðustu árum, nema hvað líklega má sjá þverskurð í þeirra hópi sem er líkari því sem við almennt þekkjum. Þetta eru frekar sannmæli um útlendingana en á köflum frekar óviðfelldin umfjöllum síðustu daga á þjóðernislegum nótum. Hún hefur alið á fordómum með óttann að vopni.

Frjálslynd stjórnmálaöfl um alla Evrópu berjast fyrir virðingu og umburðarlyndi og því að hver einstaklingur njóti réttindi og axli skyldur án tilvísunar til þjóðernis. Þeim sem aðhyllast þau öfl ber öðrum fremur að hafa það í huga.

Athugasemdir