Svör við spurningum Feykis:
1. Hverjar eru skýringarnar á neikvæðum hagvexti á Norðurlandi vestra?
Fyrst og fremst samdráttur í helstu atvinnugreinum svæðisins, landbúnaði og sjávarútvegi og því að þessar atvinnugreinar eru samanlagt stærri hluti af atvinnulífinu en á flestum öðrum landsvæðum. Störfum hefur fækkað, einkum í fiskvinnslu og Norðurland vestra er eina svæðið þar sem hagvöxtur á mann hefur þar að auki verið neikvæður á þessum árum. Það bendir til þess að hagræðingin, sem hefur orðið fyrst og fremst í sjávarútvegi, komi svæðinu ekki til góða. Því er spurt: hvert hefur ávinningurinn farið? Þá hefur svæðið ekki fengið nægjanlega hlutdeild í vextinum sem orðið hefur í þjónustugreinum. Loks eru meðaltekjur þær lægstu á landinu og það ýtir undir fólksflutninga til svæða þar sem tekjurnar eru hærri og lífskjör betri.
2. Hvað er til ráða?
Nýta auðlindir svæðisins til lands og sjávar íbúunum til hagsbóta. Opna sjávarútveginn og gefa ungu fólki kost á að nýta fiskimiðin. Orka í fallvötnum og jarðhiti verði nýttur til atvinnusköpunar heima í héraði og afgjald eða leiga fyrir nýtingu orku og fiskimiða greidd til sveitarfélaga eða ráðstafað til atvinnuuppbyggingar á viðkomandi landssvæði. Lífskjör verði jöfnuð gegnum ríkissjóð með lægri sköttum einstaklinga þar sem meðaltekjur eru lágar. Fyrirtæki örvuð til starfsemi á svæðinu með sama hætti. Loks vil ég nefna að svæðið þarf að vera samkeppnisfært við höfuðborgarsvæðið í aðstöðu og aðbúnaði atvinnufyrirtækja, svo sem samgöngum og fjarskiptum.
Athugasemdir