Ekkert gjald má greiða, nema heimild sé til þess í fjárlögum

Pistlar
Share

Ríkisendurskoðun gagnrýnir það harðlega í skýrslu sinni um kaup og endurnýjun á Grímseyjarferju að greiddar hafa verið tæplega 400 mkr. úr ríkissjóði til verksins. Í fjárlögum er aðeins heimild til þess að selja gömlu ferjuna og verja andvirðinu til verksins. Verðmæti Sæfara var talið um 50-55 mkr. fyrir 4 árum svo það dugir aðeins fyrir broti af útlögðum kostnaði.

Reyndar virðist svo vera skv. skýrslunni að kostnaðurinn til þessa hafi að öllu leyti verið fjármagnaður með fjárheimildum Vegagerðarinnar til annarra verkefna. Ríkisendurskoðun lætur það koma fram í skýrslu sinni að þessi aðferð standist á engan hátt ákvæði fjárreiðulaga og geti ekki talist til góðrar stjórnsýslu.

Ekki verður Ríkisenduskoðun sökuð um að taka of djúpt í árinni með þessum ummælum. Málið snýst nefninlega um sjálfa stjórnarskrána. Í 41. grein hennar eru skýr fyrirmæli um að „ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum „. Það fer ekki á milli mála að stjórnarskráin mælir svo fyrir um að fyrst skuli afla samþykkis Alþingis fyrir útgjöldum áður en til þeirra er stofnað.

Í Grímseyjarferjumálinu er þessu öfugt farið, fyrst er stofnað til útgjalda og þau greidd og síðan stendur til að fá samþykki Alþingis. Það sér hver maður, að Alþingi getur fátt gert úr því sem komið er , það hefur ekkert val vegna þess að ráðherrar hafa tekið sér stjórnarskrárbundið vald Alþingis að því forspurðu.

Geta verður ákvæðis 33. gr. fjárreiðulaga sem Ríkisendurskoðun minnist á. Þar er vikið frá ákvæði stjórnarskrárinnar í undatekningartilvikum : „Valdi ófyrirséð atvik því að greiða þarf úr ríkissjóði án heimildar í fjárlögum er fjármálaráðherra að höfðu samráði við hlutaðeigandi ráðherra heimilt að inna greiðsluna af hendi enda þoli hún ekki bið. Fjármálaráðherra er skylt að gera fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir slíkum ófyrirséðum greiðslum strax og ákvörðun hefur verið tekin um þær og leita heimilda til þeirra með frumvarpi til fjáraukalaga“.

Það fer ekki á milli mála að málavextir í þessu máli falla ekki undir undanþáguna, það gefur gefist nægur tími til þess að leggja málið fyrir Alþingi ef vilji hefði verið til þess. Greinilegt er að ráðherrar sem að málinu komu og líklega ríkisstjórnin öll hefur vísvitandi forðast það að leggja útgjöldin fyrir Alþingi sem fer með fjárveitingavaldið og spurning er hvort ekki megi segja að Alþingi hafi verið leynt nauðsynlegum upplýsingum . Það er býsna langt gengið í því að sniðganga ákvæði stjórnarskrárinnar.

En aðalatriði þessa máls, að mínu mati, er einmitt sú staðreynd að greitt hefur verið úr ríkissjóði án heimildar Alþingis. Það gengur gegn 41. grein stjórnarskrárinnar. Það kemur berlega fram í riti Ólafs Jóhannessonar, Stjórnskipun Íslands, að sú leið að greiða fyrst og afla svo lagaheimildar er andstæð ákvæðum stjórnarskrárinnar. Það kemur líka fram í frv. fjárveitinganefndar frá 112. löggjafarþingi 1989–1990 að fjárveitinganefnd er sömu skoðunar – að framkvæmdin sé í andstöðu við stjórnarskrána.

En fjárveitinganefnd, eins og fjárlaganefndin hét þá, samdi frv. til laga um fjárgreiðslur úr ríkissjóði og lagði það fram að minnsta kosti á tveimur þingum. Tillaga nefndarinnar var síðan rökstutt í ítarlegu áliti og það er við hæfi að ljúka þessum pistli með tilviknun í greinargerð fjárveitinganefndar Alþingis , þar sem fjallað er um þann leiða sið að greiða fyrst og sækja svo um heimild Alþingis:

„Framkvæmd þessi styðst að sjálfsögðu hvorki við fyrirmæli í almennum lögum né aðrar skráðar réttarheimildir enda ekki furða þar sem slík fyrirmæli hlytu eðli sínu samkvæmt að vera í hróplegu ósamræmi við skýr ákvæði stjórnarskrárinnar. Öllum ætti að vera ljóst að í þessum efnum hefur ein af grundvallarreglum íslenskrar stjórnskipunar verið brotin, þ.e. reglan um að Alþingi fari með fjárveitingavaldið“.

pistill birtist í Blaðinu 15. ágúst 2007

Athugasemdir