Það verður að gera grundvallarbreytingar á löggjöfinni um fiskveiðistjórnunina annars verður hrun í mörgum byggðarlögum landsins sem byggjast á sjávarútvegi. Þetta er æ fleirum að verða ljóst og þess vegna hefur umræðan um sjávarútvegsmál breyst mjög hratt eftir alþingiskosningar. Varla var búioð að telja upp úr kjörkössunum þegar eigendur Kambs sögðu að ekki væri rekstrargrundvöllur fyrir fyrirtækið og ákváðu að selja aflaheimildir og aðrar eignir. Það sérkennilega sem þá við blasti var að eigendurnir fara frá rekstrinum með fúlgur fjár en íbúar þorpsins sitja eftir með sárt ennið.
Í Vestmannaeyjum hófst valdabarátta , sem enn stendur yfir, um yfirráðin yfir helsta sjávartvegsfyrirtækið eyjanna þar sem veiðiheimildirnar eru virtar upp á tugi milljarða króna. Íbúar Vestmannaeyja geta fyrr en varir staðið í sömu sporum og Flateyringar.
Reyndar verður líka mikil breyting í þessum sjávarplássum, þótt veiðiheimildir fari ekki úr plássinu við sölu.
Þá skapast skuldavandi. Ný skuld, gríðarhá, hefur orðið til og hvílir á rekstri fyrirtækisins. Nýiju eigendurnir verða að skera allan kostnað niður sem mest þeir mega og að sjálfsögðu er það launakosnaðurinn sem verður helst fyrir. Starfsmönnum er fækkað og allra leiða leitað til þess að lækka launin. Þess eru dæmi að hlutaskiptakerfið sé farið að láta undan.
Meðallaun í fiskveiðum eru þau lægstu á Vestfjörðum á landinu og um 40% lægri en á höfuðborgarsvæðinu. Í fiskvinnslu eru meðallaunin á Vestfjörðum um 1 mk.r lægri en á höfuðborgarsvæðinu. Það er , að mínum mati, engin tilviljun að launin eru lægst þar sem mest er af keyptum veiðiheimildum í seinni tíð og það má alveg rannsaka hvort samband er á milli launastigsins og fjölda útlendinga í atvinnugreininni.
Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum hefur verð á varanlegum veiðiheimildum hækkað um 70% á einu ári. Það þýðir að heildarverðmæti veiðiheimildannan hefur hækkað um hundruð milljarða króna á einu ári. Hvað hefur gerst á þessum skamma tíma sem framkallar Þessi verðmæti?
Ekki hef ég svör við því, en eitt er víst að veruleg samþjöppun veiðiheimilda er framundan . Hún verður einmitt rökstudd með skýrskotun til þessarar verðhækkunar, annars geta kaupendur veiðiheimilda ekki staðið undir kaupum með slíkum verðum. Að óbreyttu endar samþjöppunin fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu og færir fiskvinnsluna þangað meira og minna í skjóli þess að þar er eina útflutningshöfn landsmanna eins og sakir standa.
Þesasr staðreyndir leiða til þess að í umræðu utan dagskrár í síðustu viku, sem ég stóð fyrir um áhrif framsalsins í fiskveiðistjórnunarkerfinu, kom mjög skýrt fram í fyrsta sinn í langan tíma, að allir ræðumenn viðurkenndu vandann og töldu rétt að gera breytingar. Loksins er mönnum að verða ljósta ð hagsmunir fárra útgerðarmanna verða að víkja fyrir almennum hagsmunum tugi þúsunda landsmanna sem kerfið er að leika svo grátt að óbærilegt er upp á að horfa.
Vandinn er ekki bara Vestfjarðavandi, það er almennur kerfisvandi, grundvallarbreytingar verður að gera til þess að innleiða almennar leikreglur í almannaþágu. Það var ótvírætt niðurstaða forseta Alþingis í ræðu hans á Ísafirði í gær og forsætisráðherra viðurkenndi líka vandann sem almennan kerfisvanda í ræðu sinni á Austurvelli.
Það eru orðin vatnaskil í umræðunni. Nú verða stjórnmálaflokkarnir að ljúka málinu sem hófst fyrir 7 árum þegar endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins fór fram en sérhagsmunaaðilarnir komu fyrir kattarnef með sterkum ítökum sínunm í Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum.
Frjálslyndi flokkurinn er reiðubúinn til þess af fullum heilindum að taka höndum saman við þá sem vilja nú endurskoða kerfið frá grunni og færa sjávarbyggðum landsins aftur tilverugrundvöll sinn. Við viljum ekki sjá þær hrynja eina af annarri á næstu árum.
Athugasemdir