Samkeppni á lánamarkaði talin vandamál

Pistlar
Share

Í blöðum dagins er greint frá áliti sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um íslenskt efnahagslíf. Mesta athygli mína vekur að aukin samkeppni á íbúðalánamarkað er talin sérstakt vandamál. Formaður sendinefndarinnar Benjamin Hunt segir að Íbúðalánasjóður eigi stóra sök á því ójafnvægi sem ríki innan íslenska hagkerfisins.

Það gerði sjóðurinn með því að eiga í samkeppni við viðskiptabankana og af því leiddi að kjör viðskiptavinanna væru betri en væri ef engin væri samkeppnin. Betri kjör einstaklinga þýðir minni útgjöld þeirra í tekin íbúðalán og þá meiri kaupmáttur til annarra þarfa. Þetta heitir á máli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins „að sjóðurinn orsaki að stjórntæki Seðlabankans væru áhrifaminni en ella og að samkeppnin hindraði stýrivexti Seðlabankans í að draga úr innlendum eftirspurnarþrýstingi“.

Þetta er sérkennileg leið til þess aðdraga athyglina frá því að vandinn liggur fyrst og fremst í ríkisfjármálunum. Til hvers er verið að markaðsvæða hvert svið atvinnulífsins á fætur öðru og koma á fót samkeppni ef það er svo helsta efnahagslega vandamálið að samkeppnin skilar árangri fyrir þegna landsins? Að sjálfsögðu er svo lagt til í áliti sjóðsins að leggja niður Íbúðalánssjóð.

En það er ekki vegna hagsmuna almennings heldur viðskiptabankanna. Ef orðið verður við þessum tillögum þá mun samkeppnin minnka um íbúðalánin og kostnaður lántakendanna vaxa. Bankarnir munu græða meira og almenningur mun borga meira. Mest munu íbúar landsbyggðarinnar tapa, þar munu vextirnir verða hæstir, ef þá bankarnir lána nokkuð á sumum landsvæðunum .

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leggur til að ráðist verði í sértækar aðgerðir til þess aðtryggja íbúum allra landshluta fasteignafjármögnun. Þetta er vond tillaga, í stað almennra lánveitinga í gegnum Íbúðalánasjóð eiga að koma sértækar aðgerðir. Íbúar tiltekinna landssvæða eiga að vera skilgreindir þurfalingar upp á ríkissaðstoð komnir samkvæmt þessu.
Ætli það verði ekki sérstakur fjárlagaliður í fjárlögum framtíðarinnar sem heiti eitthvað á þessa leið: niðurgreidd ríkisaðstoð við íbúðalán.Síðan verður endalaust fjallað um það í Reykjavíkurfjölmiðlunum að það sé verið að niðurgreiða og styrkja þessa vesalinga út í á landi.
Staðreyndin er hins vegar sú að Íbúðalánasjóður gerir öllum jafnhátt undir höfði, allir landsmenn eru jafnir gagnvart lánveitingum og það sem meira er, áhætta sjóðsins og útlánatap er hverfandi og er jafnað niður á alla lántakendur. Þetta kerfi kostar ríkissjóð ekkert en er það ódýrasta fyrir lántakendur um land allt.

Það er vandamálið að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og viðskiptabankanna íslensku. En spurningin er ætlar ríkisstjórnin að hlýða þessum aðilum og slá af Íbúðalánasjóð? Svör viðskiptaráðherra í Morgunblaðinu í dag eru frekar loðin og benda til þessa ðeinhverjar breytingar séu í vændum.

Athugasemdir