Herra forseti og góðir landsmenn.
Nýrri ríkisstjórn fylgja úr hlaði góðar óskir frá Frjálslynda flokknum um giftu í starfi og gæfu til að sýna réttsýni og sanngirni í samskiptum sínum við þing og þjóð.
Við munum taka málefnalega afstöðu til mála ríkisstjórnarinnar hverju sinni, styðja þau sem til framfara horfa en gagnrýna hin.
Frjálslyndi flokkurinn leggur áherslu á gott samstarf við félaga okkar í stjórnarandstöðunni en mun starfa á eigin sjálfstæðu forsendum sem frjálslyndur og framfarasinnaður flokkur með almannahagsmuni í öndvegi.
Við leggjum áherslu á að byggja áfram upp stéttlaust velferðarþjóðfélag jafnréttis á grunni markaðshagkerfis. Í því er atvinnufrelsið grundvallaratriðið, enda er það engin tilviljun að kveðið er á um atvinnufrelsið í stjórnarskrá lýðveldisins. Þegar út af er brugðið eins og í sjávarútvegi hljótast af því stórkostleg vandamál, sem bitna á þúsundum fjölskyldna.
Atvinnugrein án atvinnufrelsis fær ekki staðist, fjötrarnir verða að lokum brotnir af, spurningin er aðeins hvað skaðinn verður mikill áður en yfir lýkur. Skaði sem þúsundir landsmanna verða að bera bótalaust.
Við tökum undir áherslur stjórnarflokkanna um heilbrigða samkeppni og eðlilega verðmyndun á öllum sviðum atvinnulífsins. Mikill misbrestur er á því að svo sé, þar má nefna sem dæmi vöruflutninga, fjarskiptaþjónustu og fjármálamarkaðinn. Fákeppni og óeðlilegir tilburðir gagnvart neytendum eru algengir lýsa sér bæði í háu verði og slakri þjónustu.
Raunvextir hér á landi eru 2 – 5 % hærri en í allmörgum löndum í Evrópu sem tekin hafa verið til samanburðar. Bankarnir bjóða viðskiptavinum sínum hérlendis lakari kjör en þeir bjóða erlendis vegna þess að samkeppni skortir.
Það er kannski það allra mikilvægasta almenningi til hagsbóta í markaðsþjóðfélagi nútímans að samkeppnisvæða atvinnulífið og gera það meðal annars með nauðsynlegri lagasetningu. Það mun skila sér í betri þjónustu og lægri útgjöldum heimilanna.
Ég vil minna á tillögur Frjálslynda flokksins í skattamálum og málefnum aldraðra og öryrkja fagna því að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er sumar þeirra þar að finna, svo sem áherslu á hækkun persónuafsláttar, boðað er að hætt verði að skerða tryggingarbætur vegna tekna maka og hraða á uppbyggingu 400 nýrra hjúkrunarrýma.
Hins vegar verða þau áform ríkisstjórnarinnar að tryggja ellilífeyrisþegum að lágmarki 25.000 kr. greiðslu á mánuði frá lífeyrissjóði ekki til hagsbóta í þeim mæli sem ætla má. Eftir að almannatryggingabætur hafa verið skertar vegna þessara nýju tekna standa aðeins eftir liðlega 12.000 kr. hjá ellilífeyrisþega sem er með tekjutryggingu og heimilisuppbót. Og ef viðkomandi á ekki ónotaðan persónuafslátt þá greiðist til viðbótar skattur af sumargjöf ríkisstjórnarinnar.
Eftir standa þá að lokum aðeins um 3.000 kr. Ríkið tekur sjálft um 22.000 kr. til sín eða tæplega 90% fjárhæðarinnar. Miðað við staðtölur almannatrygginga fyrir árið 2005 voru um 84% ellilífeyrisþega með tekjutryggingu og 12.000 bótaþegar fengu heimilisuppbót svo það fer ekki á milli mála stærstur hluti ellilífeyrisþega mun ekki fá boðaðar kjarabætur.
Nauðsynlegt er að vinna að breytingum í heilbrigðismálum. Ríkisstjórnin er að vísu fáorð í þeim málum og stefnan óljós. Þó er það skynsamlegt, sem segir í stjórnarsáttmálanum, að taka upp blandaða fjármögnun á heilbrigðisstofnunum, þar sem fjármagn verði að hluta tengt sjúklingi, en stíga þarf stærri skref í umbótaátt.
Óhjákvæmilegt er , meðal annars vegna athugasemda Ríkisendurskoðunar, að gera þjónustusamninga við allar stofnanir sem hafa tekið að sér að veita öldruðum þjónustu, þar sem þjónustan er nákvæmlega skilgreind og ríkið, sem greiðandi tryggi það, að sú þjónusta sé veitt, sem það er að greiða fyrir.
Skoða á hvort ekki sé rétt að útvista einstökum þjónustuþáttum í stað þess að safna þeim saman undir forræði Landsspítalans í eina ofurstóra ríkisstofnun. Þannig má vel hugsa sér að endurhæfing, geðdeildarþjónusta, starfsemi blóðbankans og öldrunarþjónusta verði klofin frá Landsspítalanum og hver um sig rekin sem sér eining eða útvistað með samningum. Í samræmi við þessar hugmyndir á að endurskoða áform um nýbyggingu Landsspítalans.
Ríkið verður að greina í sundur hlutverk sitt sem greiðandi, veitandi og eftirlitsaðili þjónustunnar og skilja í sundur þessa hagsmuni. Þar er brýnasta þörfin á skipulagsumbótum í kerfinu. Horfa á sérstaklega til þess að Landlæknisembættið er hvort tveggja í senn ráðgjafi heilbrigðisráðherra og eftirlitsaðili með þeim stofnunum sem heyra undir sama ráðherra. Eðlilegt er að styrkja eftirlitshlutverkið með því að færa Landlæknisembættið undan yfirstjórn ráðherra og undir beina stjórn Alþingis eins og gildir varðandi Ríkisendurskoðun.
Allar þessar skipulagsbreytingar eiga að miða að því að veita betri og markvissari heilbrigðisþjónustu án þess að nokkur breyting verði á kostnaði notenda þjónustunnar.
Að lokum staldra ég við þá yfirlýsingu að ríkisstjórnin hafi ákveðið að setja ráðherrum og alþingismönnum siðareglur. Ég velti því fyrir mér hvað þetta eigi að þýða? Í umboði hvers ætlar ríkisstjórnin að setja alþingismönnum siðareglur? Alþingismenn sækja umboð sitt beint til kjósenda og setja sig undir dóm þeirra. Ég sé ekki að ríkisstjórn sé þess umkomin að hafa vit fyrir kjósendum og hún ætti að láta það vera.
Ég spyr eru þeir ráðherrar sem studdu þá sem gáfu út stuðningsyfirlýsinguna við Íraksstríðið þess umkomnir að setja öðrum einhverjar siðareglur, svona í ljósi þess að lög um samráð við utanríkismálanefnd Alþingis voru sniðgengin og þingflokkar þáverandi stjórnarflokka voru ekki virtir viðlits?
Eða þeir ráðherrar sem stóðu að aðför að ákveðnum einstaklingum í þjóðfélaginu með fjölmiðlalögunum fyrir þremur árum og tróðu þeim með handafli og þvingunum gegnum þingið. Eru það kannski þær siðareglur sem á að setja að þingmenn eigi skilyrðislaust að beygja sig fyrir valdi ráðherranna og þeir hafi verra af sem ekki gera það?
Eða eru það ráðherrarnir sem gengu fram í kosningabaráttunni af fullkominni ósvífni með loforðum og samningum um útgjöld úr ríkissjóði til þess að auka fylgi við sig í komandi alþingiskosningum sem eiga að setja alþingismönnum siðareglur?
Ég held að ríkisstjórnin ætti að fara sér hægt í þessum efnum, en hins er full ástæða til þess fyrir Alþingi að setja lög sem setji ráðherrum skýrar reglur og afmarkaðan lagaramma til þess að fara eftir.
Ég þakka þeim sem hlýddu.
Góðar stundir.
Athugasemdir