Næsta stjórnarmyndun 2019?

Pistlar
Share

Það er hefðbundinn frasi stjórnarflokka á hverjum tíma, sem farið er með þegar dregur að kosningum, að flokkarnir gangi óbundnir til kosninga. Með því er sagt að stjórnarsamstarfið standi aðeins fram að kosningum, en eftir þær séu flokkarnir óbundnir af samstarfssamningi sínum og málið í höndum kjósenda. Þeir ráði því með atkvæði sínu hvaða ríkisstjórn verði mynduð að kosningum loknum.

En veruleikinn er stundum öðruvísi en látið er í veðri vaka. Það á við í stjórnmálunum líka. Það kom berlega í ljós núna. Gömlu stjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, sem höfðu lýst því yfir fyrir kosningarnar, að þeir gengju óbundnir til kosninga, voru alls ekki óbundnir þegar búið var að telja atkvæðin. Þá sögðu forystumenn þáverandi stjórnarflokka að stjórnin hefði haldið velli og sæti áfram. Framundan væru viðræður þeirra á milli um framhaldið en stjórnin sæti.

Það fór að vísu öðru vísi en ætlað var eins og menn vita, en það var vegna þess að meirihlutinn var svo tæpur að áframhaldandi samstarf var of áhættusamt, en ekki vegna þess að flokkarnir vildu ekki halda samstarfinu áfram. Í raun bundu kjósendur enda á lífdaga ríkisstjórnarinnar.

Það fór ekki fram stjórnarmyndun í heil 12 ár, eftir að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn náðu saman 1995. Aðeins var rætt um framlengingu samstarfsins 1999 og 2003 og engar eiginlegar stjórnarmyndunarviðræður fóru fram við aðra flokka eða milli þeirra.

Mér sýnist að svipuð staða sé komin upp nú þrátt fyrir að stjórnarsáttmálinn sé aðeins til næstu fjögurra ára. Samstarf stóru flokkanna er ætlað að standa lengur en kjörtímabilið. Síðast í dag heyrði ég nýbakaðan félagsmálaráðherra segja í sjónvarpsviðtali að hann vonaðist til þess að ríkisstjórnin sæti í am.k. 2 kjörtímabil. Meirihluti stjórnarflokkanna er svo mikill að flokkarnir geta hæglega haldið honum næstu 12 árin, þrátt fyrir einhver áföll í kosningum. Það er því eðlilegt að spyrja hvort búið sé að mynda ríkisstjórn til ársins 2019?

Það er margt sem styður að svo kunni að vera. Aðalatriðið er að vera við völd og í stjórnmálunum eins og t.d. í viðskiptalífinu leitast forystumenn við að lágmarka áhættuþáttinn. Það er best gert með ríflegum meirihluta tveggja flokka og langtímasamstarfi. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hófu samstarf sitt með 40 þingmönnum og það tók kjósendur þrennar kosningar að tálga samanlagt fylgi flokkanna niður fyrir 50%.

Þá skipti Sjálfstæðisflokkurinn um samstarfsflokk, enda Framsókn orðin ósjófær, fékk Samfylkinguna til þess að taka við og hefja nýja siglingu með 43 þingmönnum og einn mesta þingmeirihluta í tveggja flokka stjórn sem sögur fara af í íslenskum stjórnmálum. Í komandi kosningum munu stjórnarflokkarnir nýju segjast ganga óbundnir til kosninga, en velja í raun áframhaldandi samstarf fram yfir aðra kosti.

Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um að setja siðareglur fyrir ríkisstjórn og Alþingi. Ég legg til að fyrsta reglan verði sú að stjórnarflokkar sem ganga óbundnir til kosninga verði áfram óbundnir eftir þær og raunverulegar stjórnarmyndunarviðræður fari fram. Það væri nokkur siðbót í íslenskum stjórnmálum.

Athugasemdir