Atvinnufrelsið verði endurreist í almannaþágu

Pistlar
Share

Þingflokkur Frjálslynda flokksins sendi frá sér á miðvikudaginn eftirfarandi ályktun :

Atvinnufrelsið verði endurreist í almannaþágu

Núverandi staða Flateyrar, sem og annarra sjávarbyggða á landinu, er lýsandi dæmi þess að almannahagsmunum er vikið til hliðar fyrir sérhagsmuni útvalinna og auðsöfnun þeirra.

Þingflokkur Frjálslynda flokksins telur að Alþingi verði þegar í stað að endurreisa atvinnufrelsi í sjávarútvegi með því að gera nauðsynlegar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða.

Auðug fiskimið eru fyrir Vestfjörðum og munu verða um ókomna tíð. Það er skylda löggjafarvaldsins að sjá til þess að ekki sé tekið fyrir möguleika athafnafólks í sjávarþorpunum til útgerðar og vinnslu, eins og núverandi kvótakerfi gerir og er helsta orsök vanda Flateyringa.

Vandinn er ekki sértækur heldur almennur og verður ekki leystur á annan hátt en að ráðast að rótum hans. Allt tal um skoðun, athugun eða óvænta atburðarás er orðagjálfur manna sem þora ekki að takast á við sérhagsmunina sem stjórnvöld eiga að stjórna en ekki þjóna.

Veiðiheimildir eiga að vera til staðar til þess að nýta áfram fiskimiðin nærri sjávarþorpunum. Frjálslyndi flokkurinn vill ráðstafa sérstaklega veiðiheimildum til byggðarlaga, sem búið hafa undanfarin ár við neikvæðan hagvöxt og tryggja með því atvinnu og byggð.

Þingflokkur Frjálslynda flokksins krefst þess af nýrri ríkisstjórn að hún láti vanda sjávarþorpanna til sín taka án tafar og lýsir sig reiðubúinn til samstarfs um farsæla niðurstöðu fyrir íbúana sem og landsmenn alla..

Athugasemdir