Umræðan um útlendinga er bæði viðkvæm og eldfim. Ekki hvað síst frá hendi þeirra sem bregðast við athugasemdum og ábendingum um það sem betur má fara í núverandi ástandi með því að saka þá um fordóma sem hefja umræðuna. Víst er það versta leiðin að þagga niður gagnrýni með þessum hætti og sannast sagna ber slíkt vott um verstu fordómana.
Eitt sem um er deilt er hvort stjórnvöld hafi tök á því að takmarka aðgang að íslenskum vinnumarkaði. Hvort eigi að beita þeirri takmörkun er svo annað mál, sem ég læt liggja milli hluta í þessum pistli. Það er meginreglan í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að aðildarlöndin búi við einn sameiginlegan vinnumarkað og að för fólks sé frjáls um löndin í því skyni að finna sér atvinnu og stunda hana.
Sú regla er ekki án undantekninga frekar en aðrar reglur og í samningum sjálfum eru ákvæði í 112. – 114. greinum um möguleika einstakra ríkja til þess að grípa til ráðstafana við þartilgreindar aðstæður. Að auki lagði ríkisstjórn Íslands fram yfirlýsingu þar sem lýst er því hvernig öryggisákvæðin eru túlkuð vegna einhæfs atvinnulífs og fámennis landsins. Þeirri túlkun var ekki mótmælt af hálfu Evrópusambandsins og er því litið svo á að túlkunin sé óumdeild.
Víkur sögunni til aprílmánaðar 2006. Þá var fyrir Alþingi frumvarp þar sem ákveðið var að opna vinnumarkaðinn fyrir 10 nýjum löndum Evrópusambandsins og nýta ekki heimildir til þess að fresta opnuninni til 2009. Í greinargerð með því frumvarpi er lögð áhersla á að íslenskur vinnumarkaður er smár í sniðum í samanburði við vinnumarkað nágrannaríkja okkar og tekið fram að mikilvægt sé að fylgjast vel með því hversu margir launamenn komi til landsins frá nýju aðildarríkjum ESB svo unnt sé að bregðast við aðstæðum í tíma.
Í þinglegri meðferð málsins komu fram miklar aðvaranir meðal annars frá verkalýðsfélögunum á Akranesi og Húsavík og að ónefndri stjórnarandstöðunni. Þær aðvaranir byggðust aðallega á því að undirbúningur opnunar vinnumarkaðarins fyrir nýju ríkjunum væri ófullnægjandi, algerlega skorti stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum innflytjenda og gætu t.d. undirboð á launum orðið verulegt vandamál.
Þessar áhyggjur komu fram í áliti félagsmálanefndar Alþingis og settur var fyrirvari í áliti meirihluta nefndarinnar til þess að slá á þær. Formaður nefndarinnar, Dagný Jónsdóttir, lýsti fyrirvaranum svo í ræðu sinni: "Vert er að taka fram að þegar aðildarríki hefur tekið upp hinar sameiginlegu reglur um frjálsa för launafólks er ekki ætlast til að settar verði strangari takmarkanir síðar nema ef um röskun eða fyrirsjáanlega röskun á innlendum vinnumarkaði verði að ræða".
Hún var spurð um það í umræðunum á Alþingi hvað þetta þýddi og svaraði því þannig:
"Þarna er settur sá fyrirvari að stjórnvöld geti gripið til aðgerða ef, eins og það er orðað, röskun verður á vinnumarkaði. Það er verið að tala um það að stjórnvöld verði að meta slíkt ástand eða yfirvofandi ástand og hafa samráð við aðila vinnumarkaðarins. Það er þá verið að tala um það að ef svo stór hópur útlendinga kemur hingað til lands að við verðum engan veginn í stakk búin til að taka á móti þeim. Einnig er verið að hugsa um atvinnuástandið í landinu o.s.frv. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við séum með þessa heimild í lögunum og það má líka geta þess að þetta eru rýmri heimildir en í Evrópusamningnum þannig að ég tel mjög gott að stjórnvöld hafi þennan varnagla. Við gerum okkur nefnilega ekki fullkomlega grein fyrir hversu margir muni nýta sér þessa rýmkun og koma hingað til lands. Það er alveg ljóst að vinnumarkaðurinn verður að vera í stakk búinn til þess að taka á móti þessu fólki og stjórnvöld".
Kristján Möller, sá sem spurði, var sáttur við fyrirvarann. Hann sagði: "Það er svo að ég er eiginlega alveg sammála því sem þarna kemur fram. Mér fannst hins vegar nauðsynlegt að talsmaður nefndarinnar útskýrði þetta betur hér. Það er sem sagt atvinnuleysi, mikið atvinnuleysi, eða stórkostlega mikill innflutningur á erlendu vinnuafli sem gæti gert þetta að verkum. Það er mikilvægt að þetta sé komið fram".
Þarna kemur alveg skýrt fram að ríkisstjórn og Alþingi settu einhliða fyrirvara þegar lögin voru sett og töldu sig hafa fulla heimild til þess. Það er því ekki deilt um það. Það kemur líka fram að það er á valdi stjórnvalda að meta aðstæður og að það er tvennt sem þau muni skoða, annars vegar hvort fjöldi útlendinga er meiri en unnt er með góðu móti að taka á móti og hins vegar atvinnuástandið.
Þá kemur líka alveg skýrt fram hjá formanni félagsmálanefndar Alþingis, að þessi varnagli sem hann kallar eða fyrirvari sé rýmri en felst í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
Niðurstaðan er því ótvíræð. Það var settur fyrirvari af Íslands hálfu sem heimilar það gripið verði til aðgerða ef fjöldi erlendra launamanna verður of mikill að mati stjórnvalda eða að atvinnuleysi verði. Það þýðir ekkert að þræta fyrir það.
Athugasemdir