Lítill bjarghringur

Pistlar
Share

Á fimm dögum eru komnar tvær mælingar á Íslandshreyfinguna. Niðurstaðan er athyglisverð fyrir þær sakir hve fylgið mælist lítið, aðeins um 5%. Eftir margra vikna upptakt í fjölmiðlum manns ársins og fréttamanns í áratugi annars vegar og hins vegar formanns hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins er afraksturinn ekki meiri en raun ber vitni.

Sagan geymir mörg dæmi um ný framboð, sem hófu leikinn í hálofunum. Vilmundur Gylfason, Jóhanna Sigurðardóttir og Albert Guðmundsson fóru öll fram með flokk með mikinn byr í seglin í upphafi en svo dró jafnt og þétt úr fylginu og varð að lokum í kosningum aðeins brot af upphaflegum mælingum.

Forsvarsmenn nýja flokksins geta ekki kvartað yfir meðhöndlun fjölmiðla, þau hafa í aðdraganda stofnunar – eða öllu heldur tilkynningar um tilvist- flokksins fengið mikla og afar jákvæða umfjöllun. Einmitt þess vegna er lágflugið í upphafi svo sláandi. Fátt bendir til annars en að sagan muni endurtaka sig og fylgið muni falla eins og hjá öðrum áðurnefndum nýjum framboðum.

En sérstaklega er athyglisvert að það fylgi, sem litla hreyfingin með stóra nafnið fær, er nær eingöngu tekið frá stjórnarandstöðuflokkunum og veldur því að stjórnarflokkarnir eygja möguleika á því að halda þingmeirihluta, einir sér eða með tilstyrk nýja hægri flokksins, að eigin skilgreiningu.

Íslandshreyfingin hlýtur að ætla sér að mynda stjórn með núverandi stjórnarflokkum, ef kostur er, því það er engin samstarfsflötur með þeim og Vinstri grænum í efnahagsmálum og hreyfingin byrjaði á því að hafna samstarfi við Frjálslynda flokkinn og skilgreindi sig strax sem sérstakan andstæðing hans. Þá er bara eftir samstarfsmöguleiki við stjórnarflokkanna.

Íslandshreyfingin stefnir sem sé að því að verða lítill bjarghringur fyrir löngu fallna ríkisstjórn stóriðjuflokkanna undir forystu Sjálfstæðisflokkinn. Er nema von að Morgunblaðið fagni.

Athugasemdir