Lokun Marels á Ísafirði – blikur á lofti í byggðaþróun

Pistlar
Share

Lokun Marels á Ísafirði er reiðarslag fyrir Vestfirðinga. Hún dregur fram skýrt þá drætti sem einkenna byggðaþróun undanfarinna ára. Því miður er það veruleikinn að fjórðungurinn á í vök að verjast. Nokkuð lengi hefur verið leitast við að sjá allar breytingar með jákvæðum gleraugum hversu slæmar sem þær hafa verið hverju sinni. Það er út af fyrir sig ágætt til þess að mönnum yfirsjáist ekki möguleikarnir til sóknar og framfara. En hitt verður ekki umflúið að greina verður ástandið hverju sinni kalt og rökrétt því aðeins þannig er unnt að finna réttu ráðin til úrbóta.

Í dag tók ég þetta má upp á Alþingi og lýsti áhyggjum mínum. Þingmenn sem til máls tóku voru sammála um það. Helstu kennitölur tala sýnu máli. Íbúum á Vestfjörðum hefur fækkað um 21% síðustu 12 árin og störfum fækkað að sama skapi. Meðaltekjur fyrir fullt starf hafa dregist aftur úr höfuðborgarsvæðinu á sama tíma og eru nú 18% lægri á Vestfjörðum en á höfuðborgarsvæðinu. Hagvöxtur á árunum 1998-2004 var neikvæður um 6%, en jákvæður um 29% á landsvísu á sama tíma.

Atvinna, störf og tekjur eru allt kennitölur sem sýna þróunina og þær eru allar á eina lund. Stjórnvöld geta haft áhrif á þróunina og hafa sýnt það , t.d. á Austurlandi að þau geta beitt sér og vilja það og það sem mest er um vert, ná árangri. Auðvitað er hægt að ná árangri á Vestfjörðum eins og annars staðar.

Vandinn er mikill víðar og í síðustu viku sendi stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra frá sér mjög ákveðna áskorun á stjórnvöld um sértækar aðgerðir þar, einkum á sviði atvinnu- og menntamála. Greining á vanda Vestfirðinga leiðir til svipaðra tillagna. Forsvarsmenn Marels nefna það sem eina ástæðu lokunarinnar að Ísafjörður sé afskekktur og aðra að ekki sé nægt framboð á tæknimenntuðu fólki. Almennt kvarta atvinnurekendur sáran undan háum flutningskostnaði og benda á að hann sé um fjórðungi hærri frá Reykjavík til Ísafjarðar en sambærilega vegalengd frá Reykjavík suður og austur um land.

Fyrstu hugmyndir um úrræði snúa einmitt að þessum þáttum, samgöngum, lækkun flutningskostnaðar og menntamálum með aukinni áherslu á iðnmenntun og stofnun háskóla á Ísafirði. Allar þessar tillögur er á færi stjórnvalda að hrinda í framkvæmd. Spurningin er fyrst og fremst um viljann. Er hann fyrir hendi eða ekki. Ríkisstjórnin hefur haft 12 ár og það má heita nokkuð ótvírætt að vilji stjórnarflokkanna er fyrir neðan sársaukamörk.

Kannski tekur hún sig á í aðdraganda kosninga, en það verður að fenginni reynslu valt að treysta á þann vilja fram yfir kosningar. En engu að síður, ef ríkisstjórnin vaknar, stendur ekki á okkur í stjórnarandstöðunni að taka til hendinni næstu mánuði með henni.
Það má engan tíma missa.

Athugasemdir