Sex milljarða króna ræða Geirs

Pistlar
Share

Í framhaldi af pistli mínum á mánudaginn um fjármálafyrirtækin sem ekki borga skattinn hefur athygli beinst að því, sem ég benti á, að vaxandi tilhneiging er að færa eignarhald á hlutabréfum í sérstakt hlutafélag og skrá það erlendis, t.d. í Hollandi, þar sem hagnaður af sölu hlutabréfa er skattfrjáls. Þeir sem þann leik stunda eru að koma sér undan því að taka þátt í því að greiða kostnaðinn við rekstur heilbrigðis- og menntakerfisins svo eitthvað sé nefnt, en þeir hinir sömu njóta þjónustunnar að fullu.

Þetta finnst mér ekki eðlilegt. Mér finnst heldur ekki eðlilegt að ráðamenn tali upp í eyrun á hinum ábyrgðarlausu skattflóttamönnum og mæli upp í þeim að eðlilegt og sjálfsagt sé að koma sér undan ábyrgð og velta byrðunum yfir á herðar annarra. Þar er ég að gera athugasemd við ummæli forsætisráðherra á Viðskiptaþingi í fyrradag. Þar brást hann við þessari þróun með því að lýsa því að eðlilegt væri að breyta skattalögum hér á landi þannig að hagnaður af sölu hlutabréfi yrði skattfrjáls.

Því það sem er hér á ferðinni er viðhorfið: auðmenn án ábyrgðar. Menn sem afla sér mikilla tekna með kaupum og sölu á hlutabréfum hafa hingað til borið 10% skatt af hagnaðinum. Það eru ekki neinar drápsklyfjar í samanburði við launamenn, sem greiða að meðaltali um 25% tekjum sínum í skatt til hins opinbera. En nú er boðað að fella þennan hóflega skatt aflveg niður.

Á síðasta ári voru framtaldar fjármagnstekjur um 120 milljarðar króna og álagður skattur 12,2 milljarðar króna. Langstærsti hluti fjármagnsteknanna , liðlega helmingur, er hagnaður af sölu hlutabréfa. Forsætisráðherrann er að boða 6 milljarða króna skattlækkun í ræðu sinni. Hann bregst við skattasmugunni með því að ætla að leggja skattinn af í stað þess að breyta lögum þannig að áfram verði unnt að skattleggja hagnaðinn hérlendis.

Langstærstur hluti af skattalækkuninni mun renna til 1% tekjuhæstu framteljendanna, sem samanstendur af 600 hjónum og 1.072 einstaklingum. Þessi hópur, tæplega 2.300 manns, taldi fram með liðlega 51 milljarð króna í hagnað af sölu hlutabréfa af þeim 62 milljörðum króna sem söluhagnaðurinn var alls. Þetta þýðir að um 82% af allri skattalækkun Geir Haarde rennur til mjög fámenns hóps, sem hefur hæstu tekjurnar í þjóðfélaginu. Skattalækkunin á mann yrði miðað við skattframtöl 2006 að meðaltali 2.2 milljónir króna.

Það er dágóð búbót. Og það sem meira er menn geta haft 22.3 milljónir króna í tekjur án þess að greiða nokkurn skatt, ef áform ráðherrans ná fram að ganga.
Ef launþegar fyndu leið til þess að tekja tekjur sínar fram erlendis í lágskattaríki ætlar forsætisráðherrann að lækka skattana samsvarandi? Hver á þá að standa undir velferðarkerfinu? Aldraðir og öryrkjar?

Athugasemdir