Er ríkisstjórnin að falla?

Greinar
Share

Er ríkisstjórnin að falla? Þegar ákvæði stjórnarsáttmálans ná ekki fram að ganga er það skýlaust merki þess að stjórnarsamstarfið er að liðast í sundur. Í sáttmála núverandi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er eftirfarandi ákvæði í kaflanum um sjávarútvegsmál:

"Ákvæði um að auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar verði bundið í stjórnarskrá".

Skipuð var nefnd til þess að undirbúa breytingu á stjórnarskránni. Í henni eiga sæti fulltrúar allra flokka sem sæti eiga á Alþingi. Nefndin hefur kynnt tillögur sínar, enda ekki seinan vænna. Leggja þarf fram frumvarp á Alþingi og afgreiða það sem lög fyrir þinglok, sem verða um miðjan mars. Reyndar er nefndin aðeins með eina tillögu, sem lýtur að því að framvegis verði breytingar á stjórnarskránni samþykktar í þjóðaratvæðagreiðslu. Allt í lagi með hana, enda hef ég t.d. flutt sambærilega tillögu á Alþingi sem er til meðferðar hjá þingnefnd.

En hvergi er að finna tillögu um að auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar eins og stjórnarflokkarnir sammæltust í upphafi kjörtímabilsins. Hvorugur flokkurinn hefur dregið til baka stuðning sinn. Ég veit ekki annað en að allir stjórnarandstöðuflokkarnir hafi lýst yfir stuðningi við málið. Hver er þá vandinn? Svör sem ég hef fengið eru á þá lund að ágreiningur sé uppi, en ekki hver geri ágreininginn. Að því gefnu að stjórnarandstaðan standi við stuðning sinn er augljóst að ágreiningurinn er innan stjórnarliðsins.

Þá vaknar spurningin. Er sá ágreiningur af hálfu annars stjórnarflokksins og beinist gegn hinum? Ef svo er þá stendur stjórnarsamstarfið völtum fótum. Það má rifja það upp að það hefur verið flokksstefna Framsóknarflokksins síðan 2001 að setja umrætt ákvæði inn í stjórnarskrá. Krafan um þetta ákvæði í stjórnarsáttmálanum kom frá Framsóknarflokknum.

Það tengist ákvörðun um sjávarútvegsstefnu Framsóknarflokksins sem afgreidd var haustið 2001 á miðstjórnarfundi eftir mikil fundahöld og harðan ágreining. Þá varð það niðurstaðan að styðja óbreytt kvótakerfi gegn því að einmitt þetta ákvæði kæmi inn í stjórnarskrána um þjóðareignina á auðlindum sjávar. Það var lykilatriði í niðurstöðunni og varð til þess að meirihluti náðist innan flokksins fyrir óbreyttu kvótakerfi.

Ég stóð ekki að þessari niðurstöðu og sagði við það tækifæri að þarna hefði verið valin leið útgerðarmanna. En ákvað að una niðurstöðunni og vinna að því að hrinda henni í framkvæmd, enda ávinningur í stjórnarskrárákvæðinu þrátt fyrir allt. En viti menn, nú þegar dregur að því að efna stjórnarsáttmálann gufar málið upp í óljósum ágreiningi. Hvað veldur? Er Sjálfstæðisflokkurinn að ganga á bak skuldbindinga sinna? Getur það verið að LÍÚ hafi það sterk tök innan Sjálfstæðisflokksins að flokkurinn stöðvi málið? Eða er draugagangur innan Framsóknarflokksins?

Nú duga engin loðmollusvör, leiðtogar stjórnarflokkanna verða að gefa skýr svör eða er það kannski stjórnarandstaðan sem leggst gegn málinu? Og ef svo er hvenær var það ákveðið innan stjórnarinnar að stjórnarandstaðan ráði því hvort ákvæði stjórnarsáttmálans nái fram að ganga?

Athugasemdir